Ellasenne?!

Þegar Eysteinn kom heim úr skólanum í gær beið hans pakki frá ömmu Gurrý og afa Leifi.  Inní stórum pakkanum var ferlega flottur vindjakki og húfa auk annars fatnaðar á Eystein og rosalega sæt peysa og húfa á Jógulinginn.  Við drógum ýmislegt annað dót úr pakkanum og síðast en ekki síst bangsa sem Jódís Guðrún knúsaði strax rembingsfast að sér og var hann nefndur Gutti á staðnum.  Hann er í miklu uppáhaldi hjá henni núna og knúsar hún hann hvenær sem tækifæri gefst.  Joyful  Það er svoo gaman að fá pakka að heiman Grin  Vorum einmitt að hlæja að því að það er rétt mánuður síðan við komum en samt er strax komin þessi æðislega tilfinning sem kemur þegar maður opnar pakka frá Íslandi!

Klukkan fimm mættum við foreldrar og litla systir í Holberg skolen, Eysteinn hafði farið þangað klukkutímanum fyrr, því nú átti að sýna okkur fjölskyldunum afrakstur dansviku bekkjarins.  Þetta var rosalega skemmtilegt.  Hópurinn dansaði fyrst svona hópdans og svo voru tveir og tveir saman sem áttu sviðið nokkur dansspor sem þau sjálf höfðu samið.  Eysteinn og Atsjú (eða eitthvað svoleiðis Whistling), indverskur drengur í bekknum, voru síðastir og svo stukku allir á fætur og tóku hópatriði í lokin.  Þetta var ferlega flott og danskennarinn kom til okkar á eftir og talaði sérstaklega um hvað Eysteinn hefði verið frábær nemandi, svo ótrúlega fljótur að ná sporunum og skilja þótt hann talaði ekki dönsku.  Henni fannst hann (að sjálfsögðu) alveg frábær!  Svo talaði ég við bekkjarkennarann hans og bað um að hún reyndi sem mest að tala bara við hann á dönsku (hingað til hefur bara verið töluð enska við hann) og endilega, ef hægt væri, að fá 1. bekkjar námsefni sem við gætum farið yfir saman heima.  Hún tók mjög vel í þetta allt saman.

Á leiðinni út heilsuðu nokkrir foreldrar upp á okkur og m.a. kona sem kom og byrjaði að tala ensku.  Ég svaraði henni náttúrulega á dönsku og hún spurði okkur svona hvað við værum að gera í Danmörku og ég útskýrði þetta allt fyrir henni, með Halldór og vinnuskiptin og það allt.  Svo kom upp úr krafsinu að hún var ensk, gift Dana og búin að vera búsett hér í mörg ár.  Ég sagði svo við Halldór, "Ó, ef ég hefði nú vitað það þá hefði ég náttúrulega bara talað við hana á ensku!"  -"Já, svaraði Halldór, -það hefði náttúrulega verið þægilegast fyrir alla."  Ég fattaði nefnilega ekki fyrr en hann benti mér á það að ég á það til að tala fyrir hann.  Í ritfangaverslun um daginn kom kona og spurði hvort hún gæti aðstoðað.  Ég sagði að ég þyrfti ekki aðstoð og þá snéri hún sér að Halldóri.  Hann svaraði ekki alveg strax svo ég greip orðið og svaraði, "Nei nei, hann er með mér!"  Bæði þá, fyrr og síðar hefur hann átt það til að líða eins og ég væri með hann í liðveislu. LoLGrinLoL

Hópverkefna-Dóri kom svo eftir kvöldmat og við unnum að verkefninu fram á nótt.  Ég vaknaði svo hundlasin og uppfull af kvefi í morgun.  Vona að þetta gangi fljótt yfir.

 

Halldór spurði mig ekki löngu eftir að við komum hvað "Ellasenne" þýddi.  "Ellasenne???!" -Já það sem þeir segja alltaf í búðunum.  -Jaaá, Ellers anded.  Það þýðir: eitthvað fleira, útskýrði ég fyrir honum.  -Já ok, ég hélt alltaf að það þýddi -Er allt komið!-  Ég svaraði alltaf já!  Þess vegna urðu allir svo skrýtnir þegar ég sagði það. LoL

Af öðru er það að frétta að ungfrú Mestakrútt er farin að standa heillengi sjálf og hefur tekið eitt og eitt skref.  Farin að segja mamma, babba, Dah (takk, taka, gjörðu svo vel, datt), jæja, Estss eða Ede (Eysteinn), hajo (halló, þegar hún tekur símann og setur við eyrað), hæ.  Ég held að þar með sé það upptalið í bili.  Hún segir kannski ekki mörg orð en er afskaplega meðvituð um eigin vilja og hvernig hún eigi að koma skilaboðunum á framfæri.  -Fallega orðað? Grin

Kvefað kndús á alla! 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Híhí... en findið með "ellers anded", ég átti einmitt svo rosalega erfitt með þetta "lige i mode" (eða hvernig sem það er nú skrifað) þe. þegar maður segir "takk" og afgreiðsludaman segir þetta við mann, mér fannst það alltaf hljóma eins og "lík í tísku";)

En allavega... við erum búin að mála V18, flytja allt draslið okkar og búin að mála og skúra út í Á9. Jón lá reyndar í bælinu í allan dag, hann er með einhvern hitaskratta og búinn að vera ansi veikur bara. En við skilum íbúðinni á morgun og verðum hér í B18 í nokkra daga, eða þangað til "dollan" er komin á sinn stað í V18;)

Guðrún og Leifur biðja kærlega að heilsa.

Kv. Valgerður enn og aftur stödd í B18;)

Valgerður (IP-tala skráð) 28.9.2008 kl. 22:38

2 Smámynd: Arnrún

Hahahaha, lík í tísku! Ég fattaði þetta ekki strax en svo áttaði ég mig.. lig i mode! Vonandi fáið þið nú dolluna sem fyrst svo þið getið farið að hreiðra um ykkur á nýja heimilinu ykkar. Veit að þið verðið nú ekki lengi að því ef ég þekki þig rétt ;) Takk fyrir kveðjur :)

Arnrún, 29.9.2008 kl. 20:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband