Søren og tepruskapurinn

Søren heitir hann, nágranni okkar sem hefur verið að redda okkur hjólunum.  Við tókum eftir því fyrstu dagana að það var alltaf maður úti í næsta garði eitthvað að vesenast í hjólum og yfirleitt með bjór í hönd og pípu í öðru munnvikinu.  Það var oftast einhver að drekka bjór honum til samlætis og þeir að spjalla svona um daginn og veginn.  Þegar við fórum að skoða þetta nánar sáum við að Søren var alltaf með nýtt og nýtt hjól svo við spurðum Steffen, nágranna okkar af neðri hæðinni, út í þennan mann.  Hann sagði okkur þá að þetta væri hjólaviðgerðamaðurinn í hverfinu svo þangað ákváðum við þá að fara og spyrja hvort hann gæti ekki bent okkur á ódýran stað til að versla hjól.  

Hann var hinn almennilegasti og tók strax fram að hann væri svo ánægður að það skyldi eitthvað líf vera komið í íbúðina okkar því það hefði verið svo tómlegt að sjá hana mannlausa dag eftir dag. Í framhaldi af því benti hann okkur á hvar í húsinu hann ætti heima og að það væri mjög gott útsýni frá hans íbúð yfir í okkar.  Þess vegna væri það nú sem hann vildi benda okkur á að glerið á baðherbergisglugganum okkar væri ekki alveg eins "blörrað" eins og við greinilega héldum því þegar við færum í sturtu (sem liggur alveg við gluggann) þá væri þetta svolítið eins og að horfa á Tuborg-auglýsinguna með allsberu stelpuna í klefanum.  Ég geri mér ekki alveg grein fyrir hvaða auglýsingu hann var að nefna en ég náði myndinni. Það sést greinilega ALLT í gegn.  Við hengdum strax viskustykki fyrir gluggann þegar við komum upp, tímdum ekki handklæðum þar sem við áttum svo fá.  

Því má svo bæta við að við höldum að pípan sé orðin áföst.  Við höfum séð hann við ýmsa iðju, eins og t.d. að ryksuga hjá sér, með pípuna í vikinu og svo hlóum við nú pínu í gær þegar hann var úti að gera við hjól með pípuna að sjálfsögðu í vikinu og með sígarettu bak við eyrað.  Kannski hann borði með pípuna í vikinu líka? 

Allavega, það var svo fljótlega eftir þetta spjall okkar við Søren sem við sátum í mestu makindum á sunnudagsmorgni um 11 leytið að fá okkur morgunmat og höfðum kveikt á sjónvarpinu.  Á dagskrá var einhver heimildamynd sem virtist bara vera nokkuð áhugaverð.  Við lögðum því við eyru og augu og sáum að þarna var sem sagt verið að ræða við vændiskonur.  Hvort þær voru starfandi vændiskonur eða hættar þeirri iðju man ég nú ekki alveg en allavega þá voru þær að lýsa því hvernig þær voru neyddar til ýmissa athafna sem þeim var þverrt um geð en urðu að gera starfsins vegna.  Þátturinn fjallaði sem sagt um bágar aðstæður vændiskvenna í Danmörku.  Sem var bara í góðu lagi þannig, því þetta var jú allt á dönsku og Eysteinn skildi ekki bofs.  Þangað til kom að leiknu myndbrotunum sem sett voru svona undir spjallið.  Þá erum við ekkert að tala um létt erótísk myndbrot, nei þetta var bara orðinn hinn argasti klámari þarna svona yfir morgunkaffinu.  Þá slökktum við á sjónvarpinu og ég hugsaði með mér að ég væri greinilega meiri tepra en ég hefði hingað til haldið.  En við sem sagt snérum okkur bara að því að skoða auglýsingabæklingana sem koma í stríðum straumum hérna fyrir og um helgar, fullir af alls kyns tilboðum og ábendingum um góðar útsölur.  Og þá duttum við niður á þetta líka frábæra tilboð: Þrjár erótískar bíómyndir á verði tveggja, auk þess sem víbrador fylgdi með alveg ókeypis bara í þessa þrjá daga! Shocking

Tveimur dögum síðar heyrði ég póst koma inn um lúguna og sá Halldór stökkva til og rífa upp bækling af gólfinu áður en Eysteinn næði að teygja sig eftir honum.  ,,Hjúkk þetta voru bara kalkúnabringur" gall þá í pabbanum og svo sýndi hann mér mynd sem hann hafði þá á einhvern ótrúlegan (en þó, í ljósi undangenginna bæklinga og sjónvarpsþátta, vel skiljanlegan) hátt náð að sjá gervilega útfærslu af kvensköpum úr þessari mynd og var viss um að þarna væri verið að selja einhvers konar hjálpartæki ástarlífsins.  

Já svona er maður nú bara mikil tepra! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ja hérna.  Líf í tuskunum í Köben.  Hér hefði frásögn mín af sama tímabili orðið einar þrjár línur.  Gott á meðan allt gengur vel.  Kærar kveðjur frá Spóa.

Eysteinn Óskar (IP-tala skráð) 25.9.2008 kl. 13:54

2 Smámynd: Arnrún

Hehe, já það er sko alltaf eitthvað á hverjum degi :) Nóg við að vera í Køben :D

Arnrún, 25.9.2008 kl. 19:14

3 identicon

Vissi ég ekki! Mín bara farin að strippa í kóngsins Köben! Elsku litla krúttið mitt, mikið er gaman að geta fylgst svona með ykkur. Það á greinilega vel við ykkur að vera þarna. Vildi ég gæti sent handklæði til að hengja fyrir gluggann, ég á sko alltof mörg. Knús og kossar til ykkar allra, Anna frænka.

Anna Kristine Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 26.9.2008 kl. 11:30

4 Smámynd: Arnrún

Æ takk elsku frænka :) Við erum nú reyndar búin að fjárfesta í aðeins fleiri handklæðum núna auk þess sem ég lét verða af því að kaupa almennilegt hengi fyrir gluggann :)

Arnrún, 27.9.2008 kl. 22:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband