Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010

Á Íslandi!

Lóa vinkona kom á sunnudaginn og fór með krakkana út að gefa öndunum brauð í nístingskuldanum á meðan ég pakkaði og þreif fyrir ferðina til Íslands.  Hún Sigrún frænka var síðan svo yndisleg að koma með okkur upp á Kastrup um kvöldið og hjálpa okkur með allt okkar hafurtask.  Flugvélinni seinkaði ögn í loftið og fylgdumst við með því þegar flugvélin var háþrýstisprautuð með afísunarvökva áður en við lögðum í háloftin.  Flugið gekk vel en göðminngóður hvað veðrið var slæmt í lendingu á Keflavíkurflugvelli.  Ég hélt bara um Jódísi, lokaði augunum og beið bara eftir að við skyllum til jarðar.  Eysteinn var við gluggann og sagði ,,Mamma, þig langar ekki að sjá vængina á vélinni"  Þá sveifluðust þeir til og frá af fullum krafti.  Jiminn hvað ég var fegin þegar við lentum og þá rifjuðum við farþegar upp gamlan góðan sið og klöppuðum fyrir flugstjóranum.  Þá var klukkan að detta í miðnættið.

Halldór og pabbi biðu eftir okkur og höfðu mátt bíða lengi án þess að vita nokkuð því allir skjáir voru bilaðir í móttökurýminu svo þeir vissu ekkert hvort eða hvenær við höfðum lent.  Jæja, eftir að hafa knúsað kallinn og pabbann drifum við okkur í snarbrjálaðaveðrinu á Selfoss og vorum komin heim um kl. hálftvö.  Mánudagurinn var notaður til að flytja sálina milli landa og jafna sig eftir langan sunnudaginn.  

Á þriðjudaginn átti Halldór tíma hjá lækninum um morguninn svo við rifum okkur á fætur og brunuðum í bæinn.  Þó við værum bara að fara í viðtal leið okkur báðum eins og við værum á leið í endajaxlatöku.  Stress og kvíðahnútur í maganum.  Guðmundur, læknirinn hans Halldórs, byrjaði á því að spyrja mig hvort ég vissi hvað væri í gangi og ég var að spá í að svara að ég hefði eitthvað heyrt að hann væri með svínaflensuna en ákvað að láta kyrrt liggja og játti því að ég vissi það.  Mér fannst hann alveg frábær og hann svaraði öllum spurningum okkar af bestu getu og gaf okkur allan tímann í heiminum.  Hann var svona eins og að fletta upp upplýsingum á netinu, bara þuldi upp staðreyndir og svaraði algjörlega tilfinningalaust öllu því sem við vildum vita.  Þannig vil ég hafa það.  Staðreyndir svo ég viti hvað er að fást við.  

Eitlakrabbi: Marginal í eitlum en MALT í auga (dreifingin kallast þetta sagði hann).  Þetta marginal er eitthvað sjaldgæft mein (já auðvitað!) og eins og ég skrifaði áður, er þetta eitthvað sem hægt er að halda niðri og svæfa með lyfjum en ekki hægt að fjarlægja nema með beinmergskiptum, sem eru hættuleg, svo það er reynt að halda þessu sofandi eins lengi og unnt er með lyfjum.  En eins og Guðmundur sagði þá fleygir krabbameinsvísindunum áfram á ógnarhraða og sagði hann að það tæki almennt um tvö ár frá því stökkbreyting frumna væri kortlögð þangað til byrjað væri að prufa lyf á sjúklingum, svo hver veit nema eitthvað verði komið eftir nokkur ár sem útrýmir þessu Smile.  Ég róaðist um allan helming við að tala við þennan lækni og fá þær upplýsingar sem mér fannst vanta.  Mér finnst betra að vita allt, kannski svona eins og til að hafa vaðið fyrir neðan mig og fá ekkert óvænt í andlitið.  Vita við hvað er að fást.

Klukkan átta á miðvikudagsmorgun vorum við svo mætt upp á deild þar sem byrjað var að dæla í hann mörgum mismunandi lyfjum í yfir tveimur lítrum af vökva.  Þetta gekk allt voða vel og náðist að koma þessu öllu í hann í dag svo hann þurfti ekkert að fara aftur í dag.  Þetta náðist allt í gær.  Hann var bara hinn hressasti eftir þetta og líður afbragðsvel í dag.  Svo já, núna er þessi ferð í átt að bata hafin :)

Gott að sinni

Bless í bili! 


Jamm og já!

Ohh, Jódís þurfti einhverra hluta vegna endilega að vakna upp nú í nótt alveg að pissa á sig, svo ég vaknaði auðvitað við það og þurfti að drífa mig á klósettið með hana.  Ég náði að halda okkur báðum sæmilega sofandi þannig að ég var alveg að sofna aftur þegar hún kallar lágt: ,,maaamaa, dekkaaa" aftur og aftur, svo ég varð að fara á fætur og gefa henni að drekka.  Hún lagðist þá niður og sofnaði um leið en ég.. já ég lá og bylti mér og bylti og fór loks fram úr sem þýddi að nú, einum og hálfum tíma síðar klukkan rúmlega fjögur að morgni, er ég enn vakandi og er ekkert að sofna í bráð.  Garg bara!

En nú eru loksins komnar endanlegar niðurstöður úr rannsóknum Halldórs. Hann er sem sagt með eitlakrabbamein sem vex mjög hægt og er líklegt að hann hafi haft það í ár eða svo. Læknisfræðilegt heiti þess er Marginal zone Lymphoma, náskylt MALT undirtýpunni.  Meinið hefur að öllum líkindum ekki byrjað í auganu heldur í eitli í líkamanum og borist í augað. Allavega, hann hefur lyfjameðferð í vikunni og verður einu sinni á 3ja vikna fresti í lyfjameðferð í einhverja 6-8 mánuði. Læknirinn er mjög bjartsýnn um batahorfur en sá gallinn er þó við þetta mein að það virðist vera krónískt. Það þýðir að það þarf alltaf að fylgjast mjög vel með Halldóri þar sem það getur sprottið upp aftur og aftur. En þar sem það er svo hægvaxandi þá á að vera auðvelt að halda því niðri.

Styrkleika lyfjanna er skipt í þrjá flokka og byrjar hann meðferðina á vægasta lyfjaskammti. Virki það illa verður hann færður í næsta styrkleika og ef sá sterkasti virkar ekki þá fer hann í beinmergskipti. En læknirinn sagði að það gætu liðið mörg ár í það og við þyrftum ekki að hugsa um það núna. Roðinn úr auganu ætti að ,,bráðna úr" við lyfjameðferðina en ef það gerist ekki fer hann í geisla við því.

Ég er sjálf ekki alveg búin að lesa mér allt til um þetta en miðað við að þetta þurfti að vera meira en bara augað þá lítur þetta bara ágætlega út. Við litla fjölskyldan höfðum áætlað að fljúga til Íslands að sameinast fjölskylduföðurnum á fimmtudaginn næstkomandi en vegna þessa alls flýttum við ferðinni og lendum seint annað kvöld í Keflavík.

Það var auðvitað svolítið áfall að fá að vita að þetta var annað en bara í auganu sem auðvelt væri að ná með geislum svo nú er maður bara að ná áttum og safna styrk til að berjast berjast berjast! En eins og fyrr segir eru batahorfur góðar og það verður gott vera hjá kallinum, það hefur verið býsna erfitt að vera svona aðskilin í þessu, eins og gefur að skilja :)

Gott að sinni

Bless í bili! 


Mánudagur, 22. í bið!

Halldór fór í sýnatöku í morgun og það gekk bara ljómandi vel.  Hann var svo hamingjusamur þegar ég talaði við hann og ánægður með lífið og tilveruna eftir svæfinguna.  Þessar róandi töflur sem hann fékk gætu haft eitthvað að gera með það Tounge.  Við fáum svo að vita síðar í vikunni hvað kemur úr þessu.

Anna hin Hressa kom til mín yfir helgina og við áttum svo notalegar stundir hérna.  Hún kom færandi hendi með heila helgarveislu, rauðvín og osta, jarðaber og súkkulaði, ólífur og tapas... kjúkling og kartöflur, já, full taska matar!  Hún vildi sko EKKI láta hafa fyrir sér LoL.  Það var svo dásamlegt að hafa hana yfir helgina.  Í gærmorgun skildu svo leiðir við Nørreport, þar sem hún hélt áfram til Lund og ég hitti Sigrúnu og Andy.  Þar tók Andy við vagninum og börnunum og hélt heim til þeirra í skíííííííítakuldanum!!! Við Sigrún héldum til Íslandsbryggju á kaffihús þar sem við áttum pantað borð í ,,Brunch with Bubbles"  Bröns með kampavíni Wink.  Hún fékk gjafabréf í 50. afmælisgjöf og vildi frekar bjóða frænku sinni en Andy sem ég fékk þá bara til að passa fyrir mig í staðin Grin.  Það var svo dááásamlegt!  Maturinn var algjört æði og kampavínið gott en félagsskapurinn bestur!  Þetta var yndislega notalegt hjá okkur.  Eftir góðan kaffisopa heima hjá þeim (eftir brönsinn) var ég afskaplega fegin að komast heim til mín úr frysta-rassinn-af-mér-kuldanum!!!  Ætli sé ekki enn sumarhiti á Íslandi núna Blush.

Jæja,

Gott að sinni

Bless í bili! 


Föstudagur til frétta?

Já ég ætlaði að koma með fréttirnar bara jafnóðum strax en bara... gerði það ekki Shocking.  Það sem læknarnir lásu úr sneiðmyndatökunni var að einhverjir eitlar í Halldóri voru á grensunni með að vera of stórir.  Eitthvað sem þeir myndu undir venjulegum kringumstæðum ekkert spá neitt í en vildu, í ljósi aðstæðna, athuga betur.  Svo hann fór í blóðprufu strax eftir tímann í gærmorgun og á svo að mæta á mánudagsmorgun í eitla-sýnatöku sem verður gerð undir svæfingu.  En stækkaðir eitlar geta verið merki um meinvörp, þ.e. að krabbinn hafi dreift sér.  En við erum nú samt bara sannfærð um að Halldór sé bara með eitla í stærri kantinum og það komi ekkert út úr þessu!  

Það kom líka úr myndatökunni að ,,það sást ekkert í höfðinu".  Halldóri stóð nú ekki alveg á sama með það, að það væri þá hreinlega ekkert inni í hausnum á honum FootinMouth en það er þá kannski betra að hafa ekkert í hausnum heldur en að hafa æxli í hausnum LoL.

Sem sagt enn og aftur bið!  Ég þoli ekki bið!  Ég er bara alveg búin að fá nóg af bið!

En hún Anna mín ætlar að koma til mín frá Lundi í dag og vera með mér helgina, ég hlakka alveg óskaplega mikið til að hafa hana hjá mér Joyful.  Svo nú mun ég þá hafa fengið tvær af Önnunum mínum til mín sömu vikunni því hún Anna mín og Gúndi (hennar) kíktu á mig í vikunni í kaffi, sem var alveg dásamlegt!!   Nú vantar mig bara að hún Anna mín frænka komi líka og þá hafa allar Önnurnar mínar komið til mín Grin.  En ég hitti nú bara á hana heima á Fróninu fagra einhvern tímann fljótlega Joyful.

Elsku vinir og fjölskylda, ég þakka ykkur af öllu hjarta fyrir stuðninginn og fallegu kveðjurnar sem ég hef fengið frá ykkur.  Það er ómetanlegt!!!

Knús á ykkur öll!

P.s. Það er búið að tæma ruslatunnurnar, ég held þeir hafi heyrt í mér blogga þeim í sand og ösku hérna í gær Tounge 


Fimmtudagur til frétta!

Ég skildi ekkert í því að ruslatunnan okkar var orðin smekkfull og kominn svartur ruslapoki við hliðina á henni með meira rusli í, já ég bara botnaði ekkert í því af hverju hún hefði ekkert verið tæmd í bráðum þrjár vikur.  Ég fékk svo svar við því í gær.  Þegar ég kom heim hékk uppi miði, á sameiginlegu töflunni okkar, sem sagði að á meðan Rørmosevej væri þakin snjó (öllu heldur ekki mar-auð) myndi fyrirtækið ekki tæma hjá okkur tunnuna.  Þannig er nefnilega að hvert hús sér um að moka gangstéttirnar í kringum sitt hús og salta (og við þurfum náttúrulega að búa á horninu Pinch) en ekki nóg með það, heldur líka götuna fyrir framan húsið hjá sér.  Þannig að ef einn slóði í götunni sér ekki um að salta fyrir framan húsið sitt þá kemur ruslabíllinn ekki að tæma í allri götunni Crying.  Meiri andsk... vitleysan!

Já, í dag er dagurinn sem við höfum beðið eftir með óþreyju.  Ég hélt að það myndi bara aldrei koma að honum, allavega er undanfarin vika búin að vera eins og heil eilífð að líða.  Skrifa þegar Halldór er búinn að hringja í mig og niðurstöðurnar liggja fyrir.

Knús á ykkur! 


,,Dattúdi!" (þýðing: Kalt úti!)

Það voru þung sporin sem við stigum til flugstöðvarinnar.  Það var sko langt frá því að vera auðvelt að kveðjast og vita ekki hvernig næstu dagar eða vikur yrðu.. og vera ekki saman í að vita það ekki.  En Guði sé lof og þakkargjörð fyrir Skype-ið.  Það slær á þránna eins og nikótínplástur á sígarettulöngun.  Sem sagt ekki alveg, en hjálpar mikið til.  Það var svo fyrst í gær sem Halldór náði tali af blóðsjúkdómalækni sem mun annast allar rannsóknir á honum og fékk hann að vita að pantaður hefði verið tími í sneiðmyndatöku og sitthvað fleira í næstu viku (skilst mér).  Hann á svo að hitta þennan blóðsjúkdómalækni og krabbameinslækninn sinn á fimmtudaginn (held ég) og þá ættu nú línur að vera farnar að skýrast.  Eins og sést þá set ég dagsetningar fram með fyrirvara um réttmæti þeirra (líklega) LoL.

Litla skottan saknar pabba ægilega mikið en var þó eiginlega alveg sama um þegar hún fékk að sjá Gutta sinn (hund tengdamömmu) á Skype-inu.  Annars er hún nú bara fín.  Halldór var nú pínu svekktur þegar hann var að kveðja hana með tárin í augunum síðasta morguninn, áður en ég fór með hana á vöggustofuna, og hún bara veifaði kampakát á móti og sagði romsuna sína: ,,Hæ hæ, sjaaaá (sjáumst), vi ses, bess bess,  bæbæ!" og ýtti honum svo frá sér, ekki alveg með á hreinu hvað væri að gerast LoL.  Við Eysteinn höfum það fínt og hann er voða góður við mömmu sína.  Hjálpar næstum því tuðlaust til og er alveg að fara að þurrka gólfið á baðinu þegar hann er búinn í baði.  Þetta kemur allt Whistling.  En það er búið að vera alveg hryllilega kalt hérna.  Þessar -10 gráður eru sko frekar eins og -20 gráður og hvað þá í vindkælingunni sem var í dag.  Á morgun á svo að ná upp í 15 m/sek.. jiminn eini, ég veit bara ekki hvernig verður hægt að vera úti þá Pinch.  Og framundan er bara frost og snjókoma.  Ég sem var að vonast til að snjórinn færi að bráðna í burtu svo ég geti aftur farið að hjóla með stelpuna á vöggustofuna.  Það er svo óendanlega leiðinlegt að taka strætó þangað!

Jæja, ég ætla að klára úr rauðvínsglasinu mínu, af því það er svo gott fyrir hjartað og nú er maður bara að hugsa um heilsuna, og fara síðan að smeygja mér upp í rúm til Eysteins (sem liggur í pabbabóli) sem verður þá passlega búinn að kynda vel upp rúmið fyrir mig Smile.  Öll litla fjölskyldan saman í einu herbergi, gerist það notalegra? Ég bara spyr Joyful.

Gott að sinni

Bless í bili! 


Halldór og augað

Eins og flest ykkar vita fór Halldór til læknis í haust vegna roða í auganu sem bara ætlaði ekki að fara.  Eftir að hafa gengið lækna á milli og beðið í margar margar margar vikur (svona í heildina) kom á daginn nú milli jóla og nýárs að þetta illkynja æxli í auganu.  Meiri bið og engar upplýsingar en svo kom gusan í gær.  Hann fer til Íslands á 13ndanum og byrjar geislameðferð þar.  Halldór náði á lækninn sem mun annast hann á Íslandi sem gaf honum svör við öllum þeim spurningum sem höfðu brunnið á okkur.  Miklar líkur (kemur í ljós við allsherjar gegnumlýsingu á Íslandi) eru á að meinið sé einungis bundið auganu og að hægt sé að losa hann við það með einhverjum standard 15 geislum.  

Þannig að, hann getur að öllum líkindum bara unnið með þessu og fer því á klakann á morgun.  Við verðum hins vegar eftir úti og Eysteinn klárar skólaárið sitt hérna.

Ég skrifa svo meira um Halldór þegar eitthvað verður að frétta.

Gott að sinni

Bless í bili 


Gleðilegt nýtt ár!!!

Það er viðeigandi að skrifa fyrstu færslu ársins á fyrsta vinnudegi þess.  Það var ofsalega erfitt að vakna í morgun, hægt og bítandi erum við búin að reyna að snúa sólahringnum aftur við hjá fjölskyldunni en samt tók það mig rúman hálftíma og mikið ergelsi í lokin að fá frumburðinn á fætur í morgun, sem átti að mæta fyrstur í fjölskyldunni til starfa.  Ég þurfti að nudda Jódísi Guðrúnu lengi og bjóða henni góðan dag nokkuð oft áður en hún hætti að breiða sængina yfir sig aftur, settist upp ringluð og píreygð vegna ljóssins.  Við foreldrarnir náðum þó að koma henni á vöggustofuna og þó það hafi verið snjór þá gátum við hjólað með hana þar sem stígarnir voru allir saltbornir og auðir.  Nú snjóar bara og snjóar.  

Áramótin voru mjög skemmtileg hjá okkur og maturinn skrammbi góður, þó ég segi bara alveg sjálf frá Tounge.  Lóa og Þröstur tóku vinkonu sína, sem var í heimsókn hjá þeim frá Íslandi, með sér og Marta og Einar komu líka.  Svo við vorum níu við matborðið með börnunum.  Eins og ég skrifaði áður var ég lengi að finna kalkúnabringu sem ég skar niður og setti salvíu inní, vafði svo inní parmaskinku, steikti og ofnbakaði.  Gerði með þessu hrikalega góða hvítvínsrjómasósu og bara plein kartöflur.  Lóa kom með ægilega góða fyllingu sem við höfðum með og þetta heppnaðist með afbrigðum vel hjá okkur Lóu steikingameistara.  Það virkaði svona líka vel að senda Skaupið frá tölvunni í sjónvarpið svo þetta var bara alveg frábært!  Við spiluðum svo fram undir morgun, fyrst á spil og svo á gítar og bassa og raddirnar okkar.  Svona um 2 leitið kom svo Marta með heimatilbúna ísinn, frábæra eftirréttinn sem hún lagði í púkkið.  Rauðvín í fordrykk, hvítvín með matnum, Mojito með skaupinu, skálað í freyðivíni á miðnætti (að íslenskum tíma) bjór að vild og Opal skot með spilunum.  Já, allt vann þetta saman til þess að þurrka út fyrir mér (og fleirum) nýársdaginn svo hann héldum við bara hátíðlegan 2. janúar.

Já, 2. janúar eldaði ég handa okkur minni hamborgarhrygginn sem ég hafði keypt og ekki bragðaðist hann síður en sá fyrri.  Í gær enduðum við svo jólakræsingar með því að elda lambalæri og borða síðustu Ora-baunadósina með.  Ljómandi endir á jólunum.  Já við bara hentum út jólatrénu í fyrradag þar sem barrið var farið að fara svo mikið í taugarnar á okkur.  Nú verður bara lítilræði að taka niður á þrettándanum og hugsanlega bara grænmetisbuff í matinn LoL.

Nokkrar myndir frá gamlárskvöldinu:

Hópmyndin sem átti að vera svo fín.. en ekki aaalveg í fókusþetta var það skársta sem kom eftir þaðSósan að verða til! :)Fína áramótaborðiðUndir morgun.. Einar kominn á bassannKominn morgun, Lóa og Þröstur farin :P

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband