Lasarusar á heimilinu

Jæja í gær var fyrsti dagurinn í aðlöguninni sem stelpan átti að vera ein. Það var búið að taka til tvo vagna þegar við komum á svæðið og það átti að fara í göngutúr með nokkra krakka, þessa nýjustu og nokkra í viðbót svona til að krílin finndu minna fyrir því að vera ekki hjá mömmu eða pabba. Fóstran spurði mig hvort ekki væri best að hún tæki bara stelpuna og setti hana í vagninn, jújú sagði ég og rétti henni Jódísi Guðrúnu sem leit á mig með skelfingarsvip og fór að háskæla. Þær fóru saman inn að sækja snuð handa henni í töskuna hennar og Jóga orgaði allan tímann. Ég rétt náði að fela mig bak við runna þarna áður en tárin fóru að trítla. Svo beið ég þar í smástund og sá að það var auðvitað allt í lagi bara um leið og hún fékk snuðið sitt.

Ég rölti mér svo eitthvað þarna um svæðið til að finna eitthvað að gera því ég átti ekki að sækja hana aftur fyrr en eftir klukkutíma þá sé ég hópinn í svolítilli fjarlægð að ganga í stórum garði rétt við.  Tveir vagnar með Jódísi minni í öðrum og stelpu sem sat á móti henni og í hinum voru líka tvö börn og svo þrjú kríli að labba með.  Þetta var hrikalega krúttleg sjón Joyful

Ég sótti hana svo eftir klukkutímann og við fórum okkur heim og Halldór kom svo úr vinnunni um 5 leytið með stílabækur og skriffæri sem hann hafði keypt handa Eysteini fyrir fyrsta skóladaginn.  Ég eldaði handa okkur þetta fína hakk og spaghetti og þá sá ég Søren nágranna okkar og hjólaviðgerðarmann eitthvað að dedúa við hjól þarna úti með barnastóli á svo ég sendi Halldór út til hans að tala við hann um hjól.  Þarna sá ég hann prufa nokkur hjól og festi sér svo eitt helv... gott svona með hrútastýri, sem verður reyndar skipt út fyrir venjulegt stýri, þetta var víst full mikið Tour de France að Halldórs mati.  B.t.w. hjólið sem hann hafði verið að vinna í var mitt hjól Grin sem ég fæ vonandi bara um eða eftir helgi.

Stelpan var orðin ansi erfið fyrir og um matarleytið svo eftir að við vorum búin að ná að gefa henni smá spaghetti þá settum við hana í bað, hún var svo gjörsamlega búin á því að hún var eiginlega stjörf.  Við lögðum hana svo og Eysteinn kom allt í einu bara milli 9 og 9:30 og kyssti okkur góða nótt.  Hafði fengið svo ægilega skemmtilegar bækur frá Kirkjuveginum fyrr um daginn að hann gat ekki beðið eftir að leggjast upp í rúm og halda áfram að lesa.  Upp úr 10 er hann sofnaður og Jódís kallar og þá situr hún í rúminu sínu útældu.  Allt rifið upp og skipt á og sett nýtt, hún lögð, 10 mín. síðar er allt orðið útælt aftur.  Þegar ég svo skolaði úr lökunum í baðinu þá skildi ég ekkert í því að ég stóð alltaf í polli, þá frussaðist upp úr niðurfallinu á gólfinu.  Greinilega eitthvað stíflað.  

Ég lagði mig nú ekkert löngu síðar enda mjög slöpp og græn í framan eftir að hafa verið að skola úr rúmfötunum og svo vakna ég upp við það um 2 leytið að Eysteinn Aron er að kasta upp.  Greyið mitt sat fyrir framan klósettið en hafði ekki náð alla leið svo það var slatti á ganginum og á gólfinu í herberginu og svolítið á rúminu.  Úff hvað ég þurfti að taka á honum stóra mínum, enda var ég næstum búin að kasta upp þegar ég skolaði rúmfötin hans með vatnið upp að ökklum.

Þannig að ég þurfti að hringja í skólann þennan fyrsta skóladag og tilkynna hann veikann.  Ömurlegt!  Svo vaknaði stýrið litla og ég tók hana og þegar ég var að skipta á henni og klæða hana þá bara sofnaði mín, aaalveg búin á því.  Svo ég fór bara með hana inn í rúm og hún bara sefur þar.  Drekkur vatn öðru hvoru og heldur um vatnsbrúsann sinn eins og bangsa en er svo slöpp að hún heldur ekki augunum opnum.  Angakellingin.

Á morgun ætlar svo Kalli að koma, það verður voða næs.  Hann er kominn til Køben í einhverja vinnuferð og ætlar svo að koma til okkar eftir að það er búið og vera hjá okkur yfir helgina.  Ég hlakka voða mikið til Grin

Jæja, ætla að fara að hella mér uppá kaffi og reyna að koma einhverju oní mig.

Over and out.. í bili Wink 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Úff, úff, úff..... batnaðar kveðjur úr Ástjörninni

Valgerður (IP-tala skráð) 11.9.2008 kl. 20:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband