Prófið búið og stelpan farin að labba :)
9.12.2008 | 09:47
Þetta var algjört maraþon hérna um helgina, sat föstudaginn frá hádegi fram til 9 um kvöldið við prófið og svo frá 10 leytið á laugardeginum til klukkan 1 um nóttina. Eina almennilega pásan þann dag var ca. 1 klukkutími um kvöldmatarleytið. En ég náði að klára prófið og á sunnudeginum eyddi ég einhverjum þremur tímum í að lagfæra og setja svörin almennilega upp áður en ég sendi það svo uppúr hádegi. Heilinn var nú eiginlega orðin eins og undin tuska á eftir svo það var ægilega gott þegar þetta var búið .
Við fjölskyldan röltum okkur svo niður í bæ eftir hádegið að upplifa jólastemmninguna og hún var mikil. Fullt af fólki á röltinu og tónlistarmenn á hverju götuhorni spilandi jólalög og syngjandi jólasöngva. Allt frá vinum okkar indíánunum með panflauturnar sínar (alltaf jafn yndislegt ) og lírukassaspil upp í flotta kóra sem náðu virkilega að koma manni í jólagírinn. Einn stóð þó uppúr, kór sem var við Köbmagergade, 3 karlmenn og 4 konur og voru þau hreint frábær, enda rann túskildingurinn sem Halldór setti í körfuna þeirra eiginlega bara úr henni svo full var hún.
Í gær ætluðum við rétt að skjótast í bankann og borga nokkra reikninga og stússast smá og svona, það bara tók allan daginn. Rétt náðum að sækja stelpuna aftur á vöggustofuna á réttum tíma. Ég sofnaði bara uppúr átta leytinu fyrir framan sjónvarpið, gjörsamlega búin á því. Örugglega eftir helgina. Allavega var gærdagurinn ekkert sérstaklega erfiður .
En... já, nú má bara segja að prinsessan á heimilinu og stjórnandi með meiru sé farin að ganga. Allt í einu í fyrradag gekk hún bara allt sem hún vildi fara þó hún þyrfti að drösla sér á fæturna í þriðja hverju skrefi. Hún er enn svolítið völt . Það hélt svo bara áfram í gær og í dag var hún ekkert á því að skríða á milli, stóð bara upp og labbaði. Hún er orðin mun styrkari en bara í fyrradag, þannig að um jólin ætti hún að vera farin að hlaupa hérna á milli án þess að detta. Við ætlum að fara á stúfana og reyna að finna almennilega skó fyrir hana núna sem styðja vel við fæturna á henni. Þegar hún verður orðin örugg þá fyrst verður stuð á heimilinu... jiiiiminn eini!!!
Þá fer maður örugglega að sofa bara með henni á hverju kvöldi eftir allan eltingaleikinn.
Annars er bara allt voða ljúft hérna, ég ætla að reyna að klára það litla sem ég á eftir fyrir helgina svo ég geti verið bara komin í jólafrí þá . Því svo kemur pabbi bara í næstu viku
. Halldór er í fríi alla þessa viku og situr nú með ipod-inn að hlusta á dönskukennslu og undirbúa sig fyrir tímann í dag.
Athugasemdir
jólin koma jólin koma ............... gott að vera búin með prófin :-)
Kristján Jörgen (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 11:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.