Allt að verða vitlaust!
1.10.2009 | 20:43
-Já, það er hreinlega allt að verða vitlaust hérna vegna komu Barack Obama á morgun. Hann stoppar í heila fimm tíma og verður hálfri borginni lokað á meðan, brúnni yfir til Svíþjóðar verður lokað í nokkra klukkutíma og nokkrir í kringum mig sem neyðast til að mæta klukkan sex í fyrramálið til vinnu svo þeir lokist ekki ,,úti". Halldór átti að mæta átta í fyrramálið í vinnu en var kallaður inn í kvöld í staðinn vegna þessa.
Ég var annars að koma af foreldrafundi hjá vöggustofunni og þar eru aldeilis breytingar. Þrjár af fjórum fóstrum Jódísar eru ófrískar og þar af tvær þeirra komnar í veikindaleyfi fram að fæðingarorlofi. Sú þriðja hefur fæðingarorlofið eftir tvær vikur. Það eru miklar framkvæmdir framundan á byggingunni og átti upphaflega að flytja alla starfssemina á aðrar vöggustofur á meðan en vegna harðrar gagnrýni, bæði fóstra og foreldra, fékkst í gegn að seinka framkvæmdunum fram í apríl og þá verður starfssemin öll færð í garðinn sem þau hafast við á sumrin og tjöld reyst yfir hann meðan ekki er nógu hlýtt til að vera bara úti Sjáum hvernig það fer. Annars er mikill niðurskurður framundan sem felur í sér færra starfsfólk og minna fjármagn til ferða og svoleiðis. Þetta verður erfiðari tími en þær eru þó bjartsýnar á að þetta gangi.
En nú er farið að hausta svo sannarlega og ég er farin að nota vetrarkápuna mína og skinnhanskana. Við skruppum í Ikea í dag til að kerta okkur upp, því það hjálpar okkur á ódýrari máta við að kynda hjá okkur í vetur . Annars bara allir hressir og mest Halldór, sem er að fljúga heim: ekki á morgun, ekki hinn, heldur hinn
. Hann segist mest hlakka til að setjast að kvöldlagi í eldhúskrókinn hjá mömmu að spjalla yfir kaffibolla
Enda er það dásamlegt og ég sakna þess líka
.
Gott að sinni
Bless í bili!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.