Rigningardagur
18.10.2008 | 21:31
Þennan líka fína fiskrétt í hvítvínsrjómasósu útbjó ég handa okkur í gærkvöldi. Á bakaleiðinni frá vöggustofunni fannst mér tilvalið að koma við í búðinni og kaupa hvítvín og datt þá í hug að hafa svolítið hygge-kvöld með góðum mat og hyggelig-heit. Jújú, Pétur kom í mat og við sátum að spjalli fram eftir kvöldi sem endaði svo fullkomlega með því að Guðni Már spilaði fyrir okkur Megas á Rás 2 sem við hlustuðum á í gegn um netið og las meira að segja upp kveðjuna okkar heim . Það fannst okkur gaman
.
Halldór tók að sér morgunvaktina svo ég sá fram á að geta sofið á mínu græna laaaangt frameftir . Sú litla var óvægin og reif pabba sinn á fætur fyrir klukkan 7. Hún hélt meira og minna vöku fyrir mér með endalausu væli þar til ég gafst upp rúmlega 10. Halldór skaut sér inn í rúm og ég kom henni í vagninn sinn rúmlega 11. Ég ætlaði rétt að fletta í gegn um tilboðsbæklingana og kúra mér svo aðeins, en nei! Mín var vöknuð innan við klukkutíma eftir að ég lagði hana. Eftir mikið væl dreif heimilisfaðirinn sig með börnin út í bakarí og ég slappaði mér bara af á meðan. (Jájájá.. var soldið eftir mig eftir hvítvín gærkvöldsins!
) Svo þegar þau komu tilbaka var mín hin kátasta! Þá var hún auðvitað bara hundfúl yfir aðgerðarleysinu. Alveg ferlegt eftir að hún byrjaði á vöggustofunni, það verður bara alltaf að vera stanslaust prógram, annars er hún bara rellin og vælin út í eitt!
Ég dröslaði mér í þvottahúsið eftir bakarís-átið og rak nefið út fyrir dyr og hugsaði með mér að þetta gengi ekki. Ég væri að koðna niður úr ofáti og hreyfingaleysi svo ég kom inn... stelpan aftur farin að væla... gallaði okkur mæðgurnar upp og sagðist ætla í göngutúr. Halldór var alveg til í göngutúr en frumburðurinn var of niðursokkinn í einhverja Eddie Murphy mynd til að nenna upp úr sófanum. Gæti líka verið að hann hafi verið gróinn fastur við hann.. veit það ekki. Allavega skunduðum við foreldrarnir með þá stuttu í vagninum í rigningunni. Mín aaalsæl! Við fórum kringum nyrsta vatnið í Utterslev-mose sem tók örugglega hátt í klukkutíma og það var algjörlega æðislegt. Því þrátt fyrir regnið var veðrið svo milt og gott.
Heimilisfaðirinn eldaði ekta sveitahakk með kartöflum handa þeim feðgum og ég hitaði mér bara upp fiskinn frá í gær . Við ákváðum síðan að skella skemmtilegri og uppbyggilegri mynd fyrir drenginn í tækið (reyndar á hýslinum), Lethal Weapon, og höfðum það kósí. Þegar myndin var búin var Star Wars III í sjónvarpinu og Eysteinn spurði: Er þetta alvöru myndin? -Já! Svaraði ég. Svo sátum við Halldór og vorum að gera grín að því hvað þetta væri eitthvað fyndið og hallærislegt svona eftir öll þessi ár þá gall í drengnum: Nei ég meina, er þetta ALVÖRU myndin? -Já! Sagði ég, og svo þegar hann spurði í þriðja skiptið þá sagði Halldór -Já, þetta er sannsögulegt. Nei hvað meinarðu? -Nei ég meina sko... er þetta ekki svona grínmynd? -Nei! Svöruðum við. -Mér finnst þetta eitthvað svo glatað! Drengurinn hafði verið búinn að heyra svo mikið um Star Wars.. klassík og allt það
og þetta voru svo öll herlegheitin.
Pétur sendi okkur tvo góða sem ég ætla að láta fylgja með svona í restina:
Vandamálið
Þegar páfinn kom til New York var honum ekið sem leið lá frá flugvellinum en á leiðinni bað hann bílstjórann að leyfa sér að aka. Bílstjórinn sem átti nú varla annarra kosta völ hafði þá sætaskipti við páfann.
Ekki hafði páfinn ekið lengi er lögreglan stöðvar hann. Lögreglumaðurinn rekur upp stór augu þegar hann sér hver ekur og kallar í talstöðina á varðstjórann.
Ég stoppaði einhvern svakalega mikilvægan náunga hérna á hraðbrautinni og veit hreinlega ekkert hvað ég á að gera.
Nú jæja, þú hefur þá stoppað borgarstjórann, segir varðstjórinn.
Nei, nei, svarar lögreglumaðurinn. Þessi er miklu valdameiri.
Jæja, er það þá ríkisstjórinn?
Nei, elskan mín góða, þessi er miklu hærra settur.
Ekki segja mér að þú hafir stoppað forsetann fyrir of hraðan akstur, hrópar varðstjórinn, hneykslaður.
Nehei, þessi er sko talsvert fyrir ofan forsetann skal ég segja þér.
Nú, hvern í fjáranum stoppaðirðu?
Ég þori varla að segja það, svaraði lögreglumaðurinn, en páfinn í Róm er bílstjórinn hans
--------------------------------------------
Þjóðarstoltið
Þær fréttir bárust í vikunni frá Kína að fornleifafræðingar hefðu grafið 200 m niður í jörðina og fundið koparvíra. Kínversk stjórnvöld urðu að sjálfsögðu upp með sér og sögðu að þetta sýndi svo að ekki væri um villst að Kínverjar hefðu verið búnir að finna upp símann fyrir 1000 árum.
Daginn eftir bárust þær fréttir frá Þýskalandi að fornleifafræðingar hefðu grafið 200 m niður í jörðina og fundið ljósleiðara. Stjórnvöld þar í landi, og Evrópusambandið líka, hreinlega blésu út af stolti og sögðu þetta sýna eins og svart á hvítu, að þjóðir meginlandsins hefðu verið búnar að finna upp stafrænar símstöðvar fyrir 1000 árum
Í gær bárust svo þær fréttir ofan frá Íslandi að fornleifafræðingar hefðu grafið 200 m niður í jörðina og ekki fundið neitt. Halldór Ásgrímsson réði sér ekki fyrir kæti og gleði og sagði það hafið yfir allan vafa að það hafið verið íslenskir landnámsmenn sem hafi fundið upp þráðlaust símakerfi.
Góðar kveðjur!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17. dagur októbermánaðar
17.10.2008 | 11:22
Jódís Guðrún er alveg að fíla sig þarna á vöggustofunni. Ég var að finna til útifötin á hana þegar Halldór tók hana í fangið og hún bara vinkaði mér bless! Já.. bara drífa sig af stað! Vissi sko alveg að þau væru að fara. Svo er hún samt svo góð við pabba sinn að hún gerir venjulega svona "uhuu!" þegar hann skilur hana eftir en fer svo bara að leika. Bara rétt til að hún móðgi hann nú ekki með því að það sé skemmtilegra að vera þarna en heima.
En... hvernig í ÓSKÖPUNUM á maður að muna eftir því að útbúa nesti handa Jódísi Guðrúnu.. BARA á föstudögum. Ég -að sjálfsögðu!- gleymdi því -aftur!- í morgun eins og alla aðra föstudaga. Í þetta skiptið varð mér þó litið á ísskápinn klukkan 10:20 í morgun, þar sem ég hafði, síðastliðinn föstudag, skrifað stórum stöfum á blað: FÖSTUDAGUR: MUNA NESTI FYRIR JÓDÍSI GUÐRÚNU!!! og þau borða korter í ellefu svo ég dreif mig í að útbúa nesti handa stelpunni, leita að strætókortinu mínu, sem ég mundi svo að Halldór hafði tekið, finna sokka og allt... auðvitað var ekkert tilbúið!!! Svo klukkan var hálfellefu þegar ég hljóp (öllu heldur skakklappaðist) uppá strætóstopp, nýtt met, 4 mínútur! Allan tímann hugsaði ég bara plís plís plís... ekki vera nýfarinn, því strætó kemur á 10 mín. fresti. Þegar ég stóð á ljósunum sá ég strætóinn koma og hljóp yfir á rauðu, held hann hafi gert sér grein fyrir að ég ætlaði með honum, og sem betur fer var gömul kona að bíða eftir honum svo ég rétt náði inn áður en hann rann af stað. Þegar ég kom að staðnum sem ég fer úr þá var grænt á göngukallinum, sem er ALDREI! Svo ég hljóp (hahaha).. ég meina skakklappaðist.. alla leiðina að vöggustofunni og inn! KORTER Í ELLEFU var klukkan. Ég fór inn og passaði mig að stelpan myndi alls ekki sjá mig væri hún þar.. en þar var enginn!! Auðvitað voru allir í gönguferð og ætluðu að vera svolítið í seinni kantinum í dag. Ég hefði sem sagt geta skriðið þetta og samt náð! Æi ég var afskaplega fegin þó að hafa náð á réttum tíma. Svo rölti ég mér tilbaka og þurfti varla að bíða eftir næsta strætó, samt tók ferðin allt í allt 45 mínútur. Ótrúlegt!
Ég er að hugsa um að minnast bara aftur á veðrið. Það er yndislegt!!! Varla vindur, sól og fallegt. Það var reyndar undir 5 gráðunum þegar við komum á fætur í morgun en lofthitinn hefur hækkað mikið með sólinni. Og litirnir maður!!! Verstur fjandi að ég þurfti að minnka myndirnar sem ég setti inn í síðustu færslu, svo mikið að dýptin fer alveg. En ég tók alveg fullt af myndum, þetta var bara brotabrot af þeim.
Eysteinn forðaði sér í klúbbinn í morgun þegar hann sá mig draga ryksuguna fram, ætlaði sko EKKI að lenda í einhverri tiltekt heima. Hringdi svo í mig áðan og þá voru þau að baka sér pizzur. Hver með sína og áleggið bara í skálum á borði. Hann var hrifinn eða a.m.k. sá hann ástæðu til að hringja í mig og segja mér frá þessu.
Nú er held ég kominn mánuður síðan við sóttum um internettengingu, en eins og ég hef minnst á áður þá erum við á nágrannaneti.. já með fullu samþykki að sjálfsögðu og við fengum allan búnaðinn sendan í fyrradag. En tengingin verður þó ekki gerð virk fyrr en 22. oktober. Þeir eru svoo snöggir að öllu hérna þessar elskur! Þetta er búið að dragast svo að gjafakarfan er komin úr stærð 1 í stærð 4 núna sem við verðum að gefa honum Steffen fyrir að veita okkur aðganginn að sínu neti
.
Nú er innan við vika þangað til amman og afinn í Baugstjörn koma til okkar og erum við orðin ansi spennt að fá þau. Ég vona bara að þau fái þetta góða veður sem er búið að vera undanfarið svo þau geti notið þess í botn að vera hérna í Kaupmannahöfn. Spurning um að kíkja í þessa búð þarna sem íslensku konurnar voru reknar út úr og athuga hvort maður fengi ekki einhverja þjónustu?
Jæja, gott í bili!
Ein svona í lokin af stelpunni fyrir utan vöggustofuna sína

Dægurmál | Breytt 19.10.2008 kl. 17:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Púst-rör
15.10.2008 | 22:14
Ohhh.. ég datt í það aftur í dag, sko ekki áfengið heldur datt ég í að lesa og lesa um ástandið heima. Það byrjaði allt með því að svo margir voru búnir að tala um Silfur Egils og hvernig Egill missti sig við Jón Ásgeir síðastliðinn sunnudag. Svo ég varð náttúrulega að sjá það. Það er ástæða fyrir því að ég rökræði aldrei (a.m.k. afskaplega sjaldan) pólitík og ástæðan er sú að ég þoli ekki að tapa í rifrildum (sem rökræður eru náttúrulega, bara fínt orð yfir rifrildi) og það getur eiginlega aldrei neinn unnið í rifrildi um pólitík þar sem hún byggist náttúrulega bara á skoðunum fólks yfir því hvernig hlutirnir séu best framkvæmdir. Ég líka verð að hafa allar staðreyndir upp á 10 til að geta unnið rifrildi og þegar stór og flókin mál eru í brennidepli nenni ég yfirleitt ekki að leggjast í það að lesa um það allt þar sem mér finnst ég oft á tíðum þurfa að vita allt um málið frá upphafi og stundum á það sér margra ára langa sögu. Allavega nenni ég þá ekki að lesa nægilega mikið til að ég geti myndað mér skoðun röggstudda með staðreyndum upp á 10. Svo, eins og fyrr segir, sleppi ég því bara að rífast um pólitík (svona yfirleitt allavega ).
Ég hins vegar get eiginlega ekki orða bundist yfir þessu ,,viðtali" Egils við Jón Ásgeir. Ég bjóst við því að sjá alvöru aðför að manninum (byggt á því hversu reiður ég hafði heyrt að Egill hefði verið), með beinhörðum staðreyndum sem Egill myndi slengja framan í hann til að fá svör við spurningum sem þörfnuðust svara af hálfu stjórnenda þessara stórfyrirtækja sem ,,skilið hafa eftir sig sviðna jörð", svo ég vitni nú í Egil.
Fljótlega eftir að viðtalið hófst fékk ég fyrsta kjánahrollinn sem svo bara magnaðist og magnaðist þangað til ég var farin að æpa á hann, á skjánum hjá mér, í 3ja daga gömlum þætti, að hætta þessu. Meðvirknin í mér fékk áfall. Mér leið eins og ég væri að hlusta á rifrildi hjóna um hver ætti að ganga frá í eldhúsinu því að það að húsið væri á hvolfi væri allt hinu um að kenna. Egill hafði engar staðreyndir til að slengja framan í hann, hann tuðaði bara í honum eins og gamall nöldurseggur sem tíndi allt til í þeim tilgangi að reyna að brjóta hinn niður. Á tímabili fannst mér ég heyra: ,,eins og í síðustu viku, þú vaskaðir ekkert upp þá! Aldrei!" -,,Jú, ég vaskaði upp á miðvikudaginn!" ,,Já en af hverju ekki á fimmtudaginn eða föstudaginn?!" Ég held hann hafi verið að tala um FL Group þá. Ekki alveg viss, því ég heyrði svo lítið í honum fyrir "Mímímímímí!"
Ég varð sem sagt fyrir afskaplega miklum vonbrigðum og skildi hreinlega ekki í því hvað fólk var að blogga um að Egill hefði ,,spurt allra spurninganna sem við vildum fá svör við". Hvaða spurninga? Hvort hann væri tilbúinn að koma aftur og vinna hjá Bónus? Hvort hann ætlaði að selja snekkjuna sína og lifa eins og ,,við hin"? Þetta eru sko bara ekkert ras*** spurningar sem ég vildi fá svör við! Eftir stóð að Egill gerði sig að fífli og Jón Ásgeir sat yfirvegaður og svaraði öllum spurningunum, hversu fáránlegar sem þær voru. Fékk á sig hreytingar um að lög hefðu verið ófullkomin og mál fyrnd í Baugsmálinu svokallaða. Að þessu ,,sögðu" er ég ekki að verja Jón Ásgeir, það er ugglaust ýmislegt sem var heldur óvarlega gert en að mínu mati eru það miklu frekar ráðamenn og eftirlitsmenn sem eiga að bera ábyrgð á ástandinu eins og það er í dag heldur en menn sem fylgja þeim reglum sem á borðinu liggja. Þar til fyrir nokkrum dögum síðan voru þetta óskabörn þjóðarinnar sem höluðu inn tekjum í ríkissjóð og nú þegar allt er farið til fjandans skulu þeir bera einir og óstuddir alla ábyrgð. Gott ef ekki bara á heimskreppunni allri. Það gleymdu sér allir í góðærinu, líka ráðamenn. Ég man ekki betur en Íbúðalánasjóði hafi rétt verið bjargað frá því að vera lagður niður á sínum tíma. -Sííí, hvar værum við þá! -Kristján væri allavega ekki að vinna þar, svo mikið er víst!
Jæja, þá er það frá!
Annars er veðrið bara búið að vera hið ljúfasta í dag. Það átti náttúrulega að helli-rigna og jújú, það var blautt, ég segi það ekki. En það var svosem ekki rigning, allavega ekki í þau skipti sem ég fór út eða leit út um gluggann. Það var hins vegar afskaplega milt og gott veður og ég reif húfuna af stelpunni til að hún myndi ekki kafna úr hita á leiðinni heim. Haustlitirnir dofnuðu sko ekkert við það að fá smá vætu á sig og loftið var ferskt og gott.
Eysteinn ætlaði nú ekki að nenna að fara í klúbbinn í morgun þar sem hann átti að vera mættur fyrir hálftíu þar sem fara átti í bæjarferð. Við hvöttum hann eindregið til að drífa sig og hann varð samferða pabba sínum í strætó þangað. Þegar ég kom svo heim klukkan korter í fimm, eftir að hafa sótt stelpuna og komið við í Netto, logandi hrædd um að minn sæti eldrauður í framan fyrir utan dyrnar, þá var bara enginn heima! Hann kom ekki fyrr en að ganga sex alsæll eftir frábæran dag sem hófst með pizzuáti og endaði með bíóferð.
Pétur kíkti svo á okkur í kvöldmat (fer nú bráðum að fara að rukka hann fyrir fæði ) og sat aðeins fram á kvöldið. Alltaf jafn gott að fá hann í pínu heimsókn.
Nú er sú stutta búin að læra að reka út og inn á sér tunguna og segja svona "blelö-blelö-blelö" (þetta er eiginlega besta hljóðskriftin sem ég næ að gera úr þessum hljóðum, þið skiljið hvað ég á við.) AAAAlgjör dúlla!!! Hún var í fanginu á mér í dag og teygði sig í átt að glugganum og sagði alltaf deddaa, dedda.. í sífellu og ég bara -jájá, deddaaa, eitthvað. Svo leit ég á það sem hún var að benda á og.. ahhh, mamma bara hlustar ekki á kláru stelpuna sína!!! Hún var að sjálfsögðu að biðja um snudduna sína sem hún sá uppí glugganum og skríkti alveg þegar ég teygði mig eftir henni. Hún er svo mikill snilli þessi skotta mín. Svo til alltaf þegar ég segi Jæja þá heyrist strax á eftir í minni "jajaa" Hann er ævintýralega skemmtilegur þessi tími þegar svo margt kemur hjá þessum krílum. Að byrja að labba, tala, hlæja með okkur hinum, sem hún gerir iðulega þegar við erum að segja eitthvað fyndið, o.s.frv.
En jajaaa held þetta sé bara orðið gott í bili .
Nokkrar myndir sem ég tók í gær af haustinu læt ég fylgja með svona í lokin auk nokkurra mynda af systkinunum fallegu.













Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Breyttur heimur
14.10.2008 | 09:06
Veðrið er svo yndislegt núna að ég trúi því nú bara varla (nú frekar en fyrr) að það sé 14. október. Á reyndar að fara að rigna á morgun svo við Lóa ætlum að hittast í dag og taka nokkrar fallegar haustmyndir enda eru trén núna svo falleg í haustlitunum að maður má nú eiginlega ekki láta það fara til spillis. Annars ljúga veðurfræðingar hérna meira en heima (sbr. lagið hans Bogomil) svo á þá er ekkert að treysta hvað spárnar varðar. Svo oft búið að spá grenjandi rigningu sem svo kemur ekki, sem betur fer náttúrulega, segi það ekki .
Eysteinn sagði afskaplega heimspekilega við mig í gær "Mamma heimurinn hefur breyst svo mikið!" "Nú?" segi ég, "já, Ronaldinho er kominn til AC Milan!" Já það er rétt.. heimurinn hefur breyst afskaplega mikið
Annars var soðningin afskaplega góð sem við fengum okkur í gær og ég vissi ekki að eitt barn gæti verið svona botnlaust, Jódís Guðrún gargaði ef við vorum ekki stanslaust að moka upp í hana og það var ekki séns að reyna að lauma upp í sig bita og bita á meðan. Hún hesthúsaði heilum disk af stöppuðum fiski í kartöflum og smjöri og Halldór var farinn að gefa henni af sínum fiski til að nágrannarnir héldu ekki að við værum að pína barnið. Hún er farin að verða stöðugri og stöðugri, stendur bara út á miðju gólfi og tekur svo kannski 2-3 skref, maður sér hreinlega dagamun hjá henni hvað þetta varðar. Enda töluðu fóstrurnar einmitt um það í gær við mig. Svo er foreldrafundur á vöggustofunni í næstu viku og það verður gaman að sjá hvað sagt verður um hana.
Jæja, gott í bili, ætla að fara að finna til myndavélina og svona til að taka með niður í bæ.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur í október
12.10.2008 | 19:48
Tókum daginn í dag bara í rólegheitum, fengum símtal að heiman frá tengdamömmu fyrir hádegi sem var náttúrulega bara yndislegt eins og alltaf .
Það er hreint ótrúlegt hvað veðrið hérna er búið að vera yndislegt. Bara tæplega 15 stiga hiti og sól og notalegt. Fólk var bara á peysunni úti og það í miðjum októbermánuði. Sigrún og Andy buðu okkur svo seinnipartinn í kaffi og vöfflur til sín og ohhh, ég fyllist alltaf öfund þegar ég kem til þeirra (samt bara svona góðri öfund sko ) þau eiga svooo fallega íbúð á svo fullkomnum stað. Þetta var alveg ofsalega notalegt, eins og alltaf, og sátum við bara að spjalli í góðan tíma. Jódís Guðrún naut sín í botn við að dreifa legókubbunum vel og vandlega um allt stofugólf og þau verða örugglega stígandi á kubba fram eftir allri vikunni. Eins og það er nú alltaf notalegt
. Á heimleiðinni rákumst við á athugasemd á búðarglugga sem ég má til með að deila með ykkur. Nefnilega í ákveðni sinni og tilætlunarsemi eru Danir svo kurteisir. Þetta fannst okkur lýsa því vel. Ef þetta sést ekki vel má alltaf smella á myndina og stækka hana.

Pabbi hringdi svo uppúr kvöldmatarleytinu og var auðvitað frábært líka að heyra aðeins í honum. Nú er stelpan orðin svo góð með það að fara að sofa aftur, maður bara leggur hana og kyssir góða nótt og þá bara veltir hún sér á hliðina með Gutta og Lubba í fanginu og sofnar sér. Svo nú liggur hún steinsofnuð í rúminu sínu og feðgarnir eru í fótboltaleik í Playstation tölvunni meðan ég pikka eitthvað hérna á tölvuna. Þetta finnst mér afskaplega notaleg stund svona á tölvuöld .
Annars erum við nú að róast yfir öllu ástandinu og finnum að þessi þráhyggja fyrir æsifréttum að heiman fer dalandi sem er mjög gott og svo sem afskaplega lítið sem við getum gert svo það er til lítils að vera eitthvað að missa sig yfir þessu öllu. Nú vonum við bara að ástandið fari batnandi í vikunni og ef það dregst eitthvað á langinn þá eigum við allavega afskaplega góða að. Ástarþakkir fyrir það. Við kunnum virkilega að meta allt sem þið gerið fyrir okkur (þessi kall á að sýna hversu auðmjúk við erum).
Pabbi sendi mér einn góðan sem ég ætla að láta fylgja með svona í lokin:
An American said:
"We have George Bush, Stevie Wonder, Bob Hope and Johnny Cash."
The Icelander replied:
"We have Geir Haarde, no Wonder, no Hope and no Cash."
Ágætt að gera bara grín að þessu öllu
Knús til ykkar allra.
A
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Nýr leikur!
11.10.2008 | 21:03

Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11. október
11.10.2008 | 21:00
Gærmorguninn var eins og flestir morgnar, Eysteinn dreif sig í skólann, reyndar var loftlaust framdekkið á hjólinu svo hann varð að hlaupa, og Halldór fór með Jóguling á vöggustofuna í leiðinni í vinnuna. Ég setti í vél og sótti á snúrurnar. (Þetta er sem sagt týpískur morgunn). Þessi morgunn var þó frábrugðinn að því leyti að Lóa vinkona kom rétt rúmlega níu með glænýtt brauð sem við gæddum okkur á með ný-uppáhelltu ósviknu baunakaffe! Við kepptumst við að tala um ástandið heima, hérlendis og svo sem allt milli himins og jarðar. Svo skemmtilegt að hún var búin að standa í jakkanum við útidyrnar í rúman klukkutíma þegar hún VARÐ að fara, um tvöleytið .
Þegar við Jódís Guðrún komum frá vöggustofunni stukkum við upp í strætóinn sem Halldór hafði tekið frá vinnu og vorum við því öll samferða heim. Eysteinn Aron kom ekki heim fyrr en klukkan að verða fimm frá klúbbnum enda finnst honum rosalega gaman í honum.
Við buðum Pétri svo í kvöldmat og ég steikti ýsu til að metta 5000 og gleyptum við þetta í okkur með bestu lyst. Ég grét sko ekkert afganginn því ég sá mér gott til glóðarinnar að hita þetta upp í hádeginu í dag.
Í dag var svo frumsýning hjá Halldóri á balletnum Bamse og Kylling, karakterar sem allir kannast við sem einhverntímann hafa búið í Danmörku. Þetta er barnaefni sem var meira að segja í gangi þegar ég bjó í Farum sem krakki. Hér er nostalgían fyrir þá sem vilja
Við Eysteinn og Jódís vorum heima og stelpan var að verða vitlaus úr eirðarleysi um það leyti sem Halldór kom heim og fóru því pabbinn og börnin saman í göngutúr meðan ég skellti í eina eplaböku. Þegar þau komu síðan heim var stelpan alsæl, náttúrulega vön því að hafa nóg að gera yfir daginn og ég bauð þá uppá nýbakaða bökuna með ís. Stelpan fékk reyndar bara brauð og ritz kex. Aaaaðeins minni sykur í því
. Hjá okkur hinum rann bakan ljúflega niður
.
Eysteinn er svo að fara í vetrarfrí alla næstu viku, alveg týpískt að það skuli vera vikunni áður en það er vetrarfrí á Selfossi því amma og afi í Baugstjörninni koma þá. En klúbburinn er opinn alla dagana sem hann er nota bene alsæll með því hann vill helst vera þar öllum stundum.
Um daginn fékk ég símtal frá umsjónarmanni Eysteins í klúbbnum þar sem hann sagði mér frá ferð sem klúbburinn er að fara til Langeland síðustu helgina í október. Þetta er alveg frábær staður þar sem boðið er upp á alls konar aktivitet (gott orð óskast á íslensku) eins og kajaksiglingar, minigolf, fiskveiði, handverk ýmiss konar, bátsferðir, keila og ég veit ekki hvað og hvað. Reyndar þá var bekkurinn minn í gamla daga búinn að safna fyrir bekkjarferð þangað en ég missti af ferðinni þar sem hún átti að vera nokkrum mánuðum eftir að við fluttum heim . Allavega, þá sagði hann mér að skráningu í ferðina hefði verið lokið áður en Eysteinn byrjaði í klúbbnum en nú þegar þau voru að taka samann fjöldann sá hann að það var pláss fyrir Eystein með og hann vildi ólmur hafa hann með. Sagði að það væri svo rosalega gott fyrir hann að vera heila helgi með krökkunum og komast almennilega inn í hópinn. Ég var honum hjartanlega sammála og þakkaði með þökkum boðið í ferðina. Ég held líka að ferðin komi á frábærum tíma því hann er að byrja að skilja heilan helling og farinn að tala nokkur orð og ég held að þessi ferð eigi heldur betur eftir að ýta undir skilning og tal.
Hann kom reyndar freeekar hneykslaður heim í vikunni og sagði okkur að það væri kærustupar í bekknum. "Við erum 10 ára!!!... Kærustupar!!!" Svo daginn eftir kom hann allur uppveðraður heim eftir klúbbinn og sagði frá ótrúlegum leik sem þau hefðu verið í. Þau voru sem sagt nokkur uppí þessu "hygge-lofti" sem er í klúbbnum og svo voru nokkrir krakkar að kyssast "...og sko ekki bara mömmukossar, heldur sleikur og allt!!! Svo voru þau að rúlla um allt og svo voru allir vitlausir og hrópuðu alveg -Nú við, nú við!" Við Halldór áttum mjöööög erfitt með að halda andliti og mér tókst greinilega betur upp því hann vildi miklu frekar tala um þetta við mig en pabba sinn. Við náttúrulega urðum að spyrja: Og varst þú með? "NEI!" svaraði hann þá hneikslaður. Svo eru víst tvær stelpur skotnar í honum og önnur er mjög sæt! Guð minn góður.. litla barnið mitt er að verða unglingur! En á meðan hann vill segja mömmu sinni frá þessu, dúllan mín
þá er ég róleg.
Svona í lokin ætla ég að setja inn nokkrar skemmtilegar myndir af fjölskyldunni.







Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það haustar
9.10.2008 | 11:33
Ég er að hlusta á rás 2 á netinu og heyrði í auglýsingum og tilkynningum að verið var að auglýsa Lottó, 9 milljónir í fyrsta vinning. Það hljómar nú bara eins og klink í eyrum manns eftir að hafa heyrt um alla hundruði milljarðana undanfarna daga. Veit ekki hvort tekur því að vera með í Lottóinu fyrir svona smáaura .
Hér er bara búið að vera blíðviðri, sól og sæmilega hlýtt miðað við árstíma allavega og haustlitirnir eru afskaplega fallegir. Ég var búin að safna fullt af ægilega fallegum laufum á leiðinni heim frá vöggustofunni sem ég ætlaði að gera eitthvað skemmtilegt við en sá svo pokann á kafi í ógeði í ruslinu. Halldór hafði ekkert botnað í því hvað ég væri að geyma ruslapoka uppá borði. Karlmenn!!!
Annars er hugur minn bara hjá vinkonum mínum Önnu og Huldu sem báðar vinna hjá Landsbankanum. Þetta er alveg skelfilegt. Og þetta er rétt að byrja. Bæði Glitnir og Kaupþing eftir .
Ég sendi bara ástarknús heim til ykkar allra og vona að öll þessi ást hafi líka áhrif (spilling effect) á gengið þannig að opnað verði fyrir gjaldeyrisviðskiptin svo við getum millifært á okkur nokkrar krónur á viðráðanlegu gengi. Í millitíðinni ætla ég að hita mér upp smá mexínanska tómatsúpu sem við höfðum í matinn í gærkvöldi
.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Jæja já...
7.10.2008 | 23:59
Það er nú svo sem ekki mikið búið að gerast hjá okkur í dag. Maður er bara búinn að fylgjast agndofa með því hvað er að gerast heima og vonar bara að það spilist nú sem best úr þessu öllu og maður finni sem minnst fyrir þessu. Reyndar er finnum við fyrir gífurlega hertu skrúfstykki í Glitni, sem er nú einmitt bankinn okkar og lítið svigrúm til nokkurra athafna þar eins og annars staðar ugglaust, enda sýnist mér nú á veffréttamiðlum að fjármálaeftirlitið sé nú búið að taka bankann yfir.
Annars sótti ég bara stelpuna á vöggustofuna um 3 leytið og var hún hin kátasta í dag, sögðu þær mér, enda voða kát þegar ég sótti hana. Pétur kíkti svo á okkur í kvöld en ég sofnaði yfir því að Eysteinn var að lesa fyrir mig úr dönsku bókinni sinni (þarna Ási á lás, sem ég skrifaði um þarna um daginn) svo ég skreið mér nú bara inn í rúm og svaf fram til að verða 11. Þá heiðraði ég nú gestinn með nærveru minni, nýkomin frá Rocky mountains þar sem ég var í sumarhúsi ásamt nokkrum félögum mínum sem ég bara hreinlega man ekki hverjir voru, svo dónalegur er maður nú.
Halldór átti að byrja í dönskunáminu sínu í kvöld en vegna "þríritsins og stimplanna" (eins og hann orðar það) þá byrjar hann ekki fyrr en 4. nóvember. Hann er ekki kátur! Ótrúleg búrókrasían hérna og engan veginn hægt að gera nokkuð. Þetta var bara svo lengi allt á leiðinni í kerfinu hjá þeim.
Heyrðu já! Við fengum okkur grjónagraut og slátur og flatkökur með hangikjöti í kvöldmatinn. Það var engu minna ummað yfir matnum í dag en í gær. Takk fyrir okkur! Þetta var ÆÐI!!!
Jæja, læt þetta bara duga í bili því ég ætla að fara að skríða uppí aftur .
Dægurmál | Breytt 8.10.2008 kl. 00:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Veislan búin!
6.10.2008 | 21:07
Danski fjármálaspegúlantinn sem verið var að ræða við í seinni fréttunum núna rétt áðan vegna ástandsins á Íslandi átti erfitt með að halda glottinu í skefjum þegar hann sagði að sú stóra en stutta veisla sem verið hefði á Íslandi væri nú búin og þeir Íslendingar sem ættu allar þessar stóru eignir í Danmörku ættu eftir að eiga það erfitt þegar þeir þyrftu að selja eignir sínar hérlendis á brunaútsölu en það kæmi sér vel fyrir danskann. Að öðru leyti hefur nú ekki mikið verið rætt um ástandið á Íslandi nema svona í framhjáhlaupi þegar verið var að lýsa ástandinu í Evrópu gjörvallri. Ekki er nú ástandið hérlendis upp á marga fiska heldur og þeim fer fækkandi, sem er svo sem allt í lagi þar sem þeir eru svo ferlega bragðvondir hérna.
EEEeeeen, við aftur á móti fengum okkur alveg hriiiiiikalega góðan fisk í matinn. Mæli með þessari uppskrift sem ég fann upp aaaalveg sjálf þegar ég var að elda hann áðan. Þannig er nefnilega að þegar við setjum bakarofninn í gang fer rafmagnsmælirinn á þúsundfaldan hraða svo við reynum að halda notkun hans í skefjum. Svo ég byrjaði á því að sneiða niður rauðlauk og sveppi og steikti það vel, setti smá salt og pipar á fiskinn og steikti hann uppúr olíunni sem eftir var og færði svo flökin og laukblönduna á aðra pönnu og lét malla á vægasta hita meðan ég kláraði að steikja restina af fisknum. Það lét ég svo malla undir loki í dágóðan tíma og setti svo nokkrar sneiðar af osti yfir, samt ekkert mikið. Þetta varð svona fiskikássa eiginlega og ég bar þetta á borð með soðnum kartöflum. Ég vissi EKKERT hvernig þetta myndi bragðast en GUÐ MINN GÓÐUR hvað þetta var hriiiiikalega gott. Rauðlaukurinn og sveppirnir mynduðu svona sætt mauk og osturinn hafði eiginlega bráðnað inní flökin við það að bráðna svona undir lokinu. Mæli með þessu!! Við svoleiðis slöfruðum þetta ummmandi í okkur. Veislan er nú búin.
Siggi og Kristján fóru í dag eftir að hafa verið hjá okkur og það var svo yyyndislegt að hafa þá hjá okkur. Þetta var líka svo afskaplega afslappað. En veislan er búin. Þeir komu hingað líka til að kúpla sig svolítið út úr ástandinu heima og nutu þess (held ég ) að rölta bara um bæinn í rólegheitunum. Reyndar skruppum við í Fields-verslunarmiðstöðina í gær, eins og ca. 5000 aðrir Íslendingar, en það var líka alveg huuundleiðinlegt veður, rok og rigning, svo það var gott að vera bara á dólinu í góða veðrinu inni
. Ég keypti stuðkant fyrir rúmið hennar Jódísar Guðrúnar svo nú hættir hún vonandi að vekja okkur um miðjar nætur með hausinn skorðaðan milli rimlanna. Ég keypti líka öryggisól til að festa hana niður við matarstólinn þar sem hún er alltaf að standa upp í honum ægilega góð með sig. Hvoru tveggja var þetta rándýrt, tala nú ekki um miðað við gengið, en góður nætursvefn er ómetanlegur og ekki þarf að tíunda að ólin er náttúrulega bráðnauðsynleg. Svo ég sé nú ekki eftir þeim pening. Í dag var hins vegar alveg frábært veður, sól og hiti, svo strákarnir röltu sér niður í bæ og á Íslandsbryggju og fleira áður en þeir komu svo hingað heim til að pakka. Ég leyfði þeim bara að eiga þennan dag fyrir sig í rólegheitunum enda svo sem nóg að læra
.
Það var alveg hreint með ólíkindum hvað Jóga var hrifin af Kristjáni. Hún var ekki nema svona klukkutíma að taka hann í sátt og þá líka bossasentist hún grátandi á fullum hraða fram hjá okkur til að komast í fangið á honum. Maður var nú bara orðinn hálf afbó hérna neeei, ég segi svona
, enda er hann náttúrulega baaara æði. Hún var líka afskaplega hrifin af Sigga frænda og gerði í því að skríða úr einu fangi í annað og fílaði það í tætlur! Mér sýndist líka hrifning þeirra vera bara nokkuð gagnkvæm.
Hún fór svo á vöggustofuna í dag og var heilan dag í fyrsta skipti. Þegar ég kom og sótti hana rúmlega 3 þá var hún bara að leika sér á gólfinu og rétt brosti til mín svo ég settist bara hjá henni og lék svolítið við hana. Svo tók ég hana upp og var að spjalla við Bettina, þá sem er mest með hana, og þá vildi hún bara komast í fangið á henni og var þar bara í dágóðan tíma áður en hún vildi komast aftur til mín. Enda gekk dagurinn alveg rosalega vel.. á meðan Bettina var í augsýn .
Nú stendur danska krónan í einhverjum 23 íslenskum og okkur finnst við vera svolítið í lausu lofti hvað framhald dvalarinnar varðar. En það er nú kannski rétt á meðan maður er að melta hvað er að gerast heima. Næstu dagar og vikur verðum við að reyna að ná betur utan um þetta allt saman og sjá hvort þetta sé ekki eitthvað sem við getum staðið af okkur. Eitt er þó allavega víst að það er ótrúlega gott að standa aðeins fyrir utan þetta allt saman og sjá þetta í svolítilli fjarlægð, þó þetta vissulega snerti okkur mjög svo beint og harkalega. En maður nær samt betri sýn á þetta að standa ekki svona í miðri hringiðunni held ég. Eins og ég hef þó sagt einhvern tímann þá finnst manni bara svolítið súrt að vera að upplifa timburmenn fyrir fyllerí sem maður fékk ekki einu sinni að vera með í. Veislan er nú búin!
Endar maður ekki svona bara á fleygu orðum Geirs síðan í dag?:
Guð blessi Ísland!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)