Þorláksmessublogg

Jæja... þá er bara komin Þoráksmessa.  Ótrúlegt en satt!  Undarlegt hvað tíminn er fljótur að líða frá manni.  

Fyrir löngu síðan var búið að panta borð fyrir hádegisverð á Café Royal, sem er einmitt þar sem við Halldór snæddum morgunverðinn þegar við gistum á hótelinu Royal hotel í fyrra Smile.  Einkar huggulegur staður. En já að sjálfsögðu hafði ég ekki passað nógu vel upp á dóttur mína í kuldanum deginum áður þegar við heimsóttum Hanne (og þurftum m.a. að bíða eftir lest í 20 mínútur í nístings kulda) og hún var því komin með blússandi hita þegar hún vaknaði um morguninn, sem kom mér reyndar ekki á óvart því hún vaknaði upp á hálftíma fresti alla nóttina.  Svo Halldór varð eftir heima með stelpuna.  Eysteinn Aron hafði verið í skólanum um morguninn, svona síðasti skóladagur fyrir jól með tilheyrandi julefrokost (þó ekki áfengt, að vísu var tekið fram að þau mættu koma með drykki að eigin vali Joyful) og svo jólaleikrit.  Hann fékk því að fara aðeins fyrir tímann og hitti okkur feðgin uppá Emdrup Torv.  Sigrún, Andy og Erla voru komin þegar okkur bar að og sátu makindalega í stólum kennda við Arne Jacobsen.  Svokölluðum Eggjum.  Fljótlega var þó opnað fyrir okkur inn þar sem við pöntuðum okkur dýrindis mat og skemmtum okkur mikið saman.  Þegar átti svo að fara að draga upp veskin tilkynnti Erla okkur að þetta væri allt í sínu boði.  Og ekki nóg með það heldur kom hún líka færandi hendi og gaf mér krukku af dýrindis Foie Gras (Andalifrakæfu) til að fá smá franska stemmningu í jólin hjá okkur Joyful.  

Eftir að hafa kvatt þau, en þau voru semsagt á leið til Nýja Sjálands með næturstoppi í Singapore, þá röltum við mæðgin, feðgin og afgar (ný-yrði búið til í hádegisverðinum yfir afa og afabarn) okkur Strikið og komum við í Magasin Du Nord... sem var btw. pakkað af fólki.  Settumst svo niður og nutum ekkert sérstaklega vel 30 kr. kaffibolla sem við keyptum okkur á eftir.  Það var bara aðeins of kalt.  Þegar við komum heim var stelpan nývöknuð og Halldór búinn að vera svona líka duglegur að gera fínt hjá okkur.  Þar sem stelpan var enn með góðan hita og mjög slöpp ákvað ég að gefa henni stíl og það var eins og við manninn mælt... þremur tímum síðar... að hún lék á alls oddi, tæmdi veskið mitt og fyllti aftur þrisvar sinnum, labbaði útum allt syngjandi og hamaðist í skúffunum í eldhúsinu.  Bara alveg eins og hún átti að sér að vera kellingarrófan.

Um kvöldið skreyttum við svo ægilega fínt hjá okkur og settum jólatréð upp og skreyttum það með því sem Sigrún hafði lánað okkur.  Þegar því öllu var lokið raðaði Eysteinn pökkunum undir tréð, þeim minnstu, það komust bara ekki allir fyrir.  Og þá var orðið svooo jólalegt.  Við enduðum svo gott kvöld á því að setja myndina See no evil, hear no evil í tækið og skemmtum okkur mikið yfir vitleysunni.  Held ég hafi séð hana síðast þegar ég var á Eysteins aldri.

Í morgun drifum við Halldór okkur svo upp í Søborg þar sem við versluðum fyrir jólamatinn og svo fóru þeir feðgar ásamt pabba niður í bæ að versla jólagjöfina mína og sitthvað fleira Joyful.  Veðrið er alveg yndislegt í dag, heiðskýrt og stillt en þó kalt.  Bara eins jólalegt og það getur orðið þegar enginn er snjórinn Tounge.

Ég er búin að taka út saltfiskinn sem Beta gaf okkur til að gefa okkur í kvöldmat svo það verði svona næstum því skata, enda þó við gætum borðað svoleiðis (sem er bara ekki séns) þá gætum við heldur ekki gert nágrönnunum það held ég Pinch.  Lærin voru tekin út í gær og bíða þess í ísskápnum að verða breytt í dýrindis jólasteik á morgun þegar jólaklukkur klingja inn jólin.  Ég held barasta að ég sé að komast í jólaskap... loksins! Smile


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband