Fjórða vikan að hefjast

Fyrir nákvæmlega þremur vikum síðan vorum við nýkomin heim úr Ikea, ööörþreytt í tóma íbúð. Við sátum á gólfinu um þetta leytið að borða allt of salta pizzu frá Tyrkjunum á horninu. Höfum ekki fengið okkur pizzu þaðan aftur. Rúmið okkar og beddinn sem við keyptum handa Eysteini var rétt ókomið með Ikea sendibílnum en rúmið hennar Jógu var komið upp inní herbergi og ef ég man rétt þá sofnaði hún á leiðinni úr fanginu mínu á koddann sinn, algjörlega búin á því eins og við hin. Við erum mikið búin að tala um hvað tíminn er búinn að vera skrýtinn að líða hérna.  Okkur finnst svo stutt síðan við komum og eiginlega styttra síðan við vorum á leiðinni út, búin að fá jákvætt svar og allt á fullu við að redda öllu.  En svo er svo ótrúlega margt búið að gerast hérna síðan við komum að okkur líður eins og við séum búin að vera hérna í marga mánuði.  Skrýtnar andstæður þetta.

Það er kominn skítakuldi hérna núna og köngulærnar hafa flúið umvörpum inn og beint í ryksuguna okkar. Hitinn er í einhverjum 14-16 gráðunum á daginn og 5 gráðunum á nóttunni.  Enda er mér orðið kalt á nebbanum sem er óbilandi hitamælir og segir nákvæmlega til um hvenær draga á fram vetrarfötin.

 Jódís Guðrún var hálfslöpp í dag og með niðurgang svo ég vildi ekki setja hana á vöggustofuna og var hún því heima í dag.  Þar sem hún var hitalaus setti ég hana þó út en í ullargalla með sængina sína yfir sér.  Hún svaf í rúma þrjá tíma.  Soldið notalegt hjá henni, segi það ekki Joyful  Ég naut góðs af þar sem ég náði að læra heilan helling og Eysteinn kom svo heim úr skólanum alsæll.  "BARA gaman!"

Halldór kom snemma heim úr Konunglega í dag enda búinn að hanga yfir engu svo hann var voða feginn að geta bara farið.  Hann mætir svo ekki fyrr en eftir hádegi á morgun Grin .  Notó! 

Nú er ég að hlusta á frumburðinn spila á bassann, hann er að verða þrusu bassaleikari og Halldór er að komast í þrot með bassastef handa honum að læra. Greinilega með músíkina í sér strákurinn Cool .  

Annars eru bara daglegar skotárásir núna á Nørrebro, yfirleitt á nóttunni en í dag gerðist það bara um miðjan dag.  Rétt um það leyti sem við Halldór vorum að spá í að fara þangað til að versla.  Við vorum voða fegin því að við höfðum ekki nennt og frestað því til morguns því þetta var bara við verslunina sem við ætluðum í.  Í fréttunum hér er ýmist talað um Hells Angels eða innflytjendagengi í tengslum við skotárásirnar. 

Hér hjá okkur er aftur svo rólegt að við heyrum ekki einu sinni í bílaumferð, hvað þá einhverju svona bulli Wink

Nóg í bili.

Ciao! 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband