Felles-arbejde

Í gær var spáð sól og uppundir 20 stiga hita svo við vorum þá ákveðin í að koma Eysteini á óvart og bjóða honum í Tívolí, enda var síðasti dagurinn fyrir lokun í dag.  Þegar við svo vöknuðum var grenjandi slagviðri svo við vorum afskaplega fegin því að við höfðum ekkert sagt honum frá þessu.  Í staðin ákvað Halldór að fara með honum í góðan hjólatúr í hljóðfærabúð sem hann hafði tekið eftir í einni strætóferðinni um daginn.  Á leiðinni tóku þeir eftir búð sem greinilega seldi svona leikfangalestir og alls kyns fylgihluti fyrir svona uppstillingar því tengdu svo þeir ákváðu að kíkja þarna inn.  Inni voru svona rétt um 10 manns og kippti Eysteinn meðalaldrinum rækilega niður í 50 árin.  Halldór vissi ekki alveg hvernig hann átti að vera því þarna voru rígfullorðnir menn með þvílíka ástríðu fyrir lestum gaumgæfilega að velja sér rétta tréð eða húsið til að setja í uppstillinguna heima hjá sér.  Eysteini fannst voða gaman.

Við tókum svo einn ágætan hjólatúr þegar þeir komu heim og ég finn að hnéð er aðeins farið að mýkjast eftir að hafa tekið nokkra stutta hjólatúra.  Fyrsti túrinn var helv... erfiður.  Jódís Guðrún er líka farin að verða kátari aftan á en hún var ekkert sérstaklega sátt fyrst.   Þegar við keyptum okkur svo í grjónagraut fyrir kvöldmatinn sagði Eysteinn "ohh hvað ég væri til í að fá smá lifrarpylsu með."  Og pabbinn svaraði um hæl "Nei nei, við fáum okkur bara flatkökur og hangikjöt!"  -Við fengum okkur roastbeef á rúgbrauð, kannski ekki alveg það sama en voða gott Joyful .

Dagurinn í dag var frátekinn fyrir felles-arbejde þar sem ákveðið var á húsfundinum um daginn að í dag ætti að taka garðinn í gegn, fúaverja bekki og borð og ýmislegt fleira sem setið hefur á hakanum undanfarna árið.  Við vorum heppin með það að veðrið virtist ætla að verða gott og það hélst.  Það var hist stundvíslega klukkan hálftíu hjá Steffen, nágranna okkar á neðri hæðinni, og dagurinn skipulagður gróflega.  Svo var hafist handa og með góðri frokost-pásu þarna um miðbikið náðist bara að klára þetta fyrir klukkan 3.  Svo dugleg vorum við Happy.  Hanne nágrannakonu fannst þetta kannski ekki alveg búið en eftir smá tuð ( Wink ...neeei, hún er voða indæl) samþykkti hún að þetta væri bara komið gott.  Við vorum í svo ægilega miklu stuði þegar við komum inn að heimilið var bara næst á dagskrá, allt tekið í gegn og gert, jah allavega mönnum bjóðandi Tounge.  Yngsti meðlimur fjölskyldunnar er svolítið dugleg að halda okkur við efnið svo ekki sé meira sagt.  

Nú þegar farið er að kólna aðeins í veðri er mig búið að langa að gera gúllassúpu eða mexíkósku tómat- og kjúklingasúpuna svo ég sendi þá feðga útí búð að kaupa í hana og þar sem Toro er ekki eitt helsta vörumerkið í verslununum hérna þá bara bjó ég hana til frá grunni, enda miklu betra og alveg jafn fljótlegt.  Ég klikkaði reyndar á smáatriðunum síðast þegar ég verslaði kjúklingabringur, því þær fást nefnilega í 2800 gr. pakkningum og það eru nokkrar kjúklingabringur.  Ég fleygði öllum pakkanum í frysti þannig að síðast þegar við höfðum kjúkling þurfti ég að notast við hamar og meitil (eða svona næstum því) til að ná nokkrum bringum úr bingnum.  Núna nennti ég bara ekki að gera það sama svo ég henti bara kjúklingaklumpnum í pott og sauð.  Vegna þessa varð súpan ææægilega matarmikil og góð.  Við verðum út vikuna að borða hana.  En Pétur Steinsen kíkti við og það var þá nóg til handa öllum.  Ég man það næst að skipta bringunum niður áður en ég frysti þær.  Svona er þetta bara, maður þarf að reka sig á til þess að læra Whistling .

Nú er stelpan orðin rótkvefuð og strákurinn var orðinn ansi slappur svo ég veit ekki hvort þau fari nokkuð í fyrramálið, ohh ég vona bara að stelpan verði fyrir kraftaverk orðin góð svo ég geti lært.  Ég er farin að þrá að geta komið mér almennilega inn í námið enda stórt verkefnaskil framundan (eins og Valgerður veit Wink ).

Jæja, gott í bili.

Ciao! 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Úff, úff, úff..... ekki tala um þetta verkefni, ég var að vona að það mundi bara leysa sig sjálft og er búin að vera að ýta því á undan mér allt of lengi. Nú er ég farin að pakka niður og þetta Helv#$"! verkefni hangir enþá yfir mér Ég verð að fara að spýta í lófana og klára þetta í einum grænum þar sem við verðum víst að flytja og mála og þrífa og já klára það sem þarf að klára í þessu blessaða húsi okkar, allt saman fyrir mánudaginn næsta

Valgerður (IP-tala skráð) 22.9.2008 kl. 16:33

2 Smámynd: Arnrún

Æi greyið, það verður nóg að gera hjá þér þá. Gangi ykkur bara ofboðslega vel með þetta allt. Bara að koma að þessu!!!

Arnrún, 22.9.2008 kl. 18:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband