Færsluflokkur: Dægurmál

29. júní

Halldór: Jódís, hvað eigum við að gera?

Jódís: Fara í sund!

H: Ef þú biður mig fallega, þá skal ég fara með þér í sund

J: Komdu í sund!

Arnrún: Biddu pabba fallega, svona: Elsku pabbi, viltu koma í sund?!

J:  Pabbi, komdu NÚNA í sund!


18. maí

Við Siggi með mömmu í Skógarnesi í kringum 1995

Í dag eru 62 ár síðan mamma mín fæddist.  Og árin eru orðin rúmlega sex síðan ég kvaddi hana og akkúrat sex síðan við jarðsettum hana.  Þó það trufli mig ekkert í daglega lífinu þá verð ég alltaf svolítið brothætt hvern 18. maí og hvern 23. apríl sem upp kemur á dagatalinu.  Fæðingar- og dánardegi hennar.  Nærvera hennar er sterkari og minningarnar bjartari þessa daga.  Að hugsa um hversdagslega hluti eins og þegar síminn hringdi og ég sagði ,,Halló!" og fékk tilbaka: ,,Arnrún mín?"  myndar stóran kökk í hálsi og ég verð aftur bara 10 ára og þarf á mömmu minni að halda.  En þannig er kannski sorgin og söknuðurinn eftir foreldrum sínum, maður verður bara aftur að barni.  

Mér þykir líka vænt um hvað við pabbi og bræður mínir erum samstíga í því að koma saman og minnast hennar á þessum dögum.  Eins og við gerum í dag og gerðum í apríl.  Ekkert grand, bara koma saman út við leiði, sé þess kostur, og eyða tíma saman.  Það er notalegt og algjörlega í hennar anda því hún var svo mikil sósíaltýpa Joyful.  

Myndin sem ég setti hér með er af okkur Sigga með mömmu og litlu skottunni Eyrúnu Gyðu (sem nú er víst komin vel undir þrítugt Tounge) þar sem við erum á besta stað í heimi, Skógarnesi, með bæinn og Hafursfellið í bakgrunni.  Greinilega á leið í Svartbakseggjatínslu.  Ein af mörgum góðum minningum Joyful.


Bloggið endurvakið? Jah, kannski!

Ég er búin að vera að velta því fyrir mér undanfarnar vikur hvort ég ætti ekki að fara að skrifa eitthvað á þetta blogg mitt.  Ég velti því reyndar líka mikið fyrir mér hvort ég ætti ekki að skipta um slóð og setja eitthvað annað nafn á bloggið því hingað til hefur það verið mjög persónulegt að því leyti að það hefur frekar þjónað mér sem dagbók en blogg, svona fyrir fjölskyldu og vini á Íslandi meðan við bjuggum í Danmörku, og ég hef látið skoðanir mínar liggja milli hluta og ekki verið að útvarpa þeim... jah, eða frekar ,,blogga" þeim.

Ég er samt bara að spá í að hafa þetta svona beggja blands í dag.  Bara bæði í sniði dagbókar og um mál líðandi stundar, fortíðar eða framtíðar, svona eftir því hvernig liggur á mér.   

Nú til dæmis liggur ljómandi vel á mér!  Við vorum að koma frá Gúnda Krabb, eins og ég kýs að kalla hann (reyndar bara akkúrat núna) þar sem eiginmaðurinn fékk svona ljómandi fínar niðurstöður úr myndatöku og blóðsýnum og öllu mögulegu.  Hann eisaði semsagt prófið með glans!  Skrýtið, ég var alveg viss um að þetta færi svona og ég sá það einhvern veginn ekki fyrir mér að þetta væri komið aftur, samt sem áður var spennufallið svo gríðarlegt þegar við hjónin gengum út að mér var eiginlega allri lokið.  Við bara stoppuðum á miðjum ganginum og héldum utan um hvort annað í smá stund.  Ég hafði bara ekki hugmynd um að ég hefði hlaðið þessarri spennu innra með mér sem orsakaði þetta spennufall.  

Í dag giftu sig líka ungu hjónin í Buckinghamhöll og svo á morgun eru sex ár síðan við jarðsungum hana móður mína.  Tíminn er svo afstæður að ég veit ekki hvort ég á að segja að það sé langt síðan eða stutt.  Ég man hins vegar ekki mikið eftir þeim degi.  Bara brot og brot.  Það er ágætt!

Er þetta ekki bara ágætt svona fyrsta blogg í þetta langan tíma?  Ég held það!  Það lesa þetta hvort eð er ekki margir, eftir þögn í svo langan tíma Joyful

 


Gift!

Já, við erum gift!!  Grin

Það gerðist allt laugardaginn 7. ágúst, með athöfn í Fríkirkjunni og veislu í Þjóðleikhúskjallaranum.  Mikið rosalega sem það var allt gaman.  Meira um það og myndir síðar!

 


Gæsun - Steggjun

Ég fékk sko alveg frrrábæra gæsun á sunnudaginn þegar ég var sótt hingað heim af lögreglunni sem færði mig fallega í grasagarðinn þar sem vinir mínir voru saman komin til að bjóða mér í bröns í pavillion-inu þar.  Kampavín og jarðaber, dásamlegt veður og enn betri félagsskapur.  Eftir rúnt um fjölskyldugarðinn var farið á Pósthúsið og drykkur drukkinn þar til tími var kominn til að fara með verðandi frúna á veitingastaðinn Við tjörnina.  Þar var búið að taka frá fyrir okkur æðislegt herbergi þar sem við sátum saman og snæddum dýrindis rétti.  Kvöldið endaði svo á drykk á Café París eftir tæplega 12 tíma frrrrábæran dag og er ég í skýjunum yfir deginum og vinum mínum sem eru best í heimi!!!!

Í þessum skrifuðu orðum er svo verið að steggja Halldór og veit ég að það er ekki síður gaman hjá honum Smile  Ég hins vegar notaði daginn til að græja ýmsa hluti sem þurfti að græja og sé fram á að hafa í nógu að snúast fram að deginum stóra... sem er á laugardaginn Grin  Ég er skoooo farin að hlakka til!!!!

Yahoooo!!! 


Staðan þann 31. júlí 2010

Halldór laus við krabbann úr eitlum - tékk!

Halldór laus við krabbann úr beinmerg - tékk!

Ég komin í sumarfrí - tékk! 

Vika í giftingu - tékk!

Plokk og lit - tékk!

Kjóll og skór - tékk!

Jakkaföt á Halldór - tékk!

En fuuullt annað eftir eins og:

Halldór fer í geislameðferð í lok ágúst

Halldór fer í stofnfrumusöfnun í september

Halldór hefur eftirmeðferð... hugsanlega í september

og hellingur eftir að gera fyrir giftinguna líka.. en það er nú bara gaman Smile

 


Tengd!

Já við erum loksins orðin tengd! Þetta tók sinn tíma. Við fluttum í Stórholtið fyrir að verða tveimur vikum síðan og fengum búslóðina okkar frá Eimskipi í gær svo nú vitum við hvað við höfum að gera. Allt annars bara ágætt hér en ég ætla að blogga betur seinna.

Kveðjur frá vorblíðunni í Stórholtinu


Flutningur II

Eysteinn er farinn í skólann, verður svo síðasta skóladaginn sinn á morgun.  Ég sit ein með kaffibollann minn, Halldór og Gulla sofa ennþá Joyful.  Lóa og Þröstur voru svo yndisleg að hafa Eystein hjá sér á laugardagsnóttina meðan við hjónaleysin og frænkan fórum út á lífið.  Við ákváðum að nota tækifærið og fara í fyrsta skipti saman á pöbbaröltið síðan við fluttum til Danmerkur.  Við litla fjölskyldan ferðuðumst til fuglaparsins og svo hittum við Halldór Gullu á Blasen, Íslendingapöbbnum, á eftir og þá var hún búin að fá tvo vini sína til sín.  (HP-flatköku)-Grímur og systurdóttir hans duttu síðan inn á barinn síðar um kvöldið og saman fórum við hersingin á röltið sem meðal annars fól í sér heimsókn á Jail-house hommabar með MEIRU (allt út í rimlum og barþjónninn í fangavarðabúning LoL og svo dönsuðum við mambó og salsa og fleira skemmtilegt á Mambo-club.  Þetta var svooo gaman!!!

En þýddi líka að gærdagurinn var svolítið erfiður.  Fuglaparið kom með Eysteini hingað og hjálpaði okkur við að mála í gær en við náðum ekki alveg að klára þar sem málningin kláraðist Crying.  Svo við verðum að halda því áfram í dag.  En þetta ætti samt ekki að setja mikið úr skorðum þar sem við höfðum, samkvæmt Excel-skjalinu, klárað svo margt á laugardaginn sem átti ekki að gera fyrr en í dag og á morgun.  Þannig að við ættum að vera ca. á áætlun Wink.

Jæja.. ég er að hugsa um að fara að gera eitthvað svo við höldum okkur nú örugglega á áætluninni.  Hér er sko ekki slegið slöku við!

 


Heiman förum við heim!

Já við erum komin heim á Rørmosevej en bara til að pakka og spartla og mála og allt svoleiðis.  Við höfum hana Gullu frænku meðferðis sem er sko búin að setja verkefnið upp á Excel-skjal svo þetta verði nú allt saman gert rétt og á réttan hátt.  

Við fengum svo dásamlegan tölvupóst í gær.  Leigjendur okkar hafa fundið sér aðra íbúð, skrifað undir leigusamning þar og flytja í byrjun mars!! Svo við fáum íbúðina okkar aftur bara fljótlega eftir að við komum heim LoL.

Jæja.. má ekki vera að þessu, þarf að fara að:

þrífa, pakka, spartla, mála.....  


Home sweet home!

Þá er það ákveðið að við ætlum að flytja okkur öll aftur til Íslands.  Kemur svo sem ekki á óvart en þó ákvörðun sem var ekki auðvelt að taka.  Við erum því að fara, öll nema Jódís Guðrún, út næsta föstudag og verðum í rúma viku að pakka og ganga frá íbúðinni.  

Íbúðin okkar er til útleigu fram á næsta vetur svo nú er að reyna að finna sér einhvern samastað fram til þess að hún losnar.  Allar ábendingar um ódýr húsnæði í Reykjavík vel þegnar Joyful.  Og svo er að fara í atvinnuleit og vonast til að Jódís Guðrún komist inn á leikskóla sem fyrst.  Að ýmsu að huga!

Jón, föðurbróðir Eysteins, vissi af hljómsveit sem vantaði bassaleikara og Eysteinn fór að líta á aðstæður í gær og leist svona ljómandi vel á.  Strákarnir náðu vel saman og mér skilst að fyrsta æfing Eysteins sé bara á morgun.  Hljómsveitin er hérna á Selfossi svo að þegar við verðum flutt til Reykjavíkur sé ég fram á að æfingar verði þá um helgar Smile.  Það er búið að bóka ,,gigg" skilst mér í sumar, hérna á Selfossi, sem verið er að æfa fyrir svo nú er Eysteinn orðinn bassaleikari hljómsveitarinnar Nykur.  Frábært! Wink

Halldór fór í blóðprufu í síðustu viku sem sýndi að hann virðist vera að bregðast vel við lyfjunum og höfðu þau gildi sem átt að hækka, hækkað og þau sem áttu að lækka, lækkað.  Það var líka komin niðurstaða úr beinmergsýninu sem sýndi að krabbinn er líka þar.  En læknirinn sagði að það breytti svo sem ekki miklu fyrst hann væri hvort eð er orðinn svona dreifður, í öllum eitlum.  Hann var jafnframt bjartsýnn á að ná að ,,hreinsa" Halldór og þegar það verður búið verður hafist handa við að safna beinmerg til að eiga til góða ef krabbinn tekur sig upp aftur og á þyngri meðferð þarf að halda, sem felur þá í sér að dæla í hann eigin stofnfrumum úr hans eigin beinmerg.  Halldór fer í næstu lyfjagjöf 16. febrúar, þ.e. á þriðjudaginn næsta, og svo fljúgum við út á föstudaginn.  Vona bara að lyfjagjöfin fari eins vel í hann og síðast, og það eru náttúrulega allar líkur á því Wink

Jæja, ég held þetta sé komið gott að sinni.

Knús á ykkur! 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband