Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Fréttir undangenginna daga

Það er svo ósköp lítið að frétta af okkur að mér finnst eiginlega varla taka því að vera að henda inn einhverju bloggi Undecided.  En jújú, Eysteinn fór í gær á fótboltamót til Roskilde með félaginu sínu en hann er farinn að æfa ásamt Jacob og Anders hjá KFUM sem er staðsett mitt á milli skólans og klúbbsins, svo það er ferlega þægilegt.  Hann verður fram á sunnudag og fékk ekki að taka með sér símann sinn svo ég treysti því bara að hann hafi það gott Wink.  Halldór er núna akkúrat um þetta leyti að hefja síðustu sýningu sína í Tívolí, allavega þetta sumarið, og var bara hress með það.  Það á síðan að vera eitthvað heljarinnar húllumhæ á eftir sem ég treysti líka að verði bara bráðskemmtilegt Smile.  Nú!  Við mæðgur vorum einar heima í gærkvöldi þar sem Eysteinn var þá farinn í fótboltaferðina og Halldór að vinna.  Við buðum Einari og Mörtu, og Lóu og Þresti á sýninguna og gerðum heiðarlega tilraun til að bjóða Sigrúnu og Andy, og Pétri og pabba hans líka en þau komust ekki.  En þau sem komust skilst mér að hafi skemmt sér svona strålende vel Joyful.  

Á morgun ætlum við svo að halda smá afmæliskaffi í tilefni tveggja ára afmælis dömunnar á mánudaginn og verðum við að vona að veðrið verði eins gott og í fyrra þegar við sátum bara úti í garði allan tímann Joyful.

Að öðru leyti er bara ekkert að frétta.. en fréttaveitan er opin allan sólahringinn og kemur þeim áleiðis um leið og þær berast.

Gott að sinni

Bless í bili! 


1 árs afmæli

Í dag er nákvæmlega eitt ár frá því við fluttum til fyrirheitna landsins.  Nákvæmlega núna, fyrir nákvæmlega einu ári síðan, vorum við að koma nýja rúminu okkar fyrir sem var þá nýkomið með heimsendingaþjónustu Ikea.  Ég get ekki lýst því hvað við vorum fegin að fá rúmið og hvað við vorum þreytt eftir daginn þegar við lögðumst upp í það.  Halldór var að vinna í allan dag fyrir Show Crue, aukavinnunni sinni, og kom ekki heim fyrr en um átta leytið en ég var samt staðráðin í því að við skyldum halda upp á afmælið og eldaði því dýrindis steik fyrir okkur og Eysteinn tók allt til í stofunni, kveikti á kertum og lagði á borð.  Hann lét síðan lagið okkar Halldórs í gang (yes... we've got a song Grin), Here, there and everywhere með Bítlunum, í gang akkúrat þegar Halldór steig inn.  Þá var maturinn líka akkúrat að renna í tilbúna gírinn.  Eysteinn sá til þess að við hefðum góða dinnermúsík undir matnum og þetta var bara dásamlegt.  Maturinn bragðaðist afbragðs vel og við höfðum það svo kósí.  Svo lék stelpan á alls oddi, trommaði í takt við Eystein og dansaði í takt við okkur þegar skemmtileg lög komu.  Svona eiga afmæli að vera Joyful.

Á föstudaginn var Eysteinn búinn að vera alla vikuna í danskennslu niðri á Nørrebro og það var komið að því að sýna afraksturinn.  Halldór var auðvitað að vinna, eins og alltaf á föstudags eftirmiðdögum svo við mæðgur héldum upp í ferð í þennan þáverandi grunnskóla og núverandi skóla.  Eysteinn Aron og Anders, besti vinur hans, tóku fagnandi á móti okkur úti á götu og leiddu okkur inn á skólalóðina.  Við foreldrarnir fengum svo að raða okkur á stólana sem búið var að koma fyrir og var ég svo heppin að fá bara pláss á besta stað fyrir miðju Joyful.  Fyrst sýndi 5.u og það var virkilega flott hjá þeim en svo var komið að 5.y, bekknum hans Eysteins, og á undan talaði einn kennaranna og útskýrði danssýninguna fyrir okkur.  Þau  áttu að finna eina jákvæða mynd og eina neikvæða í tímariti eða dagblaði og vinna einstaklings dansa út frá þeim.  Þema dansins var jörðin og alheimurinn og mikið unnið með svart og hvítt, enda voru föt krakkanna bara í svörtu og hvítu.  Hann sagði að fyrst hefði þeim ekkert litist á blikuna þar sem allir hefðu bara sýnt skotárás sem neikvæðu myndina og kossa sem jákvæðu myndina og erfitt hefði verið að vinna út frá því.  Svo hafi þau ákveðið að para stráka og stelpur saman og þá hafi gerst eitthvert undur og komið ótrúlega skemmtilegt kombó út frá því sem hefði hreinlega lyft íþróttasalnum  (sem við sátum í) upp á annað plan.  Kennararnir voru þrír, ein nútíma dansari og tveir break- og street dansarar.  Svo kom hópurinn inn og allir lágu á gólfinu.... Nema Eysteinn Aron, sem stóð einn á miðju gólfinu og sneri frá okkur.  Lagið byrjaði svo.. ,,Lord you´re gonna leave me, all by myself" og Eysteinn dansaði einn á meðan allir lágu og mimaði með textanum þannig að það var eins og hann væri að segja þetta og svo risu allir hægt upp og showið hófst.  Litla stolta mömmuhjartað tók þarna nokkur aukaslög vegna framkomu sonarins sem var frrrrábær!!!  Hann var svoooo flottur!  Öll danssýningin þeirra var líka svo flott og svo æðislega gaman að sjá hvað þau höfðu skapað sjálf og hvernig þeim hafði verið kennt að færa það í svona flottan búning.  Hreint frábær sýning í alla staði.  Verstur fjandi að ég fann ekki vélina til að taka með, svo þið verðið bara að taka mig trúanlega Tounge.

Pétur og Tanja kíktu til okkar á laugardeginum í yyyyndislegu veðri þar sem við settumst bara út með morgunkaffið og sátum enn úti þegar þau komu.  Halldór þurfti reyndar að fara fljótlega í vinnuna en kom svo aftur um kvöldmatarleyti.  Á sunnudeginum var veðrið líka svona frábært svo við ákváðum bara að kíkja til Einars og Mörtu, enda hafði ég aldrei komið til þeirra, þau alltaf bara til okkar.  Þá var Marta búin að baka svo fínt handa okkur og leggja á borð og bara þvílík flottheit.  Pétur og Tanja komu svo þangað og við fórum svo fljótlega bara út í garð til að njóta veðursins.  Það var svo erfitt að yfirgefa partýið að þau ákváðu bara að bjóða okkur í pizzu líka, sem við og þáðum og fórum því ekki heim fyrr en um átta leytið um kvöldið.  Þá var líka búið að fara í Yfir með nokkur óþroskuð epli og í leikinn Í grænni lautu og annað skemmtilegt.  Alveg hreint frábær dagur Joyful.  

Við Halldór ákváðum síðan að fara með eina umsókn fyrir vinnu handa mér bara á staðinn, svona til að sjá aðstæður, þar sem það er vel út úr Kaupmannahöfn, aðeins norðar en Farum.  Það var enn og aftur meiriháttar gott veður, sól og blíða.  Við stoppuðum við í Farum í bakaleiðinni og fengum okkur að borða og komum aðeins við í hjólabúð sem Thomas, gamall vinur mömmu og pabba á.  Aðeins að kasta á hann kveðju.  Það var gaman að sjá hann svona 20 árum seinna og hann sagði mér að annar úr blokkinni (sem við bjuggum í) hafi kíkt fyrr um daginn LoL Skemmtileg tilviljun!

Hringt var í Halldór og hann beðinn um að mæta í vinnu hjá Show crue 1,2 og 3, sem hann og gerði... tveimur tímum síðar  Joyful þar sem kom á daginn að einn hafði hreinlega dottið niður dauður þarna fyrr um daginn.  Einn Íslendingur, Jón Hjörtur, og einn dani náðu þó að pumpa hann í gang áður en sjúkrabíllinn kom, svo hann er sprell-alive í dag.. sem betur fer!

Í morgun var Halldór svo mættur í vinnu hjá Show Crue klukkan 7 og ég fór með stelpuna á vöggustofuna og þaðan til Lóu þar sem ég fékk mér kaffi og spjall.  Hún er að fara að byrja í master í Álaborg á þriðjudaginn svo það fara að verða síðustu forvöð að sjá hana í bili Smile.

Annars bara áframhaldandi vinnuumsóknir hér og meira fjör, við höfum það afskaplega gott og ekki er veðrið til að spilla fyrir LoL.

Afmælið hennar Jódísar á mánudaginn.. þá verður sú stutta 2ja ára, ótrúlegt en satt!!!

Jæja, gott að sinni,

bless í bili! 


Þannig er nú það :)

Við vöknuðum við það um miðja aðfararnótt fimmtudags við það að stelpan var voða pirruð og skrýtin og þá orðin funheit.  Ég mældi hana og var hún þá komin með tæplega 40 stiga hita.  Hún var voða slöpp á fimmtudeginum en hress með 39 stiga hita á föstudeginum.  Á laugardeginum var hún ennþá með hita en við ákváðum samt að fá til okkar Pétur & Tönju Ósk og Einar & Mörtu og grilla saman.  Það var afskaplega gaman og skemmtilegt og hressandi.  Halldór var líka búinn frekar snemma og kominn heim um átta leytið.  Eysteinn fór í partý til Jacobs vinar síns þar sem átti að vera myndakvöld og nammiát og hann gisti þar um nóttina svo Einar og Marta ákváðu að nýta tækifærið og nýttu gistiaðstöðuna.  Ég vaknaði með stelpunni á sunnudagsmorgninum og ákvað þá að baka bara þessar líka dýrindis gulrótarbollur sem ég bar svo á borð úti ásamt öðrum kræsingum og kaffi þegar hin voru vöknuð.  Það var svo rosalega gott veðrið að við héldum varla við í sólinni.  Þau fóru síðan um það leyti sem við lögðum stelpuna miðdegislúrinn sinn svo það passaði akkúrat að hjúfra okkur fyrir framan sjónvarpið og horfa á Marley and Me.  Þrælgóð mynd Smile.

Halldór er búinn að vera svo duglegur að sækja myndir að við höfum ekki undan að horfa á bíómyndir, endilega bendið á góða mynd sem við getum sótt (á netið).  

Eysteinn byrjaði svo dansvikuna í skólanum í morgun sem reyndar var haldin í skóla niður á Nörrebro.  Ég fór á fund hjá Jobcenter vegna atvinnuleitar og vildi svo skemmtilega til að við tókum sama strætó heim, þó hann tæki ekkert eftir mér Joyful.  Ég náði þó að ,,hæja" hann þegar hann steig út úr strætónum  ásamt Jacobi stoppinu á undan mér.  

Jódís Guðrún er enn ekki orðin hitalaus þó hress sé svo við ætlum að sjá hvort hún nær þessu ekki úr sér á morgun.

Í þessum skrifuðu orðum erum við að horfa á þátt um eldgos á Íslandi á DR1.  Mjög skemmtilegt :)

Ætla að fara að horfa á það!

Gott að sinni

Bless í bili! 


Tívolíferð

Við vorum búin að ákveða það að eiga saman einn skemmtidag áður en Eysteinn byrjaði aftur í skólanum.  Við ákváðum að nota tækifærið og fara í Tívolí meðan stelpan væri á vöggustofunni til að geta leyft Eysteini að eiga mömmu og pabbatíma aleinn.  Þar sem skólinn byrjaði í dag hjá Eysteini ákváðum við að fara í gær og vorum mætt í Tívolíið fljótlega eftir að opnaði.  Þá þegar voru margir komnir inn en þó ekki allt of margir.  Ég lét plata mig í rússíbana, þann sama og við Siggi fórum svo oft í fyrir 23 árum síðan (VÁ!!!! Gasp) ef ég man rétt náðum við einu sinni, þegar lítið var að gera, að fara í 13 ferðir samfelldar... en það var ÞÁ!  Núna hélt ég að ég myndi fá hjartaáfall við hverja litla þúst sem við renndum okkur yfir og var ég svo ólýsanlega fegin þegar ég staulaðist út úr tækinu að ég skildi með engu móti hvernig ég hefði nokkurn tímann geta farið í 13 ferðir samfellt á sínum tíma.  Það var ÞÁ!  Við fórum í hin og þessi tæki og ég sat hjá þegar þeir feðgar fóru í 100 metra háar rólurnar.  Ég hins vegar vildi endilega fara í tæki sem svipaði til Töfrateppisins á sínum tíma (fyrir þetta 23 árum síðan) því ég mundi að það hafði verið svo óskaplega skemmtilegt.  Það var ÞÁ!  Ég hélt ég myndi deyja... ef rússíbaninn var slæmur þá var þetta pynting.  Ég var orðin lömuð undir það síðasta, innyflin löngu orðin úthverf og doðinn í útlimum farinn að snúast upp í andhverfu sína.. ef það er hægt.  Guð minn góður.. hvað var ég að spá!!! Pinch  Eftir það voru það bátasiglingar og barnarússíbanar!

Pétur og Tanja Ósk komu svo um þrjú leytið en við höfðum boðið þeim að koma og gáfum þeim sitthvorn túrpassann.  Tanja Ósk fílaði sig heldur betur, fannst þetta meiriháttar skemmtilegt og fékk sko ekki nóg.  Halldór fór svo og sótti Jódísi Guðrúnu á vöggustofuna og við fórum í nokkur tæki eftir það.  Við enduðum svo daginn á að hlusta á Stórsveitina spila djazz í pavilioninu og taka einn rúnt með strætólestinni um Tívolíið.  Alveg hreint ljómandi endir á frábærum degi.  Það var þreytt fjölskylda sem steig inn um heimilisdyrnar upp úr klukkan hálf níu.  Sú stutta var sko ekki lengi að sofna.

Feðgar í himnaskipinuFeðgar vinka úr himnaskipinuFeðgar brattir fyrir 50 m fallEysteinn brattur eftir 50 m fall, Halldór ekki svo mjög!Voða gaman í TívolíVið buðum Pétri og Tönju Ósk og hér sjást þau hin hressustu í flugvélJódís í fyrsta Tívolítækinu sínu, að sjálfsögðu Parísarhjólinu :)Pétur, barnapían og ,,litla JódísVoða gaman í Tívolí,,Mamma, pabbi.. sjáuu, Sjáuuu!!!

 

Eysteinn Aron byrjaði svo fyrsta skóladaginn í dag og var bara hinn spenntasti í morgun að byrja og hitta vini sína.  Hann var líka alsæll með daginn, fór á fótboltaprufu með Andersi og Jacobi.  Ægilegt stuð! 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hrikalegt!Alveg hræðilegt!!!

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  

Skoðar ófreskjuna varlegaÓfreskja með meiru!

 

 

 

 

 

En af hverju skyldi sú stutta hafa sett upp þennan líka skelfingarsvip?

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það var nefnilega þannig að þegar við komum heim eftir að hafa sótt Jódísi Guðrúnu á vöggustofuna í dag var Halldór í myndastuði að taka myndir af blómum og býflugum en þá tók sú stutta eftir risastórum og ljótum snigli á jörðinni.  Henni stóð sko EKKI á sama!

Viðbót: Dagsetningarnar á myndunum eru ekki réttar.  Þar á að standa 11.08.2009 


Týndi sonurinn endurheimtur

Við vorum farin að sakna frumburðarins ansi mikið þegar loksins kom að því að hann skyldi fljúga heim í faðm foreldra og lítillar systur sem undanfarna daga sagði ,,Eydei!" út í eitt.  Halldór var frekar svekktur að komast ekki með að sækja hann þar sem hann þurfti að halda til vinnu rétt um það leyti sem við mæðgur héldum á flugvöllinn að taka á móti honum.  Í Metró var þolinmæðin orðin ansi lítil hjá þeirri stuttu sem sagði við fimm síðustu stoppin ,,JÆJAAA!!!" og vildi komast út að hitta bróður sinn.  Ég rakst á gamlan félaga frá Selfossi, Svenna, sem búsettur hefur verið í Kaupmannahöfn undanfarin ár og hef ég ekki séð hann í einhver 10 ár svo það var mjög gaman, en hann var á leið til Íslands í frí.  

Eysteinn kom alsæll eftir ferðina enda hafði ekkert vesen verið núna og hann lent við hlið bráðskemmtilegrar konu sem spjallaði heilmikið við hann.  Það var því allt annað upplitið á honum núna en þegar hann flaug til Íslands þar sem allt fór í klúður hjá Icelandair og fylgdinni.  En sem sagt, þarna urðu fagnaðarfundir, eins og gefur að skilja, og ég fór bara næstum því að skæla þegar ég faðmaði stóra strákinn minn að mér.  Ég var svo sannarlega farin að sakna hans og telja niður dagana þar til að hann kæmi aftur en ég áttaði mig samt ekki á því hversu mikið það var fyrr en ég vafði hann örmum og knúskyssti hann.  Hann kom klyfjaður góseni frá Íslandi og Jódís Guðrún var heldur betur ánægð með dúkkuna sem þau Eysteinn og amma Gurrý höfðu valið handa henni og er hún búin að vera með hana í fanginu meira og minna.  Kötturinn sló líka alveg í gegn en hann syngur ,,Mjá mjá..." alveg heilt lag og dillar sér með.  Hún heillaðist að sjálfsögðu að því og ég hugsaði með mér að Gurrý hefði þarna verið sniðug að losa sig við köttinn sem raulað hefur á hana undanfarin ár við gríðarlegan fögnuð krakkanna.. en minnkandi fögnuð fullorðinna  LoL.  Hún dýrkar hann!

Ég er núna búin að vera að sækja um fullt af störfum hérna en flest eru þau með umsóknarfrest til miðs eða enda mánaðar svo ég krosslegg bara fingur um það að ég fái fullt af atvinnuviðtölum að fara í von bráðar.  Ég fékk nefnilega vægt taugaáfall þegar ég fór að skoða atvinnuauglýsingarnar á Íslandi.  Hjá Capacent voru auglýst þrjú störf, þar af eitt á Akureyri og tvö fyrir hugbúnaðarfræðinga.  Á Vinnu.is voru kannski um 50 störf í heildina og álíka hjá Job.is.  Þetta sem hafa verið aðal atvinnuauglýsingasíðurnar og yfirleitt verið með fleiri hundruð störf.  Maður fer nú bara næstum því að skæla af vonleysi.  Hér er hins vegar ágætt framboð af störfum og nú er bara að vona að ég fái eitthvað spennandi og ögrandi starf svo ég þurfi ekki að fara að minnka kröfurnar Undecided.  Ég er þó fyllilega raunsæ og veit að ég get vel þurft að gera það.  

En ástæðan fyrir því að ég var að skrifa um þetta er sem sagt sú að ég fór í klippingu í dag til að reyna að vera ægilega fín og flott þegar ég verð kölluð í öll atvinnuviðtölin.  Þá þýðir nú lítið að vera með Marilyn Monroe -bimbóblondí hár í tagli.  Í samtali við Pétur kom það í ljós að vinkona systur hans vinnur á stofu í Nørrebro og mér fannst það alveg tilvalið þar sem ég hvorki þekki neinn klippara hérna né er langt að fara.  Hann hafði því samband við hana og ég pantaði svo tíma hjá henni.  Pétur sagði mér að þær væru tvær íslenskar á stofunni sem reyndist nú ekki alveg rétt.  Því þegar ég kom var íslenska töluð víða og í ljós kom að þau eru sem sagt 9 sem vinna á stofunni.  Þ.e. eigandinn og einn lærlingur sem eru Danir.  Restin eru Íslendingar LoL.  Ég fékk meira að segja Séð og Heyrt til að skoða meðan ég beið.  Og þar komst ég einnig að hvað orðið hafði um Ævar Østerby... jú nefnilega, hann vinnur þarna!  Ég kannaðist strax við hann (áður en ég vissi að aaallir þarna væru Íslendingar) en við byrjuðum að tala saman á dönsku.  Seinna spurði hann mig svo hvort ég væri ekki frá Selfossi LoL.  Lítill heimurinn!  En sem sagt, hún klippti mig alveg hrikalega smart og setti dekkri strípur í hárið svo nú er ég farin að verða eðlilegri um hausinn.  Þó er ég enn mjög ljós enda verður að taka þetta í skrefum svo hárið á mér verði nú ekki grænt Blush.  Ég er alsæl með þetta.  Auk þess sem nú er ég búin að finna mér stofu og klippara sem er svona líka ánægð með og þar sem maður getur lesið Séð og Heyrt í Danmörku, um íslenska þotuliðið en ekki danska kóngafólkið Grin.

Annars er búið að vera svo heitt á okkur núna og steikjandi sól og grey Jódís Guðrún, sem erfði heitfengi ömmu nöfnu sinnar hinnar síðari, er rennandi sveitt allan daginn, meira að segja þegar ég er nýbúin að taka hana upp úr baðinu á kvöldin (já og þurrka henni auðvitað!!! ha ha ha!).  Við ætluðum að fara og kaupa viftu í dag til að geta allavega haft á sér meðan maður er að sofna en það gleymdist svo við förum pottþétt í það á morgun.  Nú er klukkan t.d. orðin rúmlega hálf ellefu hjá mér  og dimmt úti en samt er svooo heitt hérna inni og allir gluggar þó opnir upp á gátt.  Það bara bærist ekki hár á höfði.  Þeir eru nú eitthvað að hóta okkur rigningu á mánudag-þriðjudag, en það er svo langt þangað til að það er ekkert að marka strax Tounge annars á bara að vera svona dásemdarveður áfram.  Aaaaalgjört æði!!

Já og eitt í lokin:

Ég skil ekki alveg hvernig þeir velja fréttirnar frá Íslandi hérna í Danmörku.  Stundum finnst mér svo margt merkilegt vera að gerast heima sem ekkert er skrifað um hér og ekkert kemur um í sjónvarpsfréttum.  En þeim fannst það merkileg björgunin á steypireyðinni í vikunni að sú frétt var sýnd á ,,prime time" þar sem björgunin var sýnd og viðtalið við löggumanninn sem sagði frá því að steypireyðurin hefði vinkað bless með sporðinum.  Þeim þótti þetta svo lítil frétt á Vísi.is að þeir birtu hana ekki einu sinni.

Gott að sinni

Bless í bili! 


Helgin og tennurnar

Alberta og dætur hennar, Amelía og Andrea, komu til okkar á föstudagsmorgun og við fórum sem leið lá niður í Kristjaníu til að sýna börnunum mismunandi menningarheima... en þó aðallega til að kaupa buxurnar sem ég hafði séð þegar við skruppum þangað um daginn.  Baaara fallegar Tounge.  Við settumst fyrir utan kaffihús þar og fengum okkur kaffi í yndislegu veðri og höfðum það notalegt.  Halldór og Amelía elduðu svo fyrir okkur þessa líka frábæru pizzu í kvöldmatinn og var það ákveðið að Amelía skyldi verða kölluð til næst þegar við héldum pizzuveislu, enda tókst henni með eindæmum vel upp að raða á pizzuna Smile.Þær fóru síðan heim, mæðgurnar, rétt eftir hádegi, en þær höfðu verið svo heppnar að fá far með vinkonu Albertu fram og tilbaka frá Horsens. 

Pétur Steinsen var mættur um eftirmiðdaginn með kjúklingabringur á nýja grillið sem Halldór var þá nýbúinn að fjárfesta í.  Þetta líka fína kúlugrill Grin.  Okkur fannst ekki hægt að vera alltaf að fá lánað nágrannagrillið þegar við vorum að grilla svona fimm sinnum meira en þau sjálf Tounge.  Þetta varð hinn bragðbesti matur, grillaðar kjúklingabringur og gráðostafylltir sveppir og paprikur.  Jiiiiminn eini hvað það er gott!!!!

Í kvöldmatnum í gær tókum við svo eftir því að sú stutta er looooksins komin með tennur sitthvorum megin við neðri framtennurnar.  Já, fyrst tókum við eftir annarri, sem hefur greinilega komið upp í fyrradag eða daginn þar áður, svo tókum við eftir hinni sem var ögn minni og gæti hreinlega hafa sprungið fyrir henni bara í gær.  Svo heildar tannafjöldi hjá Jódísi Guðrúnu er því núna orðinn 12 Grin   Gott að vera búin að ná tylftinni fyrir annan afmælisdaginn LoL.

Já, það fer nú óðum að styttast í hann og mér þykir hreint með ólíkindum að við séum búin að vera hérna bráðum í heilt ár!  Ég bara kemst ekki yfir það hvað tíminn er fljótur að líða.   

Annars fórum við í hjólatúr í gærkvöld eftir matinn, það var svo frábært veður og við ákváðum að hjóla hérna aðeins um hverfið bak við skólann hans Eysteins.  Þar er líka svona hjólastígur inn í trjágöngum rétt við íþróttasvæði og þar eru mjög falleg einbýlishús sem við vorum að láta okkur dreyma um.  Þetta er nú bara hreint ótrúlega skemmtilegt hverfi sem við búum í hérna og nóg af fallegu grænu umhverfi, við sáum það.  En það var svoooo mikið af fólki úti að hjóla, skokka eða bara í göngutúr að það var vart þverfótað fyrir þeim.  Ég hef bara aldrei séð svona mikið af fólki áður í hverfinu, enda var veðrið, eins og fyrr segir, hreint yndislegt og við bara á bolnum að hjóla.

Oooog svo er drengurinn minn að koma heim á morgun!!! Ég er farin að hlakka svooo til að sjá hann og knúsa að ég get bara ekki beðið!  Einn mánuður er fullmikið fyrir móðurhjartað og alveg á mörkum þess að vera þolanlegt.  Vá hvað ég hlakka til að fá drenginn minn heim! Grin

Gott að sinni,

Bless í bili! 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband