Bloggið endurvakið? Jah, kannski!

Ég er búin að vera að velta því fyrir mér undanfarnar vikur hvort ég ætti ekki að fara að skrifa eitthvað á þetta blogg mitt.  Ég velti því reyndar líka mikið fyrir mér hvort ég ætti ekki að skipta um slóð og setja eitthvað annað nafn á bloggið því hingað til hefur það verið mjög persónulegt að því leyti að það hefur frekar þjónað mér sem dagbók en blogg, svona fyrir fjölskyldu og vini á Íslandi meðan við bjuggum í Danmörku, og ég hef látið skoðanir mínar liggja milli hluta og ekki verið að útvarpa þeim... jah, eða frekar ,,blogga" þeim.

Ég er samt bara að spá í að hafa þetta svona beggja blands í dag.  Bara bæði í sniði dagbókar og um mál líðandi stundar, fortíðar eða framtíðar, svona eftir því hvernig liggur á mér.   

Nú til dæmis liggur ljómandi vel á mér!  Við vorum að koma frá Gúnda Krabb, eins og ég kýs að kalla hann (reyndar bara akkúrat núna) þar sem eiginmaðurinn fékk svona ljómandi fínar niðurstöður úr myndatöku og blóðsýnum og öllu mögulegu.  Hann eisaði semsagt prófið með glans!  Skrýtið, ég var alveg viss um að þetta færi svona og ég sá það einhvern veginn ekki fyrir mér að þetta væri komið aftur, samt sem áður var spennufallið svo gríðarlegt þegar við hjónin gengum út að mér var eiginlega allri lokið.  Við bara stoppuðum á miðjum ganginum og héldum utan um hvort annað í smá stund.  Ég hafði bara ekki hugmynd um að ég hefði hlaðið þessarri spennu innra með mér sem orsakaði þetta spennufall.  

Í dag giftu sig líka ungu hjónin í Buckinghamhöll og svo á morgun eru sex ár síðan við jarðsungum hana móður mína.  Tíminn er svo afstæður að ég veit ekki hvort ég á að segja að það sé langt síðan eða stutt.  Ég man hins vegar ekki mikið eftir þeim degi.  Bara brot og brot.  Það er ágætt!

Er þetta ekki bara ágætt svona fyrsta blogg í þetta langan tíma?  Ég held það!  Það lesa þetta hvort eð er ekki margir, eftir þögn í svo langan tíma Joyful

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband