Laugardagskvöld

Stelpan er öll að koma til og svo sem ekki vanþörf á, það var orðin algjör óstjórn á þessu heimili og eins gott að hún er komin aftur við stjórnvölinn.  Hún var með nokkrar kommur í dag en lét þær ekki aftra sér við að hafa heimilið eins og henni þykir best... í rúst!

Halldór var að vinna í dag, æfing á stykkinu hans, en var búinn frekar snemma og ég var komin með þetta fína lambalæri í ofninn og ilmurinn úr eldhúsinu... upp á Emdrup Torv orðinn ansi lokkandi þegar hann kom heim.  Lóa og Þröstur komu svo til okkar og borðuðu með okkur lambið, brúnaðar kartöflur og tilbehör og jiiii hvað þetta var rosalega gott.  Takk fyrir okkur Gurrý og Leifur Tounge!  Ég fattaði reyndar í miðri máltíð að ég hafði gleymt salatinu inní ísskáp en öllum var slétt sama og við Lóa nörtuðum í nokkur salatblöð svona til málamynda.  Fólk vildi bara íslenskt lambakjöt og kartöflur!  Þau sátu svo frameftir með okkur að spjalli og mikið óskaplega var þetta notalegt og gaman Smile  Þarf að gera meira af þessu!

Nú er sko jólafílingurinn að hellast yfir okkur og ég fann hann svo sannarlega eftir að ég kom úr sturtu eftir að Halldór kom heim.  Þegar ég kom fram, farið að rökkva og steikarilminn lagði úr eldhúsinu, þá fannst mér ég bara vera að koma úr jólabaðinu Joyful  Nú fer maður líka að fara að hugsa til jólanna og kaupa smotterí hér og þar til að gera smá jólalegt í kringum sig þegar þar að kemur og setja í jólapakkana.

Jæja, mega-lærsludagur á morgun og klukkan orðin vel margt.

Míns að fara að Sleeping í rúminn sinn.

Hilsnur! 


Lítill lasarus

Nóttin var svefnlítil í felles-herberginu.  Eysteinn kom reyndar tvisvar fram steinsofandi og ringlaður og bullaði bara tóma steypu en með smá hjálp kom hann sér þó aftur í rúmið.  Jódís Guðrún vakti okkur á ca. hálftíma fresti og skýringuna var að finna um morguninn.  Hún var komin með tæplega 40 stiga hita.  Við mæðgurnar kúrðum okkur til að verða 11 og þá komum við okkur fram og ég reyndi að gefa henni eitthvað að borða en það var ekki mikið sem fór ofan í hana.  Hún var þó dugleg að drekka.  Hún mókti eiginlega bara í fanginu á mér.  Ég fór svo með hana til læknis um tvö leytið, þá hafði ég gefið henni stíl og hún var búin að sofa í góðan klukkutíma.  Læknirinn var ekki langt frá, sá ég á kortinu, en ég vissi ekkert hvar hún var svo ég tók bara leigubíl þangað.  Þá sá ég að stofan var staðsett rétt við hliðina á Nettó þar sem ég versla alltaf.  Ég veit ekki alveg hvort aðstaðan teldist ásættanlegt í dag heima en við þurftum að ganga upp tvær hæðir í gömlu húsi þar sem engin var lyftan (til læknis... skrýtið! FootinMouth)  

Við biðum smá og hún reyndi að leika sér eitthvað með dót sem að ég fann þarna handa henni en var voða lasin ræfillinn.  Vibeke, læknirinn okkar, skoðaði hana í bak og fyrir, hlustaði hana og tók streptakokka sýni en fann ekkert að henni og sagði að ég ætti bara að gefa henni saft með salti útí fyrst hún væri enn með niðurgang.  Svo þegar ég var að klæða stelpuna aftur spurði ég hvort við ættum að borga hjá henni eða frammi og hún leit á mig eins og ég væri eitthvað skrýtin.  ,,Borga?!  Varstu ekki með sjúkrasamlagsskýrteini?"  Jú, ég sagði henni það og hún skoðaði það í bak og fyrir og sagði svo að þá þyrfti ég ekkert að borga neitt.  Ég útskýrði fyrir henni að á Íslandi þyrfti maður að borga þó að læknaþjónustan væri ,,frí".  Ég svo sem vissi alveg að maður þyrfti ekki að borga, vildi bara vera viss og eins því hún tók stroku af stelpunni sem ég bjóst við að þurfa að greiða fyrir.  En nei, allt frítt!  Svona á þetta að vera Smile.

Við röltum okkur í Irma og ég keypti saft handa stelpunni og splæsti á mig íslensku vatni (það er bara svo gott Tounge) og svo tókum við bara strætóinn heim, enda ekki langt að fara.  Þegar við svo komum heim gaf ég henni að drekka, og hún drakk heilt glas af saftinni, og svo lagði ég hana í rúmið og hún sofnaði á nóinu.  Stelpuræfillinn minn.  Nú sefur hún bara inni hjá Gutta og Lubba og heldur voða fast utan um þá.  Litli engillinn.  Vona bara að þetta rjátlist nú fljótt af henni.

 


Kalt kalt kalt!

Brrrrr... nú er sko farið að kólna.  Fór ekki mikið upp fyrir 5 gráðurnar í dag enda nú er sko búið að draga fram flíspeysurnar.. já kannski ekki það smekklegasta en vissulega það hlýjasta.  Þessi tími ársins auðveldar manni að greina Íslendinga frá útlendingum (Dönum og öðrum Joyful).  Hvarvetna sést ein og ein íslensk lopapeysa og þó sumar kunni nú að ylja einhverjum útlendingnum þá er það víst að flestar innihalda þær al-íslenska kjötskrokka.   

Stelpan var heima í dag.  Búin að vera með niðurgang í 2 daga núna og ég passaði mig að gefa henni ekkert losandi, raspaði epli, gaf henni ristað brauð og hafragraut o.s.frv.  Hún var og enda mjög góð í dag en þegar við skiptum á henni fyrir svefninn  Pinch þá leit það ekki út eins og við vildum.  Sé hvernig bleian lítur út í fyrramálið, ég hugsa samt að hún verði heima.  Hún er að dúllast meira og meira upp.  Nú er nýjasta æðið að finna koppinn sinn, skella einum hundabangsanna sem hún á (hún á þá nokkra Joyful) ofan í hann og bruna síðan um alla íbúð með hundinn í koppnum.  Svo tekur hún hann öðru hvoru upp úr koppnum og knúsar hann og heldur svo áfram.  Þess skal getið að koppurinn á þessu heimili er ekki nýttur til ,,venjulegra" nota enn sem komið er.  

Í útvarpinu í gær hlustaði ég á þátt um Ísland.  Það frussaðist svoleiðis upp þjóðremban í mér að mér var orðið hálf ómótt.  Til að byrja með hélt ég að þetta væri eldgamall þáttur.  Því þáttastjórnandi kynnti Ísland sem þjóð þar sem 270 þús. manns byggju en svo fór hann að tala um efnahagsþrengingarnar sem nú steðjuðu að henni og að þjóðin væri að upplifa ,,timburmenn" (sagt á íslensku líka) eftir fyllerí þjóðarinnar.  Í framhaldi af því var talað um hversu drykkfelld þjóð Íslendingar væru og viðtal við einhvern mann sem hafði verið hátt settur og farið í ferð til Íslands þar sem forsvarsmenn fyrirtækja hefðu svoleiðis verið á skallanum, úti að borða og hvar sem var.  Viðtalið var síðan 1979!  Hann talaði um að Íslendingar og Finnar væru einu þjóðirnar þar sem væri þeim boðið í mat og koníaksflaska sett á borð með kaffinu, eftir matinn, þá þætti ókurteisi annað en að klára úr flöskunni áður en kvöldið væri á enda.  Það væri þá merki um að ekki hefði verið nógu gaman.   

Þar á eftir var upplestur íslenskrar stelpu, sem greinilega var ekkert allt of þjálfuð í dönskunni, á einhverri ferð í leit að álfum og huldufólki og las hún allan tímann upp með ,,seiðandi dularfullri" röddu, hálf hvíslandi.  Var orðin frekar þreytt á þessu svona undir lokin.  Lestina rak (tvisvar sinnum er ég búin að skrifa restina lak LoL) svo viðtal við Flosa Ólafs sem hófst á hrópunum ,,Fola-fola-fola-fola-fola!!!"  Hann að kalla á folana sína uppi í sveit.  Inn á milli atriðanna voru svo leikin íslensk lög, flest með Björk og tríói Guðmundar á Gling Gló plötunni.  Hálf-glataður þáttur eitthvað GetLost.  En þeir geta svo sem ekki allir verið góðir Halo.

Nú ætla ég að fara að skríða mér uppí.  

Hilsnur! 

 


Úffff...

Mér finnst ég vera eeeendalaust að taka til og þrífa hérna og að er alltaf allt komið í sama farið í lok dagsins.  Þau ykkar sem eiga óaðfinnanleg heimili alltaf... hvernig farið þið að þessu??!!!  Ég gerði bara ekkert annað allan daginn ef heimilið mitt ætti að vera svona.  Reyndar... þið ykkar sem þekkið mig frá ,,fornu fari" vitið að það er hreint ótrúlegt að það skuli yfir höfuð vera hægt að opna hurðina inn í íbúðina.  Það er í raun kraftaverk!  Mamma gafst allavega upp á að reyna að fá mig til að taka til og lokaði bara herberginu mínu (og læsti helst) ef það komu gestir í heimsókn.  Og ekki var Halldór mikið skárri þegar við hófum sambúð.  Svo í raun þá er þetta bara alveg stórkostlegt!!! Já, ég er greinilega Ragnar Reykás!... ma-ma-ma-maður bara áttar sig ekki á þessu!

Á laugardeginum var frekar kalt en þó milt veður þegar við settum Jódísi Guðrúnu út í vagninn svona um eitt leytið.  Vagnpokinn góði var dreginn fram og stelpan steinsofnaði um leið og hún lagðist í vagninn.  Vaknaðir reyndar innan klukkustundar svo Halldór ákvað vonlítill að gera tilraun á því hvort hún myndi sofna aftur.  Jújú, mín sofnaði og klukkan hálffimm ákvað ég að vekja hana svo hún myndi eitthvað sofa í nótt!  Ekkert smá notalegt að sofa úti í fersku köldu lofti liggjandi í hlýjum pokanum Grin.  Halldór  var að vinna frá klukkan þrjú og ég hafði beðið Lóu um að koma til mín og smella smá lit í hausinn á mér. Ég var farin að líta út eins og... já, mér dettur eiginlega ekkert í hug, svo óhugnanleg var ég orðin... svo það varð að gera eitthvað í málinu.  Það var náttúrulega allt annað að sjá dömuna eftir litunina Joyful og við náðum léttilega að klára þessa fínu rauðvín á meðan.  Halldór kom um miðnætti og við sátum að ljúfu spjalli frameftir.  Daginn eftir átti svo Halldór að mæta um eitt leytið í vinnuna og það var á svipuðum tíma sem Eysteinn hringdi í mig, kominn úr ferðinni.

Ég rölti mér vopnuð vagninum upp í klúbb til að taka á móti honum og á móti mér rölti alsæll drengur ,,Besta ferð sem ég hef farið!- Við VERÐUM einhvern tímann að fara þangað!"  Þau voru mikið í sundlaugargarðinum þar sem var riiiisa rennibraut, eiginlega rússíbani að mér skilst Tounge og míní-golf sem hann fór í og ég veit ekki hvað og hvað.  Á kvöldin var bara verið að horfa á vídeó og borða nammi og snakk og svona og hygge sig.  Ég held ég væri alveg til í að prufa að fara þangað.  Tala nú ekki um ef hægt er að leigja svona kofa fyrir famelíuna.  Samkvæmt upplýsingum frá Eysteini er víst heilt þorp þarna af þessum kofum.   Þrælsniðugt ef svo er Smile.

Jæja, það er ekki laust við að maður sé farinn að hugsa aðeins til jólanna núna.  Við Lóa ætlum að kíkja aðeins á jólin í Ikea á fimmtudaginn.  Ægilega sem það verður gaman Grin.  Svo er ég að láta mér detta í hug sniðugar og fallegar gjafir handa ykkur elsku fjölskylda og vinir en í ár höfum við ákveðið að hækka svolítið standardinn á þeim.  Ekki að kaupa eitthvað ópersónulegt og kalt úr rándýrum búðum heldur eitthvað persónulegt og hlýtt og notalegt (þó ekki bara ullarsokka)... jafnvel heimagert Grin.  Hver veit? Joyful  Já, ég er bara að detta í jólastuðið Wizard... já og áramótastuðið Wink.

 

 


Stelpukvöld í kvöld

Eftir að hafa losað mig við famelíuna af heimilinu tók ég saman föt af drengnum og dyttaði svona að einu og öðru áður en ég tók strætó til Lóu.  Jjjjjesús minn hvað leið 4A er leiðinleg frá Nørrebro!  Ég hélt við myndum aldrei komast á leiðarenda!  Leið sem átti að taka rétt rúman hálftíma tók tæpan klukkutíma.  Sem þýddi að ég rétt náði að kaupa íþróttaskó á drenginn, drekka einn kaffi latte með henni og taka svo lestina (já ég ákvað að taka lestina í þetta skiptið) tilbaka.  Það mun ögn styttri tíma þó ég þyrfti að skipta einu sinni um lest og svo í strætó.  Man það næst!  Á leiðinni gaf ég Eysteini fyrirmæli um það sem eftir átti að gera þannig að þegar ég kom var bara að hirða upp dótið og leggja af stað niður í klúbbinn.  Gott að hann er ekki spéhræddari en raun ber vitni því einu töskurnar sem við erum með eru svo risastórar að ég pakkaði bara fötunum í skólatöskuna hans (eða öllu heldur hann, í gegnum símaleiðbeiningar frá mér) og sængin og utanyfirföt voru ryksuguð niður í þægilega burðarstærð í glærum poka, sem við notuðum til að pakka niður sængunum okkar í töskurnar í flutningunum hingað.  Honum fannst pínu hallærislegt að horfa á mig röltandi um með allt draslið undir hendinni í þessum glæra poka en dó þó ekki úr skömm, sem betur fer.  

Þegar við komum niður í klúbb áttum við að fara bakvið og þar stóðu allir krakkarnir ásamt foreldrum og leiðbeinendum.  Rútan kom skömmu síðar og ég rétt fékk hann til að leyfa mér að kyssa sig bless (það var hins vegar frekar hallærislegt fannst honum) áður en hann stökk upp í rútu og settist hjá e-m strák og innan skamms sá ég þá vera að taka myndir hvor af öðrum og gantast.  Nú fór rútan af stað til að snúa við, þar sem við vorum innst í botnlanga og þá veifuðu allir foreldrarnir til krakkanna og þeir á móti... nema við.  Eysteinn var eitthvað upptekinn við símann sinn eða eitthvað.  Rútan snéri við og allir foreldrarnir þustu yfir götuna til að skipta um hlið svo þau sæju nú barnið sitt til að veifa þeim.  Aftur veifuðu allir nema við Eysteinn.  Hann var ennþá eitthvað upptekinn við símann sinn.. eða eitthvað.  Svo röltum við foreldrarnir okkur að klúbbnum og uppá götu og þar sem ég var að fara yfir götuna til að taka strætó niður á vöggustofu skildi ég ekkert í því að fólk stóð við kantinn en fór ekki yfir, sumir höfðu hins vegar komið sér yfir.  Jújú, rútan keyrði nefnilega framhjá og ég fattaði loks hvað var á seyði þegar ég sá alla foreldrana veifa börnunum sínum og þau tilbaka... nema Eysteinn.  Síminn greinilega bilaður... eða eitthvað.

Jódís Guðrún tók náttúrulega afskaplega vel á móti mér eins og venjulega þegar ég kom að sækja hana á vöggustofuna.  Fóstrurnar voru hins vegar ekkert afskaplega kátar.  Ég áttaði mig þá allt í einu á því að í dag var nestisdagur og jújú.. ég mundi sko eftir að senda hana með nesti.  Halldór áttaði sig hins vegar ekki á því að það á að fara í ísskáp frammi í fatahengi og setti það þar sem aukafötin eru geymd inn á vöggustofunni sjálfri.  Þær höfðu séð það nokkru eftir matinn.  Ég lofaði að næsta föstudag kæmi ég með köku handa þeim Blush.  Við komum við í búð á leiðinni heim við mæðgurnar og keyptum handa mömmunni gott með sjónvarpinu og jiii hvað mín var þreytt þegar við komum heim.  Hún var farin að nudda sig og geispa upp úr klukkan fimm.  Ég náði þó á ótrúlegan máta að halda henni vakandi og sæmilega hamingjusamri fram til kl. hálfníu.  Við knúsuðumst sko mikið, við mæðgurnar Smile.

Ég var að heyra í Halldóri sem var nánast skrækur af hamingju yfir deginum.  Það var nefnilega gestasýning frá Svíþjóð og hann var að vinna í henni ásamt Claus sem hann kallar Bjólu þeirra Dana.  Það gekk allt á afturfótunum á sýningunni en þeir náðu að redda því að mestu leyti, skildist mér, á sýningunni og svo eftir hana var víst einhverskonar veisla og þá sagðist hann hafa upplifað drauminn.  Að sitja eftir góða sýningu með vinnufélaganum að drekka bjór og naga kjúklingavængi og segja hljóðmannsbrandara... í Køben! Hann er núna niðri við Strikið á Íslendingabar með Einari Jóns.  Ekkert smá gaman!  Ég er sko líka búin að vera að upplifa drauminn í kvöld, sitjandi yfir Wedding crashers á DR1 með Coke Light í annarri og snakk í hinni! Joyful  Iss piss.. það er sko búið að vera fullt notó.  Eina sem er skrýtið er að litli stóri drengurinn minn er ekki hjá mér.  Hann hringdi þó í mig í kvöld og sagði mér að þau væru 7 í kofa, 3 stelpur+leiðbeinandi niðri og 3 strákar á svefnloftinu.  Dísess hvað verður gaman hjá þeim.  Snakki, gosi og nammi var líka í stæðum borið inn í rútuna ásamt álíka mörgum kössum af mat.. neei kannski ekki alveg!  En ég held hann þurfi allavega ekki að hafa áhyggjur af því að þurfa að kaupa sér neitt þarna Wink.

Jæja... off to bed! Sleeping  Ég á víst morgunvaktina Undecided


Partýstuð og fleira

Ég held ég hafi aldrei minnst á nágranna okkar góðu, þar til fyrir stuttu.  Já, aðra helgina okkar hérna heyrðum við þessa fínu tecno-danstónlist óma um hverfið.  Klukkan var að ganga sjö og ég var að byrja að elda kvöldmatinn og fannst bara fínt að fá smá tónlist til að dansa við svona yfir eldamennskunni.  Við sáum fljótlega að tónlistin góða kom frá fjölbýlinu við hliðina á okkar, fyrir ofan íbúð hins títtnefnda Søren, góðvinar okkar og nágranna.  Ég veit nú svo sem ekki hvort það er rétt en mér fannst sama lagið óma allt kvöldið (er þetta kannski öldrunarmerki, að átta sig ekki á því hvort þetta sé sama lagið eða bara eitthvað með sömu hljómsveit? Undecided).  Var svo sem ekkert að spá í því þannig þegar við fórum að sofa.  Svo fór ég á fætur um sjöleytið daginn með kröfuharðri dóttur okkar og þá var sama lagið (að ég held) ennþá ómandi um hverfið.  Við fengum að hlýða á þá yndistóna fram undir klukkan níu en þá sáum við líka að ljósin voru slökkt og á tónlistinni sömuleiðis.  Hörkupartý bara!  Svo kom helgin eftir og sama lagið byrjaði að óma um fimmleytið.  Og það hljómaði fram eftir kvöldi og þar til við fórum í háttinn.  Var þó ekki þegar ég fór á fætur daginn eftir.  Við áttuðum okkur fljótlega eftir að þetta var svona partý-staður.

Svo var það þegar við Halldór stóðum úti eitt góðviðris helgarkvöldið að við sáum strák koma út á svalirnar á íbúðinni og salernið hefur greinilega verið upptekið og greyið alveg að pissa á sig því hann sá greinilega ekki annan veg færan enn að létta af sér þarna fram af svölunum.  Stelpan sem kom út og spjallaði við hann á meðan var þó greinilega ekki í sama sprengnum, allavega lét hún vera að pissa þarna líka en greinilega vön lítilli blöðru vinarins þar sem hún virtist lítið kippa sér upp við þetta.

Gurrý og Leifur hittu greinilega á stórhátíðardag þeirra ábúenda því aðra nóttina þeirra náðu þau rétt að dotta milli þess sem stórhátíðarlætin dundu yfir.  Þess má geta að gestaherbergið (herbergið hans Eysteins) snýr að fjölbýlinu og þessari íbúð en okkar svefnherbergi snýr í hina áttina svo við heyrum ekki bofs þangað.  Daginn eftir tókum við svo eftir að stór stigi lá á hliðinni í garðinum (sést svolítið vel milli húsa og garða Joyful) og við sáum fólk vera að ræðast við úti meðan stelpan sem átti heima í íbúðinni sást láta lítið fyrir sér fara á svölunum, greinilega að reyna að heyra hvað fólki færi á milli.  Uppúr hádegi var ég svo að fá mér í gogginn fram í eldhúsi þegar ég sé konu koma og tala eitthvað við Søren, fara svo upp og koma út skömmu síðar með tvo stóra Ikea poka og tvær niðurlútar stelpur á eftir sér.  Søren sá mig vera að gægjast þarna út um opinn gluggann og kallaði til mín ,,Og så er hun blivet smidt ud!" (og þá er búið að henda henni út!) og rétti upp þumalinn.  Hann hafði þá ekki fengið mikið svefn þessa nótt frekar en aðrir.  Þá var víst búið að leggja kjallarann í rúst hjá þeim, henda niður þvotti o.fl.  Loksins, sagði hann, verður hverfið aftur eins og það á að sér, rólegt og gott!  Og það stemmir.  Nú er maður bara eins og uppí sveit.  Rólegt og gott Joyful.  Reyndar heyrðist mér allir þusa fram á stigagang þegar við létum Prodigy í tækið og komum okkur í stuð fyrir þrifin í vikunni, kannski þau hafi haldið að partýliðið væri komið aftur! Grin

Annars var lítið hægt að segja nýförnum gestum fréttir (sko meðan þau voru hérna).  Allavega þurftu allar setningar að byrja á ,,Eins og ég skrifaði í blogginu..." því um leið og við reyndum að upplýsa þau um eitthvað þá var viðkvæðið: ,,Já, við lásum það einmitt á blogginu".  Þannig að það er þá á hreinu, það gerist ekkert hjá okkur nema það sé birt á blogginu LoL.  

Litli drengurinn okkar að fara á morgun með klúbbnum í ferðalagið sem ég hef áður minnst á.  Þetta verður nú pínu skrýtið að senda hann bara í burtu svona í útlöndunum, alveg yfir heila helgi.

Heyrðu jú!! Eitt gleymdi ég alveg að minnast á!  Feðgarnir fóru í gær og keyptu sér bassamagnara saman.  Ekkert smá hamingjusamir feðgar á ferð!  Og nú er búið að óma bassastefið af ,,Kenndu mér að kyssa rétt" og ,,Austurstræti" í tvo daga.  Aumingja nágrannarnir.  Annars er nú einhver sem æfir sig reglulega á trompet í næsta húsi, svo ég held að fólki sé engin vorkunn.  

Svona í lokin þá má ég til með að nefna að ég er í mjög svo skemmtilegu námi, eins og ég þreytist ekki á að nefna.  Einn áfanginn sem ég er í heitir Klámvæðing kynþokkans.  Ég er nú að vinna að mjög viðamikilli ritgerð í þeim áfanga og er búin að vera að lesa mjög svo athyglisverða bók fyrir hana.  Hana skrifar karlmaður sem er mikill femínisti af lífi og sál og fjallar hann um andúð sína á klámi og tilgangsleysi þess.  Í bókinni eru lýsingar á hinum og þessum atriðum í klámmyndum og oft netslóðir gefnar upp sem vísa í þessar myndir.  Ég var síðan í morgun að bera saman (í rannsóknarskyni, að sjálfsögðu!) gamlar myndir og nýjar þegar ég áttaði mig skyndilega á því að eldhúsglugginn var gaaaalopinn og það er mjööög hljóðbært hérna.  Ég veit ekki hvað nágrannar okkar halda orðið um okkur, klámmyndastunur á morgnana og bassastef á kvöldin!

Jæja, ég vona þó allavega að þau láti sig hafa það að hafa okkur sem nágranna og láti ekki bera okkur út eins og fyrrum nágranna okkar Pinch


Haust í Køben

Nú er bara læra læra læra.  Lítið búin að gera annað.  Halldór er reyndar lítið búinn að vinna, kom heim um 2 leitið í gær eftir að hafa hangið aleinn í vinnunni.  Allir samstarfsfélagar hans í fríi.  Í dag var svipað uppá teningnum, hann hékk einn í gamla leikhúsinu svo hann rölti sér í skuespilhuset og hitti einn þar sem hann hékk yfir eftir hádegi.  

Eysteinn kláraði Lína og Lási (Søren og Mette) í kvöld.  Hann er orðinn rosalega klár í þessu, er farinn að átta sig meira og meira á því hvernig orðin eru borin fram.  Þegar ég sótti stelpuna í dag þá gekk mín bara einhver 7-8 skref til mín og var ekkert að missa jafnvægið.  Svo er hún búin að vera á fullu að labba milli húsgagna hérna í dag, rígmontin með sig! Joyful

Ýsa í kvöldmatinn, frábær að vanda Smile.

Einar Jóns er líka fluttur til Köben og kíkti á okkur í kvöld ásamt Pétri, ægilega notó.  Svona er þetta, allir bara komnir til okkar Grin.  Verið öll velkomin, ægilega huggulegt hérna. 

Jæja, gott í bili.  Búin að mjólka held ég allar fréttir, ef fréttir skyldi kalla FootinMouth


Ein aftur!

Jæja, þá eru Gurrý og Leifur farin.  Þetta var allt of stutt heimsókn og erfitt að kveðja þau svona fljótt en mikið ofsalega var gaman að hafa þau.  

Það var yndislegt veðrið í gær þó það væri svolítið kalt og öll hersingin, nema ég Frown, notaði daginn og fór niður í bæ.  Ég varð að vera heima og læra.  Þegar þau komu heim aftur var tekinn einn kaffi og svo farið í göngutúr í kringum vatnið og ég gat ekki annað en skellt mér með enda búin að sitja við í marga klukkutíma og ég var orðin hrædd um að rassinn á mér myndi fletjast varanlega út ef ég hreyfði mig ekki smá.  Nógu er hann nú breiður samt!  

Við vorum búin að tala um að fara kannski eitthvað út að borða en hreinlega nenntum ekki að fara að taka strætó niður í bæ, stelpan orðin pirruð eftir hálftíma og maturinn kaldur svo við ákváðum bara að vera heima og elda okkur frekar eitthvað gott.  Fyrir valinu varð lasagne sem var svo gúffað í sig með bestu lyst enda ægilega gott hjá okkur Gurrý Joyful.  Svo var bara verið að hygge-sig yfir spjalli um kvöldið. Miklu betra en eitthvað út að borða í órólegheitum.  

Halldór átti morgunvaktina og fór á fætur um 7 leytið þar sem sú stutta gaf sig sko ekkert með það að reka hann á fætur og ég reyndi að kúra mér eitthvað áfram.  Ég var búin að liggja heillengi þegar ég svo gafst upp og dreif mig á fætur.  Þá var klukkan 7.  Ennþá!  Skýringin, jú tímanum var breytt í nótt.  Stelpan hafði semsagt vaknað klukkan 6 að nýjum tíma.  Það var svo hundleiðinlegt veður í dag, rigning og grátt en þó hlýtt.  Gestirnir tóku börnin í göngutúr, uppúr kl. 9:30 (að nýjum tíma) þar sem stelpan var orðin úrvinda af þreytu, meðan ég reyndi svona aðeins að rútta til eftir fellibylinn Jódísi og Halldór lagði sig aðeins á meðan.  Dagurinn var bara tekinn með mestu makindum og enn var rætt hvort við ættum kannski að fara eitthvað út að fá okkur í gogginn en mér fannst miklu betri hugmynd að láta bara tengdó baka fyrir okkur pönnukökur Grin sem hún og gerði, að sjálfsögðu Tounge.  Stelpan var orðin svo þreytt uppúr klukkan 4 (að nýjum tíma) að það var orðið frekar erfitt að gera henni til geðs og halda geðheilsu á sama tíma.  Hún var þó hin kátasta inn á milli, labbandi á milli okkar allra rígmontin með sig. Nú fer þetta bara alveg að fara að koma enda stendur hún orðið upp sjálf, stóð t.a.m. upp og lyfti strigaskónum hans Leifs upp fyrir haus ægilega ánægð með sig, og svo er hún orðin öruggari og öruggari með sig að stíga nokkur skref.  Hún sofnaði í fanginu á Halldóri um 5 leytið (að nýjum tíma) og svaf í góðan hálftíma þar til ég vakti hana og setti í bað.  Við þurftum svo að kveðja gestina um hálf-sjö (að nýjum tíma) þar sem þau þurftu að koma sér út á Kastrup fyrir flug kl. 21 (að gömlum tíma.. haha, plataði ykkur!) eða klukkan 22 að nýjum tíma Grin.

Nú er ósköp hljótt og tómlegt hérna aftur og nú er bara að bíða eftir næsta holli, þegar Gulla, Beta og Óli koma í lok nóvember.  Það er nú stutt í það sem betur fer Joyful.  

Elsku Gurrý og Leifur, við þökkum ykkur alveg innilega fyrir komuna.  Það var yndislegt að hafa ykkur!!!

Knús frá Køben. 

 


Jæja...

...náttúrulega LÖNGU kominn tími á blogg. Búið að vera svolítið mikið að gera í náminu undanfarna daga, mikið af skilaverkefnum svo lítill tími hefur gefist til annars en lesturs undanfarið.  Auk þess er ég rétt að ná að jafna mig á fýlunni sem ég rauk í útí bloggið þegar allt hvarf síðast (og nú vista ég... safe).  En við sem sagt skruppum í dýragarðinn á sunnudaginn hele familien, í kuldanum, og það var bara rosalega gaman.  Sáum nokkur dýr, bjarndýr í dvala.. eða svo gott sem, en þau voru þó bara nokkuð lífleg miðað við ljónin sem lágu í hrúgu út í horni.  Ætluðum aldrei að finna þau.  Sama hvað við reyndum, Eysteinn vildi ALLS EKKI fara í röðina til að láta teyma íslenskan hest undir sér.  Meiru stælarnir í honum alltaf hreint GetLost.  Ég nenni nú svo sem ekki að fara að þylja upp öll dýrin sem við sáum enda tæki það náttúrulega allt kvöldið, en skemmtilegast var að sjá bavíanana.  Það voru þrjár litlar Jógur þarna.  Eða það fannst okkur allavega.  Þrír apa-ungar sem minntu okkur svoo á Jódísi Guðrúnu, klifrandi uppá mömmum sínum til að teygja sig í grein að naga eða sveifla sér.  Jiii hvað krílið okkar er mikill api LoL.  Svo þegar við komum út úr garðinum og stóðum að bíða eftir strætó sagði maður sem beið líka við mig:  "Sjáðu, aumingja leigubílstjórinn þarna er búinn að bíða og og vona eftir að einhver vilji taka leigara en gerir sér ekki grein fyrir að það eru allir hérna að koma úr dýragarðinum og eiga ekki pening til að taka leigubíl."  Hann hitti naglann svo nákvæmlega á höfuðið því við vorum nýbúin að losna við verkinn í maganum og brunasárið af fingrunum eftir að hafa borgað okkur inn.  Jesús minn hvað garðurinn ber nafnið með réttu, við fórum nefnilega í DÝRA-garðinn.  Það er dýrt í dýragarðinum.  Mjög!!

Lítið erum við búin að gera í vikunni annað en að læra (ég), vinna (Halldór), garga (Jódís Guðrún) og.. já, læra (Eysteinn).  Nema á fimmtudagskvöldið.  Halldór kom heim snemma og við náttúrulega gerðum allt fínt og tilbúið fyrir komu ömmunnar og afans frá Baugstjörn.  Ég þurfti að mæta á foreldrafund í vöggustofunni klukkan 19 og þau áttu svo að lenda rúmlega níu.  Þegar ég var búin að sitja svolítið lengi að mér fannst laumaðist ég til að líta á klukkuna og spratt á fætur.  Klukkan var fimm mínútur í níu og ég ennþá hér!  Ég þakkaði fyrir mig og hljóp (aftur: skakklappaðist) út, hringdi í Halldór, sem hafði þá hringt tvisvar í mig, og svo beið ég og beið eftir strætó.  Auðvitað!  Loksins kom hann þó og ég komst heim, pantaði leigara fyrir strákana sem tóku hann á Nørreport og þaðan fóru þeir svo með Metro á flugvöllinn og rétt náðu að mæta hjónunum þegar þau komu út í gegn um tollinn.  Það voru sko miklir fagnaðarfundir þegar þau komu svo heim og fylltu hjá okkur frystinn af alls kyns íslensku góðgæti Grin eins og fiski, lambakjöti, flatkökum og slátri sem pakkað hafði verið í ársbirgðum af bleium til einangrunar.  Jú og auðvitað var náttúrulega voða gaman að sjá þau líka Tounge.  Það var náttúrulega setið að rabbi fram á kvöld, jiii hvað var yndislegt að fá þau!  Í dag röltum við svo um miðbæinn og að sjálfsögðu var komið við í H&M og keypt svona soldið, jájá Joyful.  Svo var mexíkóska súpan elduð í kvöldmatinn og nú er ég bara að blogga á meðan þau eru að rabba hérna yfir bjór.  Alveg yyyndislegt Joyful.

Meira síðar. 


Örfréttir á örtímum

Ég var búin að sitja við í einhverja tvo tíma í gærkvöldi að skrifa um helgaramstrið og henda inn myndum þegar síðan skyndilega hvarf.  Og ég hafði ekki vistað.  Og nei pabbi, ég lærði ekki af mistökum þínum þegar mamma slökkti á tenglinum fyrir tölvuna þegar þú varst hér í Danmörku að skrifa dagbókina.  Hvað var það, þriggja klukkutíma vinna sem hvarf? 

Ég var frekar svekkt, ég verð nú bara að segja það.  En ég ætla að skrifa um það (sko hvað við gerðum um helgina, ekki hvað ég var svekkt.. þó það fái nú ugglaust að fljóta með) seinna í dag.  Má ekki vera að því núna.  Það þarf nú svo sem engan kjarnorku-eðlisfræðing til að átta sig á því hvað við gerðum þar sem það er heil myndasería af okkur hérna til hliðar.  Af hverju segir maður það alltaf?  Af hverju ekki bara félagsfræðing eða tannlækni?  Nú eða ræstitækni?  Ættu kjarnorku-eðlisfræðingar eitthvað að fatta svona betur?  Prófa þetta:  Það þarf nú svo sem engan ræstitækni til að átta sig á því hvað við gerðum. Sem sagt, myndirnar komu inn, en ekki bloggið Errm.

Þó get ég ekki látið vera að minnast á það þegar við heyrðum eitthvað þrusk upp úr klukkan 11 í gærkvöldi og fram steig Hr. Úfinnkollur.  Hann horfði undarlega á okkur og við sáum strax að hann var steinsofandi.  Eins og flest ykkar vita þá er hann afskaplega duglegur drengurinn að ganga í svefni og við spjöllum víst æði oft mæðginin saman í svefni þó lítið samhengi sé í því, að mati fjölskylduföðursins.  Allavega þá fór Halldór til hans og spurði hvort það væri ekki allt í lagi.  Og drengurinn svaraði að bragði: ,,I need to go to the klósett."  Halldór fylgdi honum þangað og þegar hann hafði lokið sér af benti hann inní stofu og sagði ,,Það á að tala við þessa þarna."  og rölti sér svo aftur inn í rúm.  Við höfum alltaf jafn gaman af þessu Tounge.

Jæja, nóg í bili, skrifa meira seinna.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband