Jamm og já!

Ohh, Jódís þurfti einhverra hluta vegna endilega að vakna upp nú í nótt alveg að pissa á sig, svo ég vaknaði auðvitað við það og þurfti að drífa mig á klósettið með hana.  Ég náði að halda okkur báðum sæmilega sofandi þannig að ég var alveg að sofna aftur þegar hún kallar lágt: ,,maaamaa, dekkaaa" aftur og aftur, svo ég varð að fara á fætur og gefa henni að drekka.  Hún lagðist þá niður og sofnaði um leið en ég.. já ég lá og bylti mér og bylti og fór loks fram úr sem þýddi að nú, einum og hálfum tíma síðar klukkan rúmlega fjögur að morgni, er ég enn vakandi og er ekkert að sofna í bráð.  Garg bara!

En nú eru loksins komnar endanlegar niðurstöður úr rannsóknum Halldórs. Hann er sem sagt með eitlakrabbamein sem vex mjög hægt og er líklegt að hann hafi haft það í ár eða svo. Læknisfræðilegt heiti þess er Marginal zone Lymphoma, náskylt MALT undirtýpunni.  Meinið hefur að öllum líkindum ekki byrjað í auganu heldur í eitli í líkamanum og borist í augað. Allavega, hann hefur lyfjameðferð í vikunni og verður einu sinni á 3ja vikna fresti í lyfjameðferð í einhverja 6-8 mánuði. Læknirinn er mjög bjartsýnn um batahorfur en sá gallinn er þó við þetta mein að það virðist vera krónískt. Það þýðir að það þarf alltaf að fylgjast mjög vel með Halldóri þar sem það getur sprottið upp aftur og aftur. En þar sem það er svo hægvaxandi þá á að vera auðvelt að halda því niðri.

Styrkleika lyfjanna er skipt í þrjá flokka og byrjar hann meðferðina á vægasta lyfjaskammti. Virki það illa verður hann færður í næsta styrkleika og ef sá sterkasti virkar ekki þá fer hann í beinmergskipti. En læknirinn sagði að það gætu liðið mörg ár í það og við þyrftum ekki að hugsa um það núna. Roðinn úr auganu ætti að ,,bráðna úr" við lyfjameðferðina en ef það gerist ekki fer hann í geisla við því.

Ég er sjálf ekki alveg búin að lesa mér allt til um þetta en miðað við að þetta þurfti að vera meira en bara augað þá lítur þetta bara ágætlega út. Við litla fjölskyldan höfðum áætlað að fljúga til Íslands að sameinast fjölskylduföðurnum á fimmtudaginn næstkomandi en vegna þessa alls flýttum við ferðinni og lendum seint annað kvöld í Keflavík.

Það var auðvitað svolítið áfall að fá að vita að þetta var annað en bara í auganu sem auðvelt væri að ná með geislum svo nú er maður bara að ná áttum og safna styrk til að berjast berjast berjast! En eins og fyrr segir eru batahorfur góðar og það verður gott vera hjá kallinum, það hefur verið býsna erfitt að vera svona aðskilin í þessu, eins og gefur að skilja :)

Gott að sinni

Bless í bili! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alger bömmer!  Góða ferð heim og knúsaðu kallinn frá mér með öllum bestu hvatningarorðum tungumálsins samankomnum.  Og passaðu upp á þig sjálfa í þessu öllu líka.

Erla Björk

Erla Björk (IP-tala skráð) 24.1.2010 kl. 11:45

2 identicon

Þetta er svakalegar fréttir. 

Ég hugsa til ykkar.

 Knús til ykkar og góða ferð heim. 

Eyrún (IP-tala skráð) 24.1.2010 kl. 13:58

3 identicon

Æ elsku Arnrún mín,

mikið agalega er leiðinlegt að lesa þetta :( Ég get rétt ímyndað mér að þetta hafi verið áfall. En það er gott að læknirinn er bjartsýnn og að þið séuð á leiðinni. Hafið það sem allra allra best, þið vitið að við hugsum öll til ykkar. Heyri í þér í vikunni.

knús

jd

Jónína Dögg (IP-tala skráð) 24.1.2010 kl. 23:44

4 Smámynd: GK

Þið klárið þetta verkefni eins og önnur sem fyrir ykkur eru lögð.

Bestu kveðjur.

GK, 27.1.2010 kl. 09:53

5 Smámynd: Arnrún

Takk fyrir falleg orð kæru vinir og fjölskylda.

Knús á ykkur öll!

Arnrún, 27.1.2010 kl. 11:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband