Týndi sonurinn endurheimtur

Við vorum farin að sakna frumburðarins ansi mikið þegar loksins kom að því að hann skyldi fljúga heim í faðm foreldra og lítillar systur sem undanfarna daga sagði ,,Eydei!" út í eitt.  Halldór var frekar svekktur að komast ekki með að sækja hann þar sem hann þurfti að halda til vinnu rétt um það leyti sem við mæðgur héldum á flugvöllinn að taka á móti honum.  Í Metró var þolinmæðin orðin ansi lítil hjá þeirri stuttu sem sagði við fimm síðustu stoppin ,,JÆJAAA!!!" og vildi komast út að hitta bróður sinn.  Ég rakst á gamlan félaga frá Selfossi, Svenna, sem búsettur hefur verið í Kaupmannahöfn undanfarin ár og hef ég ekki séð hann í einhver 10 ár svo það var mjög gaman, en hann var á leið til Íslands í frí.  

Eysteinn kom alsæll eftir ferðina enda hafði ekkert vesen verið núna og hann lent við hlið bráðskemmtilegrar konu sem spjallaði heilmikið við hann.  Það var því allt annað upplitið á honum núna en þegar hann flaug til Íslands þar sem allt fór í klúður hjá Icelandair og fylgdinni.  En sem sagt, þarna urðu fagnaðarfundir, eins og gefur að skilja, og ég fór bara næstum því að skæla þegar ég faðmaði stóra strákinn minn að mér.  Ég var svo sannarlega farin að sakna hans og telja niður dagana þar til að hann kæmi aftur en ég áttaði mig samt ekki á því hversu mikið það var fyrr en ég vafði hann örmum og knúskyssti hann.  Hann kom klyfjaður góseni frá Íslandi og Jódís Guðrún var heldur betur ánægð með dúkkuna sem þau Eysteinn og amma Gurrý höfðu valið handa henni og er hún búin að vera með hana í fanginu meira og minna.  Kötturinn sló líka alveg í gegn en hann syngur ,,Mjá mjá..." alveg heilt lag og dillar sér með.  Hún heillaðist að sjálfsögðu að því og ég hugsaði með mér að Gurrý hefði þarna verið sniðug að losa sig við köttinn sem raulað hefur á hana undanfarin ár við gríðarlegan fögnuð krakkanna.. en minnkandi fögnuð fullorðinna  LoL.  Hún dýrkar hann!

Ég er núna búin að vera að sækja um fullt af störfum hérna en flest eru þau með umsóknarfrest til miðs eða enda mánaðar svo ég krosslegg bara fingur um það að ég fái fullt af atvinnuviðtölum að fara í von bráðar.  Ég fékk nefnilega vægt taugaáfall þegar ég fór að skoða atvinnuauglýsingarnar á Íslandi.  Hjá Capacent voru auglýst þrjú störf, þar af eitt á Akureyri og tvö fyrir hugbúnaðarfræðinga.  Á Vinnu.is voru kannski um 50 störf í heildina og álíka hjá Job.is.  Þetta sem hafa verið aðal atvinnuauglýsingasíðurnar og yfirleitt verið með fleiri hundruð störf.  Maður fer nú bara næstum því að skæla af vonleysi.  Hér er hins vegar ágætt framboð af störfum og nú er bara að vona að ég fái eitthvað spennandi og ögrandi starf svo ég þurfi ekki að fara að minnka kröfurnar Undecided.  Ég er þó fyllilega raunsæ og veit að ég get vel þurft að gera það.  

En ástæðan fyrir því að ég var að skrifa um þetta er sem sagt sú að ég fór í klippingu í dag til að reyna að vera ægilega fín og flott þegar ég verð kölluð í öll atvinnuviðtölin.  Þá þýðir nú lítið að vera með Marilyn Monroe -bimbóblondí hár í tagli.  Í samtali við Pétur kom það í ljós að vinkona systur hans vinnur á stofu í Nørrebro og mér fannst það alveg tilvalið þar sem ég hvorki þekki neinn klippara hérna né er langt að fara.  Hann hafði því samband við hana og ég pantaði svo tíma hjá henni.  Pétur sagði mér að þær væru tvær íslenskar á stofunni sem reyndist nú ekki alveg rétt.  Því þegar ég kom var íslenska töluð víða og í ljós kom að þau eru sem sagt 9 sem vinna á stofunni.  Þ.e. eigandinn og einn lærlingur sem eru Danir.  Restin eru Íslendingar LoL.  Ég fékk meira að segja Séð og Heyrt til að skoða meðan ég beið.  Og þar komst ég einnig að hvað orðið hafði um Ævar Østerby... jú nefnilega, hann vinnur þarna!  Ég kannaðist strax við hann (áður en ég vissi að aaallir þarna væru Íslendingar) en við byrjuðum að tala saman á dönsku.  Seinna spurði hann mig svo hvort ég væri ekki frá Selfossi LoL.  Lítill heimurinn!  En sem sagt, hún klippti mig alveg hrikalega smart og setti dekkri strípur í hárið svo nú er ég farin að verða eðlilegri um hausinn.  Þó er ég enn mjög ljós enda verður að taka þetta í skrefum svo hárið á mér verði nú ekki grænt Blush.  Ég er alsæl með þetta.  Auk þess sem nú er ég búin að finna mér stofu og klippara sem er svona líka ánægð með og þar sem maður getur lesið Séð og Heyrt í Danmörku, um íslenska þotuliðið en ekki danska kóngafólkið Grin.

Annars er búið að vera svo heitt á okkur núna og steikjandi sól og grey Jódís Guðrún, sem erfði heitfengi ömmu nöfnu sinnar hinnar síðari, er rennandi sveitt allan daginn, meira að segja þegar ég er nýbúin að taka hana upp úr baðinu á kvöldin (já og þurrka henni auðvitað!!! ha ha ha!).  Við ætluðum að fara og kaupa viftu í dag til að geta allavega haft á sér meðan maður er að sofna en það gleymdist svo við förum pottþétt í það á morgun.  Nú er klukkan t.d. orðin rúmlega hálf ellefu hjá mér  og dimmt úti en samt er svooo heitt hérna inni og allir gluggar þó opnir upp á gátt.  Það bara bærist ekki hár á höfði.  Þeir eru nú eitthvað að hóta okkur rigningu á mánudag-þriðjudag, en það er svo langt þangað til að það er ekkert að marka strax Tounge annars á bara að vera svona dásemdarveður áfram.  Aaaaalgjört æði!!

Já og eitt í lokin:

Ég skil ekki alveg hvernig þeir velja fréttirnar frá Íslandi hérna í Danmörku.  Stundum finnst mér svo margt merkilegt vera að gerast heima sem ekkert er skrifað um hér og ekkert kemur um í sjónvarpsfréttum.  En þeim fannst það merkileg björgunin á steypireyðinni í vikunni að sú frétt var sýnd á ,,prime time" þar sem björgunin var sýnd og viðtalið við löggumanninn sem sagði frá því að steypireyðurin hefði vinkað bless með sporðinum.  Þeim þótti þetta svo lítil frétt á Vísi.is að þeir birtu hana ekki einu sinni.

Gott að sinni

Bless í bili! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband