Púst-rör

Ohhh.. ég datt í það aftur í dag, sko ekki áfengið heldur datt ég í að lesa og lesa um ástandið heima.  Það byrjaði allt með því að svo margir voru búnir að tala um Silfur Egils og hvernig Egill missti sig við Jón Ásgeir síðastliðinn sunnudag.  Svo ég varð náttúrulega að sjá það.  Það er ástæða fyrir því að ég rökræði aldrei (a.m.k. afskaplega sjaldan) pólitík og ástæðan er sú að ég þoli ekki að tapa í rifrildum (sem rökræður eru náttúrulega, bara fínt orð yfir rifrildi) og það getur eiginlega aldrei neinn unnið í rifrildi um pólitík þar sem hún byggist náttúrulega bara á skoðunum fólks yfir því hvernig hlutirnir séu best framkvæmdir.  Ég líka verð að hafa allar staðreyndir upp á 10 til að geta unnið rifrildi og þegar stór og flókin mál eru í brennidepli nenni ég yfirleitt ekki að leggjast í það að lesa um það allt þar sem mér finnst ég oft á tíðum þurfa að vita allt um málið frá upphafi og stundum á það sér margra ára langa sögu.  Allavega nenni ég þá ekki að lesa nægilega mikið til að ég geti myndað mér skoðun röggstudda með staðreyndum upp á 10.  Svo, eins og fyrr segir, sleppi ég því bara að rífast um pólitík (svona yfirleitt allavega Cool). 

Ég hins vegar get eiginlega ekki orða bundist yfir þessu ,,viðtali" Egils við Jón Ásgeir.  Ég bjóst við því að sjá alvöru aðför að manninum (byggt á því hversu reiður ég hafði heyrt að Egill hefði verið), með beinhörðum staðreyndum sem Egill myndi slengja framan í hann til að fá svör við spurningum sem þörfnuðust svara af hálfu stjórnenda þessara stórfyrirtækja sem ,,skilið hafa eftir sig sviðna jörð", svo ég vitni nú í Egil.  

Fljótlega eftir að viðtalið hófst fékk ég fyrsta kjánahrollinn sem svo bara magnaðist og magnaðist þangað til ég var farin að æpa á hann, á skjánum hjá mér, í 3ja daga gömlum þætti, að hætta þessu.  Meðvirknin í mér fékk áfall.  Mér leið eins og ég væri að hlusta á rifrildi hjóna um hver ætti að ganga frá í eldhúsinu því að það að húsið væri á hvolfi væri allt hinu um að kenna.  Egill hafði engar staðreyndir til að slengja framan í hann, hann tuðaði bara í honum eins og gamall nöldurseggur sem tíndi allt til í þeim tilgangi að reyna að brjóta hinn niður.  Á tímabili fannst mér ég heyra: ,,eins og í síðustu viku, þú vaskaðir ekkert upp þá! Aldrei!" -,,Jú, ég vaskaði upp á miðvikudaginn!" ,,Já en af hverju ekki á fimmtudaginn eða föstudaginn?!"  Ég held hann hafi verið að tala um FL Group þá.  Ekki alveg viss, því ég heyrði svo lítið í honum fyrir "Mímímímímí!"  

Ég varð sem sagt fyrir afskaplega miklum vonbrigðum og skildi hreinlega ekki í því hvað fólk var að blogga um að Egill hefði ,,spurt allra spurninganna sem við vildum fá svör við".  Hvaða spurninga?  Hvort hann væri tilbúinn að koma aftur og vinna hjá Bónus?  Hvort hann ætlaði að selja snekkjuna sína og lifa eins og ,,við hin"?  Þetta eru sko bara ekkert ras*** spurningar sem ég vildi fá svör við!  Eftir stóð að Egill gerði sig að fífli og Jón Ásgeir sat yfirvegaður og svaraði öllum spurningunum, hversu fáránlegar sem þær voru.  Fékk á sig hreytingar um að lög hefðu verið ófullkomin og mál fyrnd í Baugsmálinu svokallaða. Að þessu ,,sögðu" er ég ekki að verja Jón Ásgeir, það er ugglaust ýmislegt sem var heldur óvarlega gert en að mínu mati eru það miklu frekar ráðamenn og eftirlitsmenn sem eiga að bera ábyrgð á ástandinu eins og það er í dag heldur en menn sem fylgja þeim reglum sem á borðinu liggja.  Þar til fyrir nokkrum dögum síðan voru þetta óskabörn þjóðarinnar sem höluðu inn tekjum í ríkissjóð og nú þegar allt er farið til fjandans skulu þeir bera einir og óstuddir alla ábyrgð.  Gott ef ekki bara á heimskreppunni allri.  Það gleymdu sér allir í góðærinu, líka ráðamenn.  Ég man ekki betur en Íbúðalánasjóði hafi rétt verið bjargað frá því að vera lagður niður á sínum tíma.  -Sííí, hvar værum við þá!  -Kristján væri allavega ekki að vinna þar, svo mikið er víst! Tounge

Jæja, þá er það frá!

Annars er veðrið bara búið að vera hið ljúfasta í dag.  Það átti náttúrulega að helli-rigna og jújú, það var blautt, ég segi það ekki.  En það var svosem ekki rigning, allavega ekki í þau skipti sem ég fór út eða leit út um gluggann.  Það var hins vegar afskaplega milt og gott veður og ég reif húfuna af stelpunni til að hún myndi ekki kafna úr hita á leiðinni heim.  Haustlitirnir dofnuðu sko ekkert við það að fá smá vætu á sig og loftið var ferskt og gott.  

Eysteinn ætlaði nú ekki að nenna að fara í klúbbinn í morgun þar sem hann átti að vera mættur fyrir hálftíu þar sem fara átti í bæjarferð.  Við hvöttum hann eindregið til að drífa sig og hann varð samferða pabba sínum í strætó þangað.  Þegar ég kom svo heim klukkan korter í fimm, eftir að hafa sótt stelpuna og komið við í Netto, logandi hrædd um að minn sæti eldrauður í framan fyrir utan dyrnar, þá var bara enginn heima!  Hann kom ekki fyrr en að ganga sex alsæll eftir frábæran dag sem hófst með pizzuáti og endaði með bíóferð.  

Pétur kíkti svo á okkur í kvöldmat (fer nú bráðum að fara að rukka hann fyrir fæði Tounge) og sat aðeins fram á kvöldið.  Alltaf jafn gott að fá hann í pínu heimsókn.  

Nú er sú stutta búin að læra að reka út og inn á sér tunguna og segja svona "blelö-blelö-blelö" (þetta er eiginlega besta hljóðskriftin sem ég næ að gera úr þessum hljóðum, þið skiljið hvað ég á við.)  AAAAlgjör dúlla!!!  Hún var í fanginu á mér í dag og teygði sig í átt að glugganum og sagði alltaf deddaa, dedda.. í sífellu og ég bara -jájá, deddaaa, eitthvað.  Svo leit ég á það sem hún var að benda á og.. ahhh, mamma bara hlustar ekki á kláru stelpuna sína!!! Hún var að sjálfsögðu að biðja um snudduna sína sem hún sá uppí glugganum og skríkti alveg þegar ég teygði mig eftir henni.  Hún er svo mikill snilli þessi skotta mín. Svo til alltaf þegar ég segi Jæja þá heyrist strax á eftir í minni "jajaa"  Hann er ævintýralega skemmtilegur þessi tími þegar svo margt kemur hjá þessum krílum.  Að byrja að labba, tala, hlæja með okkur hinum, sem hún gerir iðulega þegar við erum að segja eitthvað fyndið, o.s.frv.

En jajaaa held þetta sé bara orðið gott í bili Tounge.

Nokkrar myndir sem ég tók í gær af haustinu læt ég fylgja með svona í lokin auk nokkurra mynda af systkinunum fallegu. 

Út um stofugluggannIMG_0389 copyVið húsið okkarKaupmannahöfnKaupmannahöfn IIKaupmannahöfn IIIÁ leið á vöggustofunaÁ leið á vöggustofuna IIÁ leið á vöggustofuna IIIÞreytt lítil stelpaMeð stórabróður, nýkomin úr baðiDugleg að k*** í klósettið :)Heldur mömmu við efnið

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mjög flottar myndir hjá þér eskan:-) Já hann Egill hann talaði allavega ekki fyrir mína hönd þótt ég sé íslendingur kjánahrollurinn var það mikill.

 K

Kristján Jörgen (IP-tala skráð) 16.10.2008 kl. 08:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband