Englaraddir óma...

Stelpan er búin að vera alveg hundlasin og sótti ég hana á miðvikudaginn með 39 stiga hita á vöggustofuna.  Hún var reyndar ekkert mjög slöpp þá svo ég bjóst við að hún kæmist jafnvel á föstudeginum aftur á vöggustofuna.  En á föstudeginum vaknaði mín bara í móki og hitinn kominn upp í tæpar 40 gráður.  Hún svaf meira og minna allan daginn en var nokkuð skárri um kvöldið.  Sofnaði þó strax þegar við lögðum hana.

Í gær var hún ekki með eins mikinn hita en alveg að gera okkur vitlaus af væl og relli.  Það var alveg sama hvað við gerðum eða gerðum ekki hún vældi bara, greyið litla.  Við reyndum að gefa henni stíla svo hún gæti sofnað sér betur en hún svaf rétt svo í hálftíma yfir daginn og ekkert meir. 

Sigrún bauð mér í útgáfuteiti í tilefni af því að kvennakórinn í Kaupmannahöfn, sem hún er í, var að gefa út disk.  Boðið byrjaði klukkan 17 og var haldið í sendiherrabústaðnum íslenska.  Ég tók mér strætó þangað enda ekki langt að fara þar sem þau eru flutt í Frederiksberg.  Þegar ég svo kom inn í salinn var orðið vel margt en Sigrún tók þó fljótlega eftir mér og leiddi mig til Andy sem stóð aftarlega í salnum.  Hann var á spjalli við Jón nokkurn sem hún kynnti sem ,,Jón í Jónshúsi... hinn eini sanni" og ég, að sjálfsögðu alltaf jafn fyndin, svaraði að bragði: ,,Nei, helvíti eldistu vel!"  Hann varð allur mjög skrýtinn og hló svo vandræðalega og þakkaði fyrir sig.  Sigrún greyið fékk alveg fyrir hjartað yfir dónaskapnum í litlu frænku sinni og stamaði vandræðalega ,,Já, alltaf sami ættarkjafturinn!".  Ég var fljót að sækja mér freyðivín og tæma úr glasinu!  Kvöldið ætlaði að byrja vel Pinch.

Kórinn söng nokkur lög og var alveg frábær.  Svo var minglað aftur og svo tók kórinn nokkur lög til viðbótar sem voru ekki síðri.  Auðvitað fjárfesti ég í disknum sem var svo skemmtilega hannaður af grafíska hönnuði kórsins... að sjálfsögðu Sigrúnu frænku minni Grin.  Ég skreppti mér síðan á salernið sem er að sjálfsögðu ekki í frásögur færandi... nema fyrir þær sakir að það var inni í húsinu sjálfu (við vorum í bakhýsi við húsið) svo ég fékk gott tækifæri til að skoða bústaðinn að innan sem var allur hinn glæsilegasti, stútfullur af íslenskri hönnun, bæði hvað húsgögn og listmuni varðaði.  Ég taldi 12 stóla við borðstofuborðið, sitt hvoru megin, og svo náttúrulega sitthvor stóllinn við endana.

Sendiherrafrúin, Guðrún, kom síðan til okkar Sigrúnar og spjallaði heillengi við okkur við fjórða mann og þegar talið barst að líkum orðum með ólíkar merkingar milli tungumála þá sagði hún okkur frá því að þegar hún fyrst var að læra dönskuna sagði hún ekki undskyld, þegar hún var að biðjast afsökunar, heldur forgiv mig... sem þýðir svo allt annað... eða eitraðu fyrir mér!  Svo fólki varð að vonum brugðið þegar hún bað þessarar fáránlegu bónar.  Dani sem með okkur stóð sagðist hafa hlegið mikið þegar hann kom í fiskbúð á Íslandi og sá að til sölu var stór-lúða og smá-lúða (luder þýðir vændiskona á dönsku og er borið fram lúða).  Eins brá honum frekar mikið við að koma í Bláfjöll þar sem var ekki bara skíða-stóll heldur líka skíða-skóli (skíta-stóll og skíta-skóli).  Við vældum þarna úr hlátri yfir þessu og mörgu öðru sem við mundum eftir.

Ég kvaddi partýið á skikkanlegum tíma, eða um 19 leytið og dreif mig heim.  Ég var svo búin á því þegar ég kom heim að ég sofnaði klukkan hálftíu inni hjá stelpunni sem hafði verið að vakna á hálftíma fresti allt kvöldið.  Ekki tók betra við um nóttina og ég ýki ekki þegar ég skrifa að ég fór eitthvað átta sinnum til hennar að setja upp í hana snuð og breiða yfir hana.  Um morguninn var hún hálfvælin, hitinn farinn nokkurn veginn en mikið kvef og hósti kominn í staðinn.  Lóa kíkti svo aðeins í kaffi upp úr hádegi og Jódís Guðrún var ekkert á því að sofna.  Dóri, hópfélagi, kom svo um tvö leytið og við unnum fram að kvöldmat og loksins þá vildi hún aðeins sofna, þ.e. um 3 leytið.. hún er vön að leggja sig fyrir hádegi.  Hún var líka alveg hunderfið að sofna um kvöldið og það var háð mikil þrjóskukeppni á heimilinu, sem endaði með því að hún sofnaði loksins.

Við Eysteinn kláruðum verkefni sem hann átti að klára fyrir morgundaginn en hann er að vinna stórt verkefni um manninn með bekkjarfélaga sínum.  Þeir eiga svo að flytja það fyrir framan bekkinn og einhverja boðsgesti í byrjun desember. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband