Bloggfærslur mánaðarins, maí 2011

18. maí

Við Siggi með mömmu í Skógarnesi í kringum 1995

Í dag eru 62 ár síðan mamma mín fæddist.  Og árin eru orðin rúmlega sex síðan ég kvaddi hana og akkúrat sex síðan við jarðsettum hana.  Þó það trufli mig ekkert í daglega lífinu þá verð ég alltaf svolítið brothætt hvern 18. maí og hvern 23. apríl sem upp kemur á dagatalinu.  Fæðingar- og dánardegi hennar.  Nærvera hennar er sterkari og minningarnar bjartari þessa daga.  Að hugsa um hversdagslega hluti eins og þegar síminn hringdi og ég sagði ,,Halló!" og fékk tilbaka: ,,Arnrún mín?"  myndar stóran kökk í hálsi og ég verð aftur bara 10 ára og þarf á mömmu minni að halda.  En þannig er kannski sorgin og söknuðurinn eftir foreldrum sínum, maður verður bara aftur að barni.  

Mér þykir líka vænt um hvað við pabbi og bræður mínir erum samstíga í því að koma saman og minnast hennar á þessum dögum.  Eins og við gerum í dag og gerðum í apríl.  Ekkert grand, bara koma saman út við leiði, sé þess kostur, og eyða tíma saman.  Það er notalegt og algjörlega í hennar anda því hún var svo mikil sósíaltýpa Joyful.  

Myndin sem ég setti hér með er af okkur Sigga með mömmu og litlu skottunni Eyrúnu Gyðu (sem nú er víst komin vel undir þrítugt Tounge) þar sem við erum á besta stað í heimi, Skógarnesi, með bæinn og Hafursfellið í bakgrunni.  Greinilega á leið í Svartbakseggjatínslu.  Ein af mörgum góðum minningum Joyful.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband