Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Nilfisk

Já, við fórum í gær og sóttum okkur ryksuguna sem ég var búin að minnast hér á fyrr.

Nilfisk_Coupe

Hún er algjört yndi Joyful.  Ég fékk algjört æði í gær þegar hún var komin í hús og prufaði alla stútana sem fylgdu henni LoL.  Sjáið bara hvað hún er falleg Grin.  Við komum líka við hjá grænmetissalanum en það var lítið til hjá honum blessuðum.  Ég tók eftir um daginn að svolítið frá honum (þeir eru reyndar þrír við sama götuhornið en ég versla yfirleitt hjá honum) var Dani búinn að raða nokkrum brettum upp og setja á þau fullt af jarðaberjabökkum.  450 gramma bakki kostaði 15 kr. en tveir á 20.  Hjá grænmetissalanum ,,mínum" kostaði hins vegar 500 gr. bakki 10 kr.  Alveg æðisleg jarðaber, stór og sæt og æði.  Svo þegar við komum núna var Daninn búinn að færa út kvíarnar og kominn með nokkrar tegundir til viðbótar af ávöxtum og einhverju grænmeti.  Nú kostaði þessi sami 450 gr. bakki 20 kr. en tveir á 30.  Hmmmm???Woundering  Ég fór til grænmetissalans ,,míns" og sá að öll jarðaber voru búin hjá honum... aaaa... þar kom semsagt skýringin!  Öll ódýru jarðaberin voru búin hjá Tyrkjunum/Pakistönunum svo þá hækkaði Daninn verðið.  Svona ganga nú viðskiptin fyrir sig Wink.

Annars gleymdi ég að segja frá því að inn um lúguna kom frekar hart bréf.. eða stíft (eða hvernig sem maður segir það) frá Tívolí.  Stílað á Halldór, auðvitað.  Og hann opnaði umslagið og þá var þetta fallega kort inní umslaginu með mynd af sýningunni sem hann verður að stýra og hvað haldið þið að hafi staðið inni í því?  

,,Tivoli har hermed den store glæde at invitere til premiere onsdag den 20. maj. kl. 19:30 i Glassalen i Tivoli"

Jú, mikið rétt... boðsmiði á frumsýninguna handa mér Grin

Ég var bara svo hissa.  Heima hafa þeir nú ekki lagt í vana sinn að bjóða mér á frumsýninguna nema þegar Halldór hefur séð um hljóðmyndina.   

Annars er Halldór byrjaður að vinna, byrjaði í gær, og bara líst voða vel á þetta allt saman.  Ég með mín verkefnaskil og prófundirbúning.  Allt á fullu þar.. og mætti alveg minna vera Woundering.  Hvað er ég þá að þvaðra þetta hérna??  Ég verð að drífa mig að byrja svo ég nái að koma einhverju í verk í dag!

Bless í bili! 

 


Góð helgi að baki

Ég náði nú ekki alveg að klára prófið áður en hátíðin byrjaði í klúbbnum hans Eysteins.  Við vorum mætt tímanlega en samt var hljómsveitin hans byrjuð að spila.  Það var búið að reisa risa hvítt tjald á svæðinu fyllt bekkjum og fullt af fólki komið.  Þegar hann var svo búinn kom hann út freeeekar svekktur að við hefðum misst af honum.  Ég sagði honum að við hefðum heyrt í þeim fyrir utan og heyrt þegar hann hafi verið kynntur.  Ég sýndi honum svo að klukkan var enn fimm mínútur í þrjú, þó hátíðin hafi átt að byrja klukkan þrjú.  En allt í lagi, því þau áttu að spila meira í hléinu.  Við komum okkur því fyrir og horfðum á atriðin.  Þetta var svo glæsilegt að við stóðum (sátum) eiginlega bara gapandi.  Hljóðkerfi, kynnarnir, 14 ára stelpur, voru með sendi-mic og byrjuðu allar setningar á ,,Mine damer og herrer..." og svo voru hver metnaðarfullu atriðin á fætur öðrum, allir voru með og ótrúlega mikil fjölbreytni.  Allt frá dans- og söngatriðum, í karatesýningar og kraftlyftingar að ekki sé talað um trúða- og galdraatriðin.  Og allt svo flott og vel æft.  Og það gekk líka allt svo smurt, engin bið og ekkert vesen.  Kynnarnir kynntu næstu atriði meðan verið var að ganga frá og stilla upp fyrir næsta atriði og sögðu brandara ef það tók langan tíma.  Bara hreint ótrúlegt hvað mikill metnaður er lagður í barna- og unglingastarf hérna.  Við vorum mjööög imponeruð af þessu öllu saman.  Svo í hléinu kom hljómsveitin hans Eysteins aftur saman og spilaði fjögur lög sem Halldór tók upp á vídeó en við eigum eftir að setja inn á tölvuna svo ég set bara nokkrar myndir sem ég tók.  Við hendum svo inn vídeóinu þegar við erum búin að koma því í tölvuna.

HljómsveitinEysteinn einbeittur á trommunum

Lengst til vinstri er Anders á gítar, svo Jacob á bassa, þetta eru bestu vinir Eysteins, ég veit ekki hvað söngkonan eða hljómborðsleikarinn heita.  Mig minnir að hljómsveitin heiti Black dreams en ég leiðrétti mig síðar ef ég fer með rangt mál LoL.

Ég má nú til með að segja frá því að ég talaði við þann sem hefur verið með yfirumsjón með hljómsveitinni, strákur sem vinnur í klúbbnum.  Hitti hann fyrir utan tjaldið og var að segja hvað þau væru orðin ótrúlega góð á ekki lengri tíma.  Hann var svoleiðis upprifinn og fullyrti það að þau væru svo góð að ef þau héldu áfram að æfa þá yrðu þau vinsæl hljómsveit í Danmörku eftir svona fimm ár.  Ég hló nú bara og sagði ,,Já, heldurðu það?"  ,,Ég veit það!" sagði hann og sagði svo að þau væru svo klárir spilarar og mikill metnaður í þeim að þau hefðu náð gríðarlegum árangri á ekki lengri tíma en þetta.  Og það skein frá honum hvað hann var gríðarlega montinn af þeim.  Hann sagði mér svo að það yrði haldin sumarhátíð 3. júní þar sem þau myndu spila líka og þá myndu þau vera komin með flotta æfingu að spila fyrir fólk áður en þau spila á festivalinu í júlí.  Eysteinn er rosalega hrifinn af þessum strák, segir hann allt fyrir þau gera, alltaf vera til nýir gítar- og bassastrengir fyrir strákana og nóg af kjuðum fyrir hann og bara frábær metnaður fyrir þeirra hönd.  Gætuð þið ímyndað ykkur svona vinnu og metnað fyrir krakka á Íslandi?  Við héldum líka að þetta væri stórafmæli í klúbbnum, því það var svo komið saman aftur í klúbbnum um kvöldið og haldið afmælispartý.  En nei, þetta var semsagt 24 ára afmæli klúbbsins LoL.Allavega.  Við fórum náttúrulega í röðina að kaupa okkur eitthvað í gogginn og drekka á þessum blíðviðrisdegi og að sjálfsögðu varð Halldór að kaupa sér bjór... bara til að geta sagst hafa keypt sér bjór á fjölskylduskemmtun.  Okkur finnst þetta bara óendanlega fyndið LoL

Bjórkassarnir við borðiðHalldór með bjór og poppJódís kát í sandkassanum

Stelpan var nú ekkert of hrifin af því að vera föst inní tjaldi allan tímann svo við vorum mestmegnis útivið eftir hlé í góða veðrinu.  Við röltum okkur svo heim að loknum Cirkus þar sem ég átti enn eftir að klára prófið sem ég þurfti að skila inn fyrir tíu um kvöldið.Eysteinn og Anders að leika við Jódísi 
 Ég náði svo að klára prófið mitt á góðum tíma, enda átti ég nú ekki mikið eftir þegar ég fór á sýninguna, hafði unnið lengi frameftir til að eiga sem minnst eftir.  Eysteinn varð bara eftir með strákunum þegar við röltum okkur heim og svo ætluðu þeir feðgar að hittast um kvöldið niðri í klúbbi þar sem foreldrar voru boðnir með líka.  Við heyrðum ekkert frá stráknum og Halldór var einhvern veginn ekki að nenna einn í klúbbinn svo hann dró það bara að fara þangað til hann hjólaði niðureftir um klukkan hálftíu.  Þá var Eysteinn þar í miðri hjónabandsráðgjöf og vildi aaaalls ekki hafa pabba nálægt LoL.  Halldór hjólaði því tilbaka og sótti hann svo bara þegar þetta var að klárast og klukkan langt gengin í miðnættið.
 
Allir samankomnir og skugginn af Halldóri með... Sigrún og JódísStelpan að elta dúfurÁ heimleið um 6 leytiðSmá notó-stemmning í garðinumBlómatré í götunniÓtrúlega fallegt!
 
 
 
 
 
Við vöknuðum svo í gærmorgun í yndislegt veður og hitinn átti að fara uppyfir 20 gráðurnar svo það kom ekki annað til greina en að fara í einhvern garð að ,,hygge sig".  Við fundum fínan garð, ekki langt frá Nørreport, og hittum Einar þar.  Fundum okkur góðan stað þar sem við vorum ekki nálægt vatni svo ég gat verið nokkuð róleg gagnvart stelpunni.  Við breiddum úr okkur þar og drukkum kaffi sem við höfðum komið með á brúsa og nösluðum ýmislegt sem við höfðum keypt í Nettó og strákarnir fengu sér smá bjór.  Við lágum bara þarna og ég prjónaði og... GUÐ MINN GÓÐUR hvað þetta var yndislegt!  Stelpan svaf í kerrunni sinni í góða stund og Sigrún og Andy, ásamt vinafólki þeirra, komu og sátu hjá okkur góða stund.  Nú er ég hætt að þola ekki sunnudaga... SVONA eiga sunnudagar að vera! Joyful  Meira að segja Eysteinn lá bara með ipod í eyrum og var alsæll í sólinni.  Halldór tók myndir af okkur mæðgunum við blómatréð sem er í götunni.  Þetta er ekki ósvipað Kirsuberjatrjánum nema blómin eru miklu stærri á þessum trjám.  Alveg óóótrúlega fallegt, eins og sjá má.  
Við tímdum ekki að fara inn þegar við komum heim, Eysteinn hafði farið og hitt Jacob og Anders eftir að við vorum búin í garðinum, svo að við sátum heillengi úti í garði.  Hér koma menn frá ,,Sorpu" á vissum tímum ársins og taka biluð raftæki, svo fólk stillir þeim bara út á gangstétt.  Við gengum fram á sjónvarp í götunni hjá okkur, ásamt fleiri munum, og þegar Eysteinn kom heim spurðu þeir feðgar fólk sem bjó í húsinu hvort þeir mættu taka þetta.  Jájá!! Svo komu þeir með það inn og stungu í samband... þetta líka eðals sjónvarp.  Það var reyndar einn galli.  Það hafði einhver köttur náð að míga á það.. og inní hátalarana, svona í millitíðinni þannig að það angaði þvíííílíkt!  Við þrifum það eins og við gátum og svo bara spreyjuðum við Ajax inní hátalarana LoL.  Það er hætt að lykta og sjónvarpið virkar svona líka vel!  Ég er þar með laus við Playstationvélina úr stofunni... HJÚKK!!!

25. apríl - Kosningadagurinn sögulegi!

Hér gerast sko hlutirnir skal ég segja ykkur!

Ég var ekki búin að skrifa það held ég, en þvottavélin ,,okkar" er búin að gefa frá sér skrýtin hljóð í svolítinn tíma.  Það var búið að athuga hvort teinn væri í vélinni eða annað en ekkert fannst svo við ákváðum að kalla til viðgerðarmann sem kom meðan við vorum á Fróni.  Þegar við komum tilbaka hitti Hanne nágrannakona á mig (ég hafði beðið hana að taka á móti manninum) og lét mig fá vottorð frá honum um andlát vélarinnar.  MÅ IKKE BRUGES!!! stóð stórum stöfum.  Eitthvert gat einhvers staðar sem ég skildi ekki hvar.   Þar sem eigendurnir höfðu verið svo forsjálir að kaupa sér fimm ára ábyrgð þá rétt sluppum við í gegn með það að fá nýja vél í staðin, þeim að kosnaðarlausu.  Þess má geta að ábyrgðin rennur út í haust.  Nú!... ég á að hringja í eitthvert númer til að tala við einhvern hjá fyrirtækinu, sem ég og geri, og mér er sagt að ég fái nýja vél innan tveggja vikna, þá verði hringt í mig og ég megi sækja hana.  Ég spurði þá hvort þeir sendu hana ekki til mín, hvort ég þyrfti að borga sendingarkosnaðinn og fékk þá ,,Já, en við borgum vélina!"  Ég hugsaði með mér ,,Döhh já!  Það er búið að kaupa ábyrgð á hana!" en hló bara í símann og lét gott heita.

Allavega!  Við sáum svo þetta dúndur tilboð á örbylgjuofni og ég er búin að vera suða um örbylgjuofn síðan við fluttum út en aldrei fengið grænt ljós hjá skárri helmingnum (ekki endilega betri.. kannski ögn skárri bara Tounge).  Allt í einu langaði Halldór svo gífurlega mikið í samloku hitaða í örbylgjuofni að hann stökk á fætur og sagði, ,,hey... tékkum á þessu!"  Ég var alveg hissa og stökk af stað áður en hann myndi skipta um skoðun.  Við fórum niður á Nørrebro í Føtex og þá var svona ægilega mikið af góðum tilboðum þar svo við fundum enn betri örbylgjuofn á sama verði og auglýst í bæklingnum, og svo fann Halldór sér langþráð samlokugrill á spottprís LoL.  Þegar heim var komið fékk hann sér því ekki samloku í örbylgjuofni heldur ,,samloku í rist".  Nú trónir örbylgjuofninn á eldhúsborðinu, tekur náttúrulega ægilega mikið pláss, en ég fer alltaf í sæluvímu þegar ég sé hann inní eldhúsinu Grin Loksins, loksins!

Nema hvað!  Við fáum svo hringingu daginn eftir frá fyrirtækinu með þvottavélina og okkur sagt að ekki hafi verið til sama vélin svo hún hafi fundið eina sambærilega Electrolux vél með öllu A eins og hin var (þvottahæfni, þurrkun og rafmagnsnotkun) en hún sé reyndar 6 kílóa.  Ég samþykkti þetta fyrir hönd eigendanna á staðnum, alsæl með aukakílóið.  Þegar svo vélin kemur í gær þá er hún skal ég sko bara segja ykkur 1600 snúninga, 7 kílóa vél!!!  Þið getið rétt ímyndað ykkur fagnaðarlætin sem brustu út og ætluðu aldrei að hætta LoL.  Hún er SVOOO flott að ég gat með engu móti sett hana af stað í morgun.  Þurfti alveg að fara í gegnum leiðbeiningarnar og á endanum kom Halldór mér til bjargar.  Algjört æði!!! LoL

En þar með er ekki öll sagan sögð!  Við semsagt náðum á sínum tíma (*hóst*Halldór*hóst*) að bræða úr ryksugunni sem er á heimilinu og eigendur eiga. (Já en ekki hvað LoL).  Svo við verðum að kaupa nýja ryksugu.  Haldið að það hafi ekki komið þessi fína auglýsing um þessa líka flottu Nilfisk ryksugu, ægilega flott og fín, á voða miklum afslætti, sem við erum að hugsa um að fjárfesta bara í.  Voða rauð og falleg... allavega á auglýsingunni Tounge.  Þannig að nú erum við að verða búin að græja upp heimilið af þvílíkum 2007 mætti að annað eins hefur nú bara ekki sést í, jah.. 1 1/2 til 2 ár.  Og allt á svona líka spottprís og frítt!  Já og þess má geta að flutningsgæinn sem kom með vélina til okkar tók ekki í mál að við borguðum honum þar sem það væri búið að borga fyrir flutning og vélin væri tryggð og þ.a.l. ættum við ekki að borga krónu!  Hann sagðist senda reikninginn á fyrirtækið og við ættum ekki að koma nálægt því!  

Nema hvað!  Í dag er dagurinn sem Eysteinn er búinn að bíða eftir með óþreyju í marga mánuði.  Afmælisveisla klúbbsins Skrænten.  Hann á nefnilega að spila með hljómsveitinni sinni og byrjar giggið, sem kallast Cirkus, klukkan þrjú í dag (eitt að íslenskum) og stendur til klukkan fimm.  Svo er pása og svo er afmælisveislan sjálf klukkan sjö og stendur til miðnættis.  Það eru búnar að vera þrotlausar æfingar alla vikuna og hann hefur komið heim gjörsamlega búinn á því eftir það.  Á fimmtudag var svo generalprufa þar sem annar klúbbur kom og horfði á og svo í gær var önnur generalprufa þar sem fólk gat komið og séð.  Það þurfti að sjálfsögðu að kaupa sér aðgang að herlegheitunum, enda um ekta skemmtun að ræða.  Ég hlakka nú bara ekkert lítið til að sjá þá krakkana spila.  Ég hef aldrei séð Eystein spila á trommurnar og, eins og fyrr segir, bara get varla beðið.  Annars er kúltúrinn svolítið annar hér en heima og Eysteinn var að segja okkur að í gær var verið að bera inn 30 kassa af bjór til að selja í veislunni (að sjálfsögðu til okkar foreldranna LoL) en ég sæi þetta nú í anda gerast á Íslandi. 

Ég er semsagt stödd í miðju 33 tíma prófi (er því að stelast til að gera eitthvað annað), á eina spurningu eftir og ætla að klára þetta bara fyrir veisluna.  Ég sat því við langt fram á nótt að vinna og svaf því ögn lengur en hinir fjölskyldumeðlimirnir.  Ég var reyndar vöknuð þegar ég heyri Halldór segja við Jódísi Guðrúnu að fara inn í herbergi og vekja mömmu.  Ég heyri hana svo trítla til mín en í stað þess að reyna að vekja mig kveikir hún á tækinu sínu sem er með svona svefn-tónlist (sem við setjum oft í gang þegar hún á að fara að sofa), stingur upp í mig snuði sem hún heldur á og treður Gutta bangsa í fangið á mér.  Svo labbar hún sér út aftur LoL.  Er hún ekki BARA æði?!!!  Ægilega góð við mömmu.

Nú eru þau öll úti á labbi í góða veðrinu og ég les, og ég les í sól og sumaryl því að ég verð að ná í næsta sinn!!! Frown  Það á að vera 20 stiga hiti og glampandi sólskin á morgun.  Þá ætlum við SKOOO í piknik í einhverjum garði.  Og helst með Sigrúnu og Andy Smile.

Jæja... þýðir ekki lengur, nú er það bara harkan 7... nei 6 LoL.

Megið þið eiga góðan kosningadag.. ég er voða fegin að vera búin að þessu.  Ég væri ennþá óákveðin og myndi örugglega bara ákveða þetta í kjörklefanum eins og ég gerði þá Joyful

 


23. apríl

Það er ýmislegt sem kemur upp í hugann í tengslum við 23. apríl.  T.d. sumardagurinn fyrsti Smile.  Halldór Laxness átti þennan afmælisdag og þegar ég gúgglaði dagsetningunni sá ég að lög um gjaldmiðilinn okkar umdeilda, krónuna, eru skjalfest þennan dag árið 1968.  Það sem stendur mér þó nær er að í dag eru nákvæmlega fjögur ár síðan við fjölskyldan komum saman á dánarbeði mömmu á gjörgæsludeildinni.  Ætli það hafi ekki verið bara um þetta leyti sem við vorum beðin um að koma til hennar þar sem hún ætti ekki langt eftir.  Já, ég er að hugsa um að vera bara pínu á þessum nótunum núna þegar sólin skín svo fallega og það er 15 stiga hiti úti og yndislegt veður.  Það er skrýtið hvað tíminn er fljótur að líða en samt finnst mér líka eins og heil eilífð sé síðan þetta var.  

Stundum eru ótrúlega skrýtnar hugsanir sem sækja að manni og í síðustu viku, þar sem við vorum að keyra framhjá ríkinu á Selfossi varð mér litið að efri hæð hússins og ég hugsaði með mér að mikið óskaplega væri ég fegin því að hún hefði ákveðið að halda upp á 50 ára afmælið sitt þar sem hún fékk ekki tækifæri til að undirbúa sextugs afmælið sem er nú á næsta leiti.  

Ég sakna hennar alveg óskaplega mikið og ég sakna þess nú, þegar sólin fer hækkandi með degi hverjum og sömuleiðis hitinn, að hafa hana ekki hjá mér til að njóta þess með mér að vera hérna í Kaupmannahöfn því hún elskaði Kaupmannahöfn og varð alltaf hálf dreymin á svip þegar hún talaði um hana.  Og ég sakna þess að hún fái ekki að kynnast nöfnu sinni og ég sakna þess að hún fái ekki að fylgjast með Eysteini vaxa úr grasi og sjá hversu yndislegur og klár augasteinninn hennar er Smile.  Ég sakna samtalanna okkar og vináttu sem var svo sterk Smile.  Þó hún sé stöðugt í huga mér leyfi ég mér ekki að hugsa svona alla daga, en ég leyfi mér það í dag.  Ég er að hugsa um að leyfa mér bara að sakna hennar svolítið í dag og kveiki á kerti til minningar um elsku bestu mömmu mína í öllum heiminum Smile.

Blessuð sé minning hennar.


Komin aftur heim

Þetta var nú vægast sagt fljótt að líða!  Þrjár vikur flugu hjá eins og krassandi kjaftasaga, á ógnarhraða.  Heimferðin (til Kaupmannahafnar Cool) gekk bara hið besta.  Komum við á leiðinu hjá mömmu á leiðinni til Keflavíkur en stoppuðum stutt við þar sem það var eiginlega ekki stætt, svo mikið var rokið.  Þegar við komum inn í vélina eftir góðan tíma í flughöfninni tók ég eftir því að við höfðum ekki verið sett saman og blótaði stelpunni í check-inn-inu í sand og ösku því við vorum mætt svo tímanlega.  Svo leit ég aaaðeins betur á sætin og sá þá að hún hafði bókað A-C-D sæti, sem þýddi að B sætið var laust á milli okkar Eysteins og Halldór var svo hinum megin gangsins.  Þá þýddist ég nú öll og varð hin ljúfasta LoL ægilega sætt af henni að gera þetta svo við fengjum auka sæti fyrir stelpuna Grin.  Það munaði hreint ótrúlega miklu.  Og það verður bara að segjast eins og er að Icelandair hefur aðeins tekið sig saman í andlitinu undanfarin árin.  Það var miklu þægilegra að ferðast með þessari vél en Icelandexpress-vélinni sem við tókum á klakann.

Stelpan datt svo út korteri fyrir lendingu (bókstaflega) og ég hélt á henni sofandi að töskufæribandinu.  Ég var þá orðin hrikalega þreytt í bakinu enda þokkalega langur gangur þangað (vá hvað er mikið af -ang í því).  En hún vaknaði þegar ég var að brölta með vagninn af pallinum fyrir stóran farangur, þar sem ég ætlaði að reyna að leggja hana ofan í.  Þegar svo allar töskur voru komnar ákváðum við að koma við í 7-11 og versla brauð og mjólk og svona þar sem allt var tómt heima.  Gripum svo pulsu á leiðinni út í leigubílinn og brunuðum heim á leið.  Það var svo fyndið að sjá litla dömu trítla inn og kalla HÆ!  Svo fann hún dótið sitt og var svo sæl með sig, grafandi ofan í dótakassann sinn og keyrandi fram og aftur með gönguvagninn sinn.  Svo sá hún matarstólinn sinn, skríkti og hljóp að honum.  Klifraði sér upp í hann og vildi ólm að ég festi hana í beltið á honum.  Sú var ánægð að vera komin heim Grin.  Við ætluðum aldrei að koma henni niður en það tókst þó á endanum og skriðum við uppí alveg búin á því eftir það.

Það var svoooo gott að koma heim til Íslands og hitta alla og móttökurnar sem við fengum voru ofar öllum okkar væntingum.  Þið eruð náttúrulega besta fjölskylda í öllum heimageiminum!!!

Það var líka voða gott að koma heim til Köben aftur Joyful.  Allt orðið svo grænt og sólin skín og bara þónokkur hiti í henni Smile.  Drengurinn er farinn í skólann og ég ætla að fara að koma Jódísi á vöggustofuna.  Rútínan er sko bara fín líka Joyful.

 


Ísland gamla Ísland

Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir þá hef ég tekið mér frí frá blogginu meðan ég er stödd í góðu yfirlæti hjá vinum og vandamönnum á Íslandi.
Blogga þegar ég er komin aftur í veldi Dana.

Ble á me...


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband