Vetrarfrí að kveldi komið

Það er sko búið að kanna allar helstu laugar Danmerkur og náðu þeir vinir að draga Halldór með sér í Fredriksberglaug á fimmtudaginn.  Víst alveg rosalega flott laug með 3ja metra stökkpalli og 5 metra... sem reyndar var lokaður en í staðin ægilega fín rennibraut.  Halldór hélt sig reyndar bara í ,,Heita-pottinum" og skalf í 34°C  En það var þó skárra en að hríslast um í 20°C heitri lauginni... brrrrr.. ég man hvað laugarnar hérna eru kaldar frá því ég var krakki.  Minningin um kuldann hefur náð að greypa sig í huga manns eins og óútmáanlegt húðflúr Shocking  Svo ég er ekkert að klyfast endalaust á því að mig langi að fara í sund hérna, getum orðað það þannig.  

En Lego-world var uppselt á föstudeginum, það var einhvers konar ferða legóheimur sem búið var að setja upp í Parken.  Svo þeir félagar fóru bara niður í bæ (með Halldóri að sjálfsögðu) og skrepptu sér á Heimsmetasafn Guinnes.  Mér skilst að það hafi verið voða gaman.

Um kvöldið voru karlmenn heimilisins heima yfir góðri mynd og poppkorni á meðan húsfreyjan brá sér af bæ heim til Lóu með hvítvín í nesti.  Við sátum þar stutta stund og síðan fórum við niður í bæ.  Það var fínt.  En má þess geta að við okkur húsfreyju og bónda reiknaðist svo til að húsfreyjan hefði ekki brugðið sér af bæ í þessum tilgangi í rúm tvö ár.  Muni einhver betur er sá hinn sami vinsamlegast beðinn um að gefa athugasemd þess varðandi í viðeigandi athugasemdaramma hér fyrir neðan.

Í gærkvöldi var svo komið að heimilisföðurnum og húsbóndanum á bænum að bregða fyrir sig betri fætinum og ferðast alla leið að Christianshavn með Hr. Steinsen til að hlýða á einhverja tónleika.  Þar sem klukkan er nú rétt að detta í hálf níu fyrir hádegi hefur húsbóndinn enn ekki haft -hvorki ráð né rænu til að tjá álit sitt á þeim tónleikum.  En ég býst nú fastlega við að þetta hafi verið hin mesta skemmtun.

En já, Nökkvi fer í kvöld þannig að nú verður að nýta daginn vel.  Það er reyndar allt lokað í dag enda sunnudagur svo þeirra nýting á tímanum verður að vera á andlegu nótunum enda er sú leið langt um betri en allar veraldlegar leiðir Wink

Enn ein vikan búin og enn ein vinnu- og skólavika að hefjast.   Á morgun eru 25 vikur síðan við fluttum út sem hlýtur að þýða að í næstu viku höfum við verið hér í hálft ár.  Það er ótrúlegt!  Tíminn maður, tíminn.

Uppfært:

Ég áttaði mig á því að ég var að skrifa hérna tóma vitleysu og helbera lygi.  Rétt skal vera rétt svo hér með leiðréttist það að það er alls ekki svona langt síðan ég brá mér af bæ í þeim eina tilgangi að skemmta mér með hjálp vínanda.  Og ekki heldur svo langt síðan við Halldór fórum saman út.  Ég nefnilega átti frábæran dag þegar við hópur kvenna gæsuðum hana Önnu vinkonu okkar og þá fór ég svo sannarlega út á lífið, það var um miðjan júnímánuð á síðasta ári.  Svo fórum við Halldór í brúðkaupið þeirra Kalla og það var til klukkan 2 um nóttina og eftir það höfðum við tækifæri á því að fara út á lífið en sökum þreytu fórum við bara heim að sofa.  Þetta var í lok júlímánaðar.  Auk þess skruppum við Valgerður út að borða ásamt mágkonu hennar og fengum okkur drykk á bar og fleira skemmtilegt.  Og það var í júlílok eða ágústbyrjun.  

Hér með leiðréttist þetta og í framhaldi af því biðst ég afsökunar á fyrri vitleysu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband