Sverige

Á laugardaginn tóku Sigrún og Andy við börnunum okkar um tólfleytið og við komum okkur áfram niður í bæ.  Það var svooo heitt að ég var alveg að kafna, þræddi alla skugga.  Leiðir skildust við Hovedbanegård þar sem ég rölti mér niður en Halldór í vinnuna.  Lestin var enga stund á leiðinni og ég var komin til Önnu í Lundi um hálfþrjú.  Eftir rölt um bæinn og hjólatúr í verslunarmiðstöð eldaði hún handa mér yfirnáttúrulega góðan kjúklingarétt.  Við sátum svo bara úti á verönd fram eftir kvöldi enda veðrið algjörlega frábært.  Þá átti að kíkja á næturlífið sem Lund hefur uppá að bjóða.  Við prufuðum fyrst stað sem hafði verið mælt með við hana, röltum um svæðið og fengum okkur drykk.  Mér leið bara illa þarna inni.  Þetta var þvílíkur kjötmarkaður að mér leið bara eins og við værum grillaðir kjúklingar í augum karlanna þarna (svona Tomma og Jenna kjúklingar þegar hundurinn er voða voða svangur).  Við röltum okkur því lengra inn í miðbæinn eftir bjórinn okkar og komumst að því að næturlífið í Lundi er... jah.. ekki upp á marga fiska skulum við segja, og að allir fara til Malmö eða Helsingborg til að djamma.

Morgunmaturinn var að sjálfsögðu borðaður úti á verönd og svo tók ég þrjú lestina en Kalli ætlaði að vera í henni.  Ég fann hann að lokum og voru þá auðvitað miklir fagnaðarfundir.  Hann hafði fundið þetta fína hræbillega hótel fyrir okkur sem var bara hið ágætasta... nema að glugginn snéri út að rosalegri umferðargötu.  Ég gat nú svosem vel sofið en Kalli greyið er bara vanur fuglagarginu í Færeyjum og átti í mesta basli með að festa svefn.  Herberginu fylgdu eyrnatappar (greinilega af fenginni reynslu Tounge) og hann tróð þeim í eyrum undir því yfirskini að umferðin væri svona hávær þó ég geti nú reyndar vel ímyndað mér að hroturnar í mér hafi eitthvað haft þarna að segja Woundering.

Ég eyddi öllum mánudeginum á bókasafni sem sérhæfir sig í latnesk-amerískum fræðum og fann heilan helling sem ég gat ljósritað hjá þeim.  Ég keypti mér stuttbuxur og bol enda var veðrið með þvílíkum eindæmum að ég gat vart hugsað mér síðbuxur eða peysu.  Eftir einn ííískaldan tók Kalli mig á ferlega skemmtilegan hippa-grænmetisstað sem hann hafði verið vanur að fara á og ég fékk mér svona líka ljómandi gott lasagne.  Ég fór svo snemma niður í bæ á þriðjudeginum og tók lestina til Köben þar sem sú stutta tók á móti mér með svona líka yndislegu knúsi.  Ég held hún hafi verið jafn glöð að sjá mig og ég hana.  Halldór þurfti þó passlega að fara í vinnuna svo við börnin hugguðum okkur bara saman um kvöldið.

Kalli kom svo frá Gautaborg á fimmtudaginn og ég var að kveðja hann áðan.  Við tókum hjólatúr um Mosen í gær sem var bara svo dejligt!  Í kvöld ætlum við svo að reyna að hafa pínu grill þar sem Pétur Steinsen, sem kominn er frá Nicaragua ætlar að koma ásamt dóttur og pabba og nokkrir fleiri.  Vona bara að hann hangi þurr.

Annars þurftum við að sækja stelpuna fyrr í fyrradag úr vöggustofunni þar sem hún er búin að vera með útbrot í kringum munninn og þær halda að þetta sé kossageit, hún fær þó ekki tíma fyrr en á mánudaginn hjá lækni.  Í gær var svo frídagur þar sem það var grundlovsdag, sem er þeirra þjóðhátíðardagur, það var nú ekki mikill þjóðhátíðarbragur yfir neinu fannst mér LoL ekki nema að allt var lokað.  Við fögnuðum honum hins vegar hér með Kalla og Lóu með því að fara í bakaríið og bjóða upp á bakkelsi með kaffinu.  Voða næs Joyful

Já og svo var sumargleði klúbbsins á miðvikudaginn þar sem Eysteinn og hljómsveit hans Black dreams tróð upp, opnaði prógrammið með þremur lögum og svo enduðu þau prógrammið með öðrum þremur.  Þau eru orðin alveg þrusugóð og greinilegt að mikið stolt ríkir í klúbbnum yfir getu þeirra.  Nú er bara festivalið Vilde vulkaner næst á dagskrá þann 3. júlí þar sem þau keppa í einhverjum nokkrum hljómsveitakeppnum.  Það verður gaman að sjá hvernig þeim reiðir af þar Grin.

Jæja... ég sé að það er bara búið að vera nóg að gera, hehe!  Læt þetta þó duga að sinni. 

Bless í bili! 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband