Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009

Áramótin á næsta leiti

Leitin mikla að kalkúni í gær endaði með því að ég fékk eina bringu.  Já, allur dagurinn fór í það að ganga verslana á milli og leita að kalkúni.  Ástæðan?  Jú, salmonellusýking í stofninum Woundering.  Eitt brjóst var uppskeran, sem slapp þó vel þar sem það er rúm tvö kíló, svo verða bara tvær kjúklingabringur með Wink.  Búið að versla flugeldana og sprengidótið allt og skúra gólfin.  Freyðivínið komið í kæli og sængurfötin komin í viðrun úti á snúrum enda akkúrat rétta veðrið í það Joyful.  Búið að prufa snúruna sem færir okkur áramótaskaupið úr tölvunni í sjónvarpið svo nú er bara gamanið framundan Smile.  Húsið mun fyllast af góðu fólki sem ætlar að halda upp á áramótin með okkur.

Elsku vinir og fjölskylda, við þökkum ykkur liðið ár og öll undanfarin ár og vonum að þið eigið yndislegt áramótakvöld.

Knús frá Rørmosevej

Arnrún, Halldór og Jósteinn jr. 


Þessi fallegi Dagur!

Það er sólskin, stilla og fallegt veður.  Ekkert planað í dag.  Við ætlum út að hjóla! Joyful

Jólin eru alls staðar með jólamatinn og gjafirnar

Jóladagur:

Mætt hjá Sigrúnu og Andy rétt fyrir klukkan tvö þar sem Erla tók á móti okkur en hin öll voru í Íslendingamessu þar sem Sigrún var að syngja.  Dagurinn byrjaði með kaffi og kökum.  Þegar líða tók á daginn var lærið sett inn í ofninn og mynd sett í tækið.  Bubblur og snakk, Foi Gras og tilheyrandi, lífrænt danskt lambakjöt og heimatilbúinn eftir þetta allt saman.  Jii minn eini hvað ég var södd þegar öllu þessu var lokið, eða allt þetta var étið.  Og vegna þess að þessi fjölskylda er einstaklega eftirtektasöm voru jólagjafirnar sérlega viðeigandi þetta árið.  Tvö smellu-kökuform frá Sigrúnu, þar sem ég hafði fengið lánuð tvö.  Frá Erlu fékk ég kafaragleraugu svo ég gæti séð út úr augum ef ég lenti aftur í því að hjóla í snjókomu.. hún sagði að skíðagleraugun hefðu öll verið svo dökk.  Og auk þess fylgdi góð krukka af Foi Gras... hamminammm!!!  Eysteinn fékk rosalega flotta Nike hettupeysu frá henni í stíl við nýju skóna Wink og Tinnabók frá S+A.  Jódís fékk æðisleg föt frá Erlu og frábærar bækur frá Sigrúnu.  Já við vorum sko þvílíkt leyst út með gjöfum Joyful.

Annar í jólum:

Lóa og Þröstur komu svo klyfjuð spilum og matarafgöngum í gær sem við brytjuðum niður og settum í tartalettur.. sko bara matarafgangana, ekki spilin.  Það var þríréttað: Andatartalettur, hangikjötstartalettur og kjúklingatartalettur (sem ég bjó til því jólaafgangurinn okkar hafði klárast, hamborgarhryggurinn þ.e.)  Þetta var allt hvert öðru betra og svo til kláruðum við allt saman.  Bara nokkrar eftir til að narta í í dag Tounge.  Svo spiluðum við fram á nótt.  Voða voða gaman.

Jóladagurinn þriðji: 

Í dag er svo hangikjötsboð heima hjá Pétri en mamma hans og systir flugu hingað í gær og tóku með sér vænan skammt af hangikjöti.  Það verður voða gaman að sjá þau öll aðeinsJoyful.

Svo er bara ekkert planað fram að áramótum þegar húsið fyllist af fólki hjá okkur.  Von á lágmark fimm ef ekki sjö manns til okkar í kalkún og áramótaskaup, það verður fjör! Grin 

Jæja, gott að sinni

Bless í bili! 


Gleðileg jól!

Við gerðum þjófstart á jólin í gær þegar við fengum til okkar Einar og Mörtu í hangikjöt.  Sendingin hafði klikkað til þeirra svo við gátum ekki látið þau fara hangikjötslaus í gegnum jólin.  Og til að fullkomna það höfðum við laufabrauð með.  Við höfðum nefnilega verið hjá Sigrúnu og Andy kvöldinu áður og skorið út laufabrauð með þeim og Erlu og krökkunum sem flogið höfðu frá Frakklandi kvöldinu þar áður.  Sigrún og Erla steiktu svo herlegheitin og Sigrún gaf mér helminginn með okkur heim.  Þetta var alveg rosalega gaman, með eplaskífum og jólaglöggi Joyful.

Allavega.. Við borðuðum dýrindis hangikjöt og svo á eftir fórum við í pakkaleik sem þau kenndu okkur.  Þá hafði hver lagt einn pakka í pottinn og svo var teningaspil og mikil læti þegar verið var að stela pökkum hægri vinstri (já í allar áttir) undir mikilli tímapressu skeiðklukkunnar.  Þetta var alveg rosalega gaman.

Svo var kominn aðfangadagur jóla sem hófst með því að feðgarnir fóru í fótbolta en í dag var sem sagt leikur, feður á móti sonum.  Synirnir unnu leikinn en mér skilst þó að þetta hafi verið harður og jafn leikur.  Eysteinn stóð sig eins og hetja, líkt og alltaf, í markinu.  Á meðan á þessu stóð dúlluðum við stelpurnar okkur hérna heima við að skreyta jólatréð og taka til ásamt því að ég byrjaði að undirbúa matinn.  En þar sem jólamaturinn í ár var hamborgarhryggur þurfti svo sem ekki mikinn undirbúningstíma.  Já, jólagrauturinn í forrétt þetta árið og enn og aftur átum við of mikið af honum, öll nema Eysteinn sem hafði vitið fyrir sér og borðaði bara pent af honum og fékk þó möndluna.  Nei, hann var nefnilega hættur að borða þegar við lögðum spilin á borðið og enginn var með möndluna.  Hann tók þá eina skeið til viðbótar af disknum sínum og viti menn.. þar var hún LoL.

Við gerðum það að ásettu ráði að fresta jólunum um klukkutíma.  Það er bara jólalegra að geta hringt þau inn með RUV og setjast að borðum og það var einmitt það sem við gerðum.  Kosturinn var náttúrulega líka sá að við græddum klukkutíma á því Wink.

Eftir nartið í kjötið (því við vorum svoooo södd) nema Eysteinn.. hann borðaði, enda ekki að springa eftir grautinn, já þá var farið í pakkana.  Eysteinn mikið spenntur en þó farinn að ná að hemja sig og gerði sitt allra besta til að njóta hverrar mínútu.  Þetta var alveg dásamlegt.  Jódís fann sig alveg í pakkahlutverkinu, var orðin ótrúlega seig að rífa utan af gjöfunum og stundum mátti hún ekkert vera að því þar sem hver spennandi hluturinn á fætur öðrum var töfraður fram undan pappírnum sem hún bara varð að fá að handfjatla og skoða.  Hreint dásamlegt að fylgjast með henni.  Eysteinn var svo ánægður með sínar gjafir að hann var að springa og við bara öll.  Þvílíkt flottar gjafir sem við fengum frá öllum.  Og, þetta voru góð bókajól.  Ég fékk frá þeim nýju Dan Brown bókina, Det forsvundne tegn, eða Týnda táknið eins og ég held hún heiti upp á íslenskuna.  Ég hafði svo keypt nýju Carlos Ruiz Zafón bókina, Leikur engilsins, handa honum og pabbi gaf okkur nýja Arnald.  Börnin fengu fullt af bókum líka, svo öll munum við liggja í bókum öll jólin Grin.  Ég get hreinlega ekki beðið eftir að leggjast uppí og byrja að lesa Arnald, því ég veit að ég fæ ekki Carlos Ruiz fyrr en Halldór er búinn, enda við búin að bíða eftir þessari bók í nokkur ár Joyful.  

Jódís mátti ekkert vera að því að fara að sofa og náðum við að setja hana upp í klukkan hálf tólf þegar hún var orðin gjörsamlega stjörf í framan (þó ekkert pirruð samt), með því að setja nánast allar gjafirnar hennar í rúmið með henni, hún bara VARÐ að fá að skoða þær allar svolítið lengur Grin.

Á morgun er svo jólaboð hjá Sigrúnu og Andy og ég hlakka mikið til að eyða deginum með þeim.  Heimalagaður ís er okkar framlag í boðið Wink.

Læt fylgja nokkrar myndir frá deginum

Jódís að skreyta tréðJódís að skreyta tréð í lit :)Himnaríkisgrjónagrauturinn borðaður með bestu lystHimneskjan í nærmyndJódísi fannst grauturinn æðislega góðurRáðist á pakkana!Allir alsælir með gjafirnar sínar

 

Elsku fjölskylda og vinir.  Okkar bestustu bestu óskir um gleðileg jól og áframhaldandi gleði eftir þau.  Tölvuknús verður að duga í bili þar til við hittumst næst.

Góða jóla-nótt! 

 


Aðventan

Börnin voru lengi að ná veikindunum úr sér og Jódís Guðrún nældi sér í sýkingu í tannholdið sem varð til þess að lakið var allt út atað í blóði eftir hverja nótt.  Með pensillíni (sem ég held að sé fyrsti skammturinn hennar.. ef minnið svíkur mig ekki) náði hún þó þessu úr sér en það var ekki auðvelt að koma því í hana.  Halldór greyið mátti standa í því að ganga með hana milli lækna meðan ég var í húsmæðraorlofi á Íslandi.  Ég þurfti að hafa mig alla við til að vera ekki að farast úr samviskubiti yfir að skilja hann einan eftir í þessum aðstæðum.  Það gekk að mestu leyti, þó ekki öllu.  En hann var hinn rólegasti yfir þessu öllu saman þegar ég kom aftur heim.  

Ferðin til Íslands var hreint dásamleg.  Pabbi var svo yndislegur að sækja mig á völlinn og skutlaði mér beint í mat á Núðluskálina þar sem ég fékk bæði að knúsa Sigga og Kristján auk þess sem ég náði að metta hungraðan munn eftir flugið.  Jiii hvað þetta er flott og gott hjá þeim!!!  Um kvöldið fór ég svo með Gullu út í Viðey þar sem hún var að leiðsögumannast í friðarsúluferð og var það rosalega næs þar sem hópurinn var fámennur og því túrinn miklu persónulegri.  Það var alveg frábært og algjör stilla á eynni.  Flott að sjá súluna, mánann og smá norðurljós samankomin þarna fyrir ofan eyna.  Daginn eftir fór ég með rútunni strætó á Selfoss og beint á jólatónleika í Selfosskirkju þar sem öll fjölskyldan svo til báðum megin var samankomin í söng og hljóðfæraleik.  Rosa gaman að hitta þau svoleiðis Joyful og kvöldinu eyddi ég í Baugstjörninni með tengdafjölskyldunni.  Ofsalega notalegt, eins og alltaf Smile.  Ég hitti svo Betu og Heiðu daginn eftir og fékk svo far með Önnu Árna í bæinn aftur.  Ég var svo bara í Reykjavík alla vikuna þar til ég fór og gisti hjá Sigga og Kristjáni og borðaði í Núðluskálinni.  Náði svo til að prufa alla réttina Grin sem hverjir voru öðrum betri.  Alveg hreint yyyndislegt að vera hjá þeim strákunum og henni Úmu litlu.  En sex dagar eru afskaplega fljótir að líða, sérstaklega þegar maður hefur það gott og gaman, og ég var í flugvélinni á leiðinni til Kaupmannahafnar aftur áður en ég vissi af.

Jódís Guðrún fór loksins á vöggustofuna aftur á mánudaginn og er búin að vera hin hressasta.  Hún var búin að bæta heilum helling við orðaforðann á þessum stutta tíma og þá aðallega í boðhætti: Farðu! Komdu! Sestu! Fram! og fleiri orð sem hún notaði til að skipa föður sínum fyrir verkum.  Henni fannst með hreinum ólíkindum hvað ég gat verið ósvífin að hlýða henni ekki á stundinni þegar hún ætlaði að reyna þetta á mig.  En þetta er allt á réttri leið núna þegar hún er að hressast.  Sumt má bara þegar maður er lasinn, það verður að lærast Joyful.

Já stelpan bara hætt með bleiu og hefur gengið alveg rosalega vel.  Á sunnudaginn í strætó þurfti hún að pissa og ég sagði henni að hún væri með bleiu og hún mætti alveg pissa bara í hana.  Neibb.. bleian var þurr þegar við komum heim og hún pissaði í klósettið.  Hélt bara í sér.  Hins vegar gleymdi hún sér eitthvað á mánudeginum á vöggustofunni og ,,lavede stort" eins og þær segja þar, beint í nærbuxurnar og sokkabuxurnar.  Ég fór í gær til að fjárfesta í fleiri nærbuxum þar sem það gengur ekki fyrir hana að vera í samfellum þegar  engin er bleian.  Gallinn er bara sá að það er ekki gert ráð fyrir að svona litlar og nettar stelpur hætti á bleiu.  Minnstu nærbuxurnar eru að lágmarki númeri, ef ekki tveimur númerum of stórar á hana svo þær hanga alveg utan á henni.  Hún vex í þær Wink.  

Loftslagsráðstefnan er enn í gangi hér, eins og flestir vita, og varð ég vitni að ægilega miklum mótmælum á Nørreport í gær þar sem allar götur voru lokaðar og álíka margir lögregluþjónar og mótmælendur á svæðinu.  Hér eru sko engir sénsar teknir og er daglegt brauð að sjá litla rútu-kálfa þjóta framhjá manni fulla af löggum með sírenur í botni og blikkandi ljós.  Ég hef líka séð talsvert af lögreglurútum og mikið um að heimavarnaliðið sé á rölti með lögreglunni.  Allt fullt af löggum alls staðar niðri í bæ.

Svo byrjaði bara að snjóa í gær en fyrir alvöru um það leyti sem ég var að hjóla með stelpuna á vöggustofuna í morgun.  Mig sárvantar skíðagleraugun mín þar sem öll snjókornin hreinlega soguðust að augunum á mér þannig að ég átti í mestu vandræðum með að halda augunum opnum.. sem er viss galli þegar maður er að hjóla.  Og það er bara allt að verða hvítt hérna og mér sýnist á veðurspánni framundan að við gætum bara fengið hvít jól hérna, allavega á að vera frost alveg fram að Þorláksmessu en þá gæti reyndar snjónum rignt burtu.. kemur í ljós Woundering.

Jæja, gott að sinni

Bless í bili! 

 


Veikindi á heimilinu

Mikið kvef búið að hrjá börnin á heimilinu og Jódís var svo komin með hita í gær.  Eysteinn var orðinn slappur en fór þó í skólann og í nótt var hann svo kominn með rúmlega 39 stiga hita.  Svo þau eru núna bæði heima, Eysteinn inni hjá sér í Playstation og Jódís Guðrún við sjónvarpið að horfa á Nemó... enn eina ferðina Pinch.  Röðin er sem sagt Stubbarnir -> Bangsímon -> Nemó.  Spurning hvað tekur við eftir Nemó.  Allavega víst að ég verð það verður þá spilað nógu lengi til að ég geti lært það utanbókar.  En það er voða gaman að henni.  Í ,,skelfilegu" atriðunum heyrist í henni ,,Ó nei!" og stundum, ef hugrekkið bregst henni, kemur hún hlaupandi í fangið á manni til að vera á öruggum stað meðan skelfingin á sér stað.  

Þröstur kíkti í heimsókn til okkar í gær og var mjög svo imponeraður þegar hún aðspurð sagði hann heita ,,Höstur".   Fannst hún geta sagt nafnið betur en fullorðinn Daninn.  Sjálf heitir hún hins vegar Údís.  

Við foreldrarnir höfum sem betur fer sloppið við veikindin að mestu hingað til og nú er ég bara að vinna hörðum höndum að því að verða aaaalls ekki veik, því ég ætla EKKI að eyða dögunum á Íslandi lasin Pinch. Ég kem sumsagt á laugardaginn og verð í tæpa viku.  Ég hlakka náttúrulega voða mikið til að ná mér í smá íslenska jólastemmningu til að taka með mér út aftur (og kannski eitthvað ilmandi jólalegt líka Tounge)

Jæja gott að sinni

Bless í bili! 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband