Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Notó í Köben!

Nei, í þetta skipti er ástæða þagnar minnar ekki óyfirstíganleg vinna heldur frí og afslöppun.  Við Halldór erum búin að vera að njóta veðurblíðunnar undanfarna daga, sem reyndar var ekki svo mikil í dag.  Hann var svo heppinn að Helgi hringdi í hann (yfirmaður hans) og sagði honum að sýningarnar þriðjudag og miðvikudag yrðu felldar niður, svo hann fékk tvo auka frídaga.. á launum!  Hvernig er hægt annað en njóta þess?!!  Við erum búin að hjóla út um allt hreinlega, á mánudaginn sóttum við stelpuna úr vöggustofunni og hjóluðum svo til Sigrúnar og Andy í kaffi og svo annars bara búin að vera hjólandi út og suður.  Alveg hreint dásamlegt!  Hnéð á mér er allt að liðkast og ég er viss um að ég verð bara komin í fantaform eftir sumarið LoL.

Ég er loooksins búin að fá út úr öllum prófum og er bara alveg í skýjunum með einkunnirnar mínar... alla nema eina.  Það er í barnabókmenntum, námskeiði sem ég er búin að vera að kvarta undan frá upphafi.  Meingallað námskeið og enn gallaðri próf.  Ég er bara alveg hundfúl með þetta námskeið enda fékk ég 7 í lokaeinkunn.  Eeeen... í hinum námskeiðunum gekk mér svona líka ljómandi asskolli vel!!! Lokaeinkunn Efnismenningar var 9, lokaeinkunn kenninga í kynjafræðum var 9 (inn í því var 40% ritgerð sem ég fékk 9,5 fyrir Grin) og lokaeinkunn karla og karlmennsku var 9,5!!! Ég er bara, eins og ég skrifaði áður, alveg hreint í skýjunum yfir þessu.  

Ég er svo að fara til Gautaborgar með Kalla mínum um helgina, með stuttri viðkomu hjá Önnu vinkonu í Lundi, en í Gautaborg ætla ég að fara á bókasafn háskólans sem á víst að eiga mjög góða Paraguay deild. Þar ætla ég að viða að mér alls kyns greinum og bókum sem nýtast mér við skrift B.A. ritgerðarinnar sem ég ætla að fara að byrja á.  Ég vona að það gangi allt vel.  Sigrún og Andy ætla að hafa krakkana meðan Halldór er að sýna á laugardaginn en svo verð ég komin aftur áður en hann þarf að mæta á þriðjudaginn (hann er í fríi sunnudag og mánudag).  Ég hlakka voða mikið til að koma til Gautaborgar, enda hef ég aldrei komið þangað.. allavega ekki svo ég muni Joyful.  Kalli er náttúrulega þaulvanur þarna og getur sýnt mér hina stórkostlegu borg, enda bjó hann þar í nokkur ár meðan hann var í námi við háskólann þar.  

Halldór fór sem sagt að vinna sinn fyrsta dag eftir fjögurra daga frí í dag.. og var EKKI að nenna því.  Hann er voða mikið að falla inn í hygge sig menningu þeirra Dana LoL.

Stelpan vaknar orðið upp 30 sinnum á nóttu, greinilegt að tennur eru eitthvað að reyna að myndast við að koma upp.  Það var svo fyndið annars í dag þegar ég sótti hana á vöggustofuna að það var ekki séns að fá hana heim!  Hún var að vega salt þegar ég kom, skríkjandi af hamingju og svo hljóp hún beint í einhvern svona lokaðan hlaupabíl, lokaði hurðinni og þegar ég opnaði hana til að taka hana út þá gargaði hún og skellti á mig hurðina og sagði: NEI!!! Ég náði henni þó á endanum gargandi út úr bílnum (þá var ég búin að vera í ca. 20 mín. á vöggustofunni / garðinum með henni) og við hjóluðum okkur svo heim.

Eysteinn er svo með næstu tónleika á miðvikudaginn næsta, 3. júní.  Þá er einhver hátíð í klúbbnum, hlakka til að sjá þau aftur :)  Það er annars búið að vera lítið um hefðbundna kennslu hjá honum undanfarið, fóru í myndlistaskóla í tvo daga, svo eru alltaf skólagarðar öðru hvoru þar sem hann er búinn að sá fyrir gullrótum og alls kyns káli pota niður útsæði og alls kyns góðgæti fyrir okkur sem verður gaman að borða síðar á sumrinu.

Jæja, gott í bili... stelpan er vöknuð... aftur GetLost.

Bless í bili! 

 


Frumsýning: Søren Østergaard's Tivoli Varieté: Nu stopper det!

Hún Lóa var svo yndisleg að koma til mín í gær og vera hjá börnunum svo ég kæmist á frumsýninguna hjá Halldóri.  Anna vinkona kom með lest frá Lundi og beið mín á Hard Rock café... mér brá ekki þegar ég sá furðulegan mann sitja við borðið hjá henni og tala við hana.  Hugsaði bara ,,Auðvitað!  Engin laðar furðufólk eins auðveldlega að sér og Anna LoL -Hún er þekkt fyrir það!!!  Þegar við komum inn á svæðið var fullt af fólki fyrir utan Glersalinn og við slökuðum okkur bara þar til við sáum fólk vera að þyrpast inn.  Halldór var þarna tilbúinn á sínum stað og stökk til okkar í smá spjall fyrir sýninguna.  Við fengum sæti á besta stað, á öðrum bekk við enda sviðsins, beint fyrir aftan mónítor LoL.  Sýningin var svo ótrúlega skemmtileg að ég þurfti að laga svarta tauma sem runnu niður kinnar og maskara mig upp á nýtt og mér var orðið svo illt í brosvöðvunum að ég var alveg búin í andlitinu!

Eftir frumsýninguna settumst við Anna bara út á svalir á veitingastaðnum við hlið Glersalsins, fengum okkur Mojito og hófumst handa við að fá upplýsingar hvor hjá annarri um það hvað á daga okkar hefði drifið.  Ooooo hvað var yyyndislegt að hafa Önnu þarna bara hjá sér Joyful.  Frumsýningapartýið var komið á fullt swing þarna við hliðina á okkur og Halldór stóð nánast við hliðina á mér þegar hann hringdi í mig til að vita hvar við værum.  Við vippuðum okkur því niður af svölunum og slógumst í hópinn.  Þar var líka þessi líka fíni fríkeypis bjór á boðstólnum!  Það kom þarna fullt af tækniliði og spjallaði við okkur, það var alveg ótrúlega gaman!  Halldór kom í tvígang, annað skiptið með sviðstjórann og hitt skiptið með hljómsveitarstjórann, til mín, þar sem þeir höfðu þá spurt hann hvort ég væri stödd þarna, og þökkuðu þeir mér kærlega fyrir afnotið af honum og báðust afsökunar á álaginu sem þeir höfðu sett á herðar hans og að leiðin hefði verið löng en endað vel og eitthvað svoleiðis. Svo hitti ég á meistarann sjálfan þarna, Søren Østergaard (sem er nokkurs konar Laddi hérna, allir þekkja hann og hann er mikið með svona skemmti-show hérna), og þakkaði honum kærlega fyrir frábæra sýningu, hann spurði mig þá hvort ég væri ekki konan hans Halldórs (sem ég var alveg rasandi á því hann var ekki með mér og ég hef aldrei hitt Søren áður) og ég játti því.  Þá þakkaði hann mér alveg kærlega fyrir lánið og bað mig afsökunar á því hvað hann hefði verið undir miklu álagi og hann væri svo ánægður með útkomuna.  Ég var aaaalveg rasandi hissa á þessu öllu saman.  Ég hef bara aldrei kynnst öðru eins... að allir biðji mig afsökunar á því hvað Halldór hefur verið undir miklu álagi.. og ekki er þetta nú í fyrsta skipti sem það er LoL.  

Við skemmtum okkur alveg konunglega þarna þar til búið var að slökkva nánast öll ljós í Tívolí.  Þá komum við okkur bara út og fengum okkur í svanginn fyrir heimferð.  Þetta var SVOOOO gaman!!!

Svo vöknuðum við í morgun í aaaaaaaaæðislegu veðri, 23ja stiga hita og logni.  Sem betur fer er bara ekki of mikil sól.  Við erum bara búin að sitja úti í garði og spjalla og svo gekk ég með Önnu niður á lestastöð þar sem hún er á leiðinni heim til Lundar aftur.  Ég er svo hamingjusöm að vera búin að fá hana Önnu mína til mín hingað Grin.

Nú sefur engillinn minn bara úti í vagninum og stóri engillinn er bara að hygge sig enda Kristni-himnafretadagurinn í dag (Kristi-himmelfartsdag / Uppstigningardagur)

Er hægt að hafa það meira dejligt?!!! Joyful 

 


18. maí!

Já, í dag hefði mamma orðið sextug!

Skrítið hvað tíminn flýgur og hvað stutt er síðan við vorum saman komin í fimmtugsafmælinu hennar.  Við Halldór fórum niður í bæ og ákváðum að halda upp á daginn með því að borða á mexíkönskum stað þar sem við skáluðum fyrir mömmu.  Veðrið var yndislegt, sól og hiti.  Hann fór svo í vinnuna og Eysteinn hitti mig því við ætluðum að kaupa fótboltaskó á hann.  Sem við og gerðum og sóttum svo Jódísi á vöggustofuna á heimleiðinni.  Vorboðinn ljúfi... Íslendingurinn, er kominn til Kaupmannahafnar.  Vart þverfótað fyrir Íslendingum á röltinu á Strikinu.  Fyrsta fólkið sem við hittum inní H&M var íslenskt LoL

Gaman að þessu! Joyful

 Annars er ég náttúrulega búin að hugsa mikið til mömmu í dag og kertin hafa verið kveikt til minningar um hana.  Samt bara í god humør og að njóta dagsins.  Vöknaði reyndar pínulítið um augu þegar mér varð litið á nöfnu hennar þar sem hún sat að snæðingi, með jógúrt um aaallt andlit, alsæl með sig, og mér varð hugsað til þess hvað það hefði verið yndislegt ef þær hefðu getað kynnst Jódísirnar Joyful.  Hún krúttast bara upp með degi hverjum þetta barn, þó ég segi alveg sjálf frá.  Ég er öll orðin marin og blá eftir Halldór.. já, af því að hann getur ekki kreist barnið í klessu og verður því að kreista mig LoL.

Við höfum það bara fínt Joyful

Bless í bili! 


BÚIN!!!

Ég er búin!!!  Ég er BÚIN!!!  ÉG ER BÚIIIIIIN!!! LoLGrinLoLGrin

Ég er eiginlega hálf eirðarlaus núna þegar ég er búin að skila af mér þessum ritgerðum og bara ekkert próf til að lesa fyrir... Halldór í vinnunni og Eysteinn úti með vinum sínum og stelpan sofandi úti í vagni.  Það rignir reyndar eldi og brennisteini hérna núna... loksins náði ég að koma sólinni til Íslands!  Já, ég er búin að vera að taka til og þrífa.. sem var svo sem ekki vanþörf á, en fæ um leið samviskubit yfir að vera ekki að læra LoL.  Svona sest lærdómurinn á sálina Tounge.  Ohhh.. ótrúlegt að vera búin, eins og mér fannst þetta engan endi ætla að taka bara fyrir 3 dögum síðan.  Ég held ég hafi sjaldan verið eins fegin í lok annar og núna.  Reyndar verður fríið ekki langt, ég þarf að fara að bretta upp ermarnar að nýju og byrja á B.A. ritgerðinni.. en ég ætla að taka mér HEILA viku í frí!!!

Allt loksins farið að ganga hjá Halldóri, rennslið í gær gekk mjög vel og honum fannst hann vera ,,kominn með þetta!" eftir æfinguna.  Þó um æfingar sé að ræða þá eru milli fimm og sexhundruð áhorfendur á þeim og selt inn á þær.  Ég fer svo á frumsýninguna á miðvikudaginn. 

Eysteinn kom alveg í skýjunum heim í gær, hafði verið í lestrarprófi og fékk C.  Sem er náttúrulega bara frábært miðað við hvað hann er búinn að vera stutt.  Hann fékk mikið hrós frá kennaranum og var rígmontinn yfir að hafa sko ekki verið lélegastur í bekknum Joyful.  Honum er líka búið að ganga mjög vel í öllum upplestraræfingum og yfirleitt bara með einhverjar 2-3 klaufavillur sem hann er dauðsvekktur yfir því hann veit að hann getur gert þetta villulaust.

Stelpan... já hún er bara alsæl á vöggustofunni eins og alltaf, þau eru farin að vera meira og minna bara úti í garðinum og staðalbúnaður er sólhattur og sólkrem áður en hún leggur af stað þangað.  Það minnkar ekkert skapið eða ákveðnin með aldrinum en hún er bara svo mikið krútt.  Er farin að horfa í augun á manni og halda heilu ræðurnar.. og aumingja mamma skilur ekki neitt Errm.  En það er kominn mikill skilningur og mig langar að kremja hanna í klessu þegar hún segir ,,Já!"  Ég held að engin á jörðinni hafi sagt ,,Já!" eins sætt og hún gerir LoL.

Og svo er eurovision í kvöld.. og aaaallar Norðurlandaþjóðirnar með!  Jeyjjj!!!  Þetta verður baaara gaman!!!

Góða skemmtun í kvöld!

Bless í bili 


Stubbur!

Jódís og EysteinnÉg er í miðjum ritgerðarskrifum núna og get þ.a.l. ekki hellt mér í bloggskriftir en varð bara að henda inn einni færslu um það hversu yyyndisleg börn ég á.  Hann Eysteinn er sko búinn að vera betri en enginn núna þegar ég er búin að vera í prófatörn og ritgerðarskilum og Halldór fastur í Tívolíinu á æfingum.  Hann hefur tekið stelpuna út í göngutúra og leikið við hana og verið svo góður, bæði við mig og hana.  Svo er hann svo duglegur að styðja mig og knúsa mig fyrir hvert próf og óska mér góðs gengis.  Svo er hann ætíð fyrstur manna til að spyrja hvernig mér hafi gengið og hvetur mig óspart í ritgerðarskrifunum.  Hann var einmitt að enda við að spyrja mig hvernig gengi og þegar ég svaraði honum að það gengi bara vel þá sagði hann ,,Reyndu bara að hafa sem mest gaman af þessu, þá gengur það svo miklu betur".  Hann er bara svo yndislegur þessi drengur Joyful .  Hlakka til þegar ég er búin og get farið að sinna þessum börnum mínum af meiri alúð án þess að svarið verði alltaf ,,Nei, veistu, það er bara svo mikið að gera hjá mér, kannski seinna".  

Prófin búin!

Já, ég kláraði síðasta prófið mitt klukkan rétt rúmlega eitt í dag (og þá er bara ein ritgerð eftir og þá er ég búin).  Gekk út í sólina ánægð yfir að vera búin, ánægð yfir að hafa gengið vel og ánægð yfir að veðrið væri jafn yndislegt og raun bar vitni.  Ég rölti mér í rólegheitum niður á Nørreport og þaðan niður á Kolatorg.  Þar var svo mikið líf og mikið af fólki að ég ætlaði varla að geta fengið borð þar.  En ég fann nú samt eitt og settist niður með ískalt hvítvín í sólinni og hitanum og naut þess að vera til og vera í Kaupmannahöfn og hlusta á þrjá ferlega skemmtilega spila saman ýmsar skemmtilegar jazz-útgáfur af hinum og þessum þekktum lögum.  Þetta er ástæðan fyrir að við búum hérna.  Jiii hvað þetta var yndislegt!

Halldór er á fullu í vinnunni og farinn að sýna á opnum æfingum á kvöldin.  Hann er samt ennþá að mæta á morgnana þar sem tölvan er eitthvað að stríða honum.  Ég vona nú að hún sé hætt að plaga hann, því nóg er nú samt fyrir hann að gera þó hann þurfi ekki á þessu að halda í ofanálag.

Eysteinn ánægður í skólanum og með vinum sínum, er úti núna með Anders og litla krútt heimilisins situr hér við hliðina á mér alsæl með hafrakoddana sína í kvöldmat.  Hún vildi ekki sjá nokkuð annað! Það væri synd að segja að hún sé ekki með sjálfstæðan vilja stelpan.  

Það var verið að tala við Eurovision expert þeirra Dana áðan þar sem fyrri forkeppnin er í kvöld.  Hann var að lýsa hinu og þessu í kringum keppnina og sagði að Danir kepptu ekki fyrr en á fimmtudaginn en vonaði að sjálfsögðu að Svíar, Íslendingar og Finnar kæmust áfram í lokakeppnina á laugardaginn.  Mér fannst það sætt Grin

Jæja, ætla að fara að setja stelpu í ból og fleygja mér af öllu afli í sófann!!! Er eitthvað svo rosalega búin á því eftir daginn, örugglega bara spennufall Joyful

Bless í bili!

Viðbót:  

Þar sem ég sit hérna horfandi á Eurovision á DR1 og hlustandi á Sigmar í útvarpinu (mig langaði til að hlusta á grínið hans milli laga... sem hefur ekki verið eins gott hjá honum eins og þeim danska) þá biðum við Eysteinn náttúrulega eftir Jóhönnu.  Ég verð nú að viðurkenna að ég hef aldrei fílað þetta lag neitt sérstaklega og var eiginlega hundsvekkt þegar hún vann keppnina heima.  En þetta var helv.. flott hjá henni og ég fékk alveg gæsahúðina þegar hún renndi sér upp undir lok lagsins.  Nú verður hún bara að komast áfram... andsk.. hafi það Angry Grin 

..Önnur viðbót:

YEEEESSSSSSS!!!!! LoLGrinLoL HÚN KOMST ÁFRAM!!! Vá hvað þetta var orðið spennandi.  Úff bara! 


Prins er fæddur í Danaveldi!

Já, Jóakim og Marie fæddist prins kl 04:57 í morgun eftir um 10 tíma fæðingu.  Prinsinn var 3032 gr. og 49 cm.  Prinsessu og prinsi heilsast vel Grin.

Danir eru svooo mikil krútt!  Þetta var ,,breaking news" og blaðamenn biðu í alla nótt á spítalanum og svo var tekið viðtal við Jóakim þegar hann kom niður um sex leytið í morgun þar sem hann tilkynnti um fæðingu prinsins og að þó þetta væri nú í þriðja skiptið (fyrir á hann synina Nikolai, 9 ára og Felix, 6 ára, með fyrrum eiginkonu sinni Mary) þá væri þetta alltaf jafn spennandi og alltaf jafn stórt!  Já, þetta rúllar hérna á sjónvarpsskjánum fyrir framan mig og viðtalið við Jóakim í morgun var svo ægilega sætt og spurningarnar svo krúttaðar, eins og enginn hefði nokkurn tímann eignast börn og þetta væri alveg nýtt LoL.

Annars allt fínt héðan, það kom nú ekkert mikil rigning hérna í gær og ekki fyrr en eftir klukkan 18, og í dag átti að vera ausandi rigning, enn er sólin að skína en þungbúið svo ég býst við að fara að rigna upp úr hádegi.  Oooog ég ætla að fara að lesa Joyful

Bless í bili! 


Gleðilegan verkalýðsdag!

Halldór er búinn að vera að vinna mikið síðan hann byrjaði, var m.a. að vinna fyrir Helga (yfirmanninn) í gær í Páfuglaleikhúsinu.. eða eitthvað svoleiðis.. við að snúa sveif á fullu.  Þessar sveifar settu inn og út leikmyndir en hann sagði mér að þetta væri elsta leikhús þeirra Dana og þar væri enn allt keyrt upp á gamle måden.  Það er svo bara allt að byrja á fullu hjá honum á morgun, þ.e. hljómsveitin mætir og mér skilst að nú verði bara æfingar til 20. maí, þegar verkið verður frumsýnt.  Við sátum úti í gærkvöldi þegar Halldór kom heim og Steffen settist hjá okkur.  Halldór sagði honum frá þessu öllu saman og þá er þessi Søren sem er með þessa sýningu landsfrægur skemmtikraftur og búinn að setja upp heilmargar sprenghlægilegar sýningar undanfarin ár.  Ég hlakka mikið til að sjá þetta.

Annars er ég búin að vera á fullu í náminu, var í prófi í gær, sem gekk bara ágætlega að ég held, er að vinna í þremur ritgerðum, fer svo í próf næsta miðvikudag og svo síðasta prófið 12. maí.  Þá verð ég búin!  Þannig að ég ætlaði bara að skrifa færslu þess efnis að ég muni örugglega ekki blogga mikið á næstunni.  Annars eru örugglega ekkert það spennandi tímar framundan hjá okkur heldur.  Ég ákvað að fórna mér og senda sólina til Íslands á sunnudag og leyfa ykkur að hafa hana allavega frameftir vikunni, sé til hversu örlát ég verð, enda kemur þessi tími sér svo vel fyrir mig þar sem ég verð bara innilokuð að lesa.  Vona að þið njótið vel :)  Ég verð þá bara í rigningunni á meðan Joyful.

Annars allt gott, allir hressir og aaaalveeg nóg að gera.

Bless á meðan! 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband