Jólatrés-svaðilförin mikla!!!

Við vorum búin að ákveða að fara með Lóu og Þresti í ægilega skemmtilega ferð að finna jólatré.  Þau höfðu séð svo ægilega fína auglýsingu þar sem hægt var að fara með gamaldags lest uppí sveit og velja sitt eigið jólatré.  Okkur fannst þetta tilvalin jólaleg ferð svona til að brydda upp á hversdagsleikann. Við ákváðum að fara laugardaginn 13. desember og vera komin um 11 leitið á áfangastað.   Svo þann dag vöknuðum svo í góðan tíma og vorum í rólegheitunum að taka okkur til og svona, nema hvað að allt í einu var tíminn að renna frá okkur svo við drifum okkur í föt og... auðvitað fann hvorugt okkar þá veskið sitt. Húfa stelpunnar fannst heldur hvergi og einhvern veginn var allt bara týnt.   Öllu var snúið við (eins og var nú orðið fínt hjá okkur Pinch) og að lokum fundum við allt og komum okkur af stað.  Við ákváðum nú að vera ekkert að stressa okkur en höfðum þá misst af þeim strætó sem við höfðum ætlað okkur að taka.  Við tókum þá bara þann næsta og ég hringdi í Lóu og sagði farir okkar ekki sléttar og að við myndum bara hittast á áfangastað (en ekki í Valby, á þeirra stöð, eins og ákveðið hafði verið).  Við komum niður á Nørreport og í miðasölunni var okkur sagt að vegna bilana lægi ferð lestarinnar sem við tækjum niðri frá Nørreport svo við þyrftum að taka hana frá Hovedbanegården.  

Jæja, við töluðum nú okkar á milli að nú hlytu ófarirnar að vera búnar og nú tæki bara skemmtilegur dagurinn við.  Þegar við svo komum niður á Hovedbane þá dreif ég mig í upplýsingaröðina... sem var svona 3ja km löng eða svo... auðvitað!  Hún gekk nú sem betur fer nokkuð fljótt fyrir sig en Halldór hafði ákveðið að stökkva í sjoppuna og grípa eitthvað handa okkur með í ferðina á meðan ég beið.  Það kom síðan að mér og ég spyr hvaða lest skuli taka til Hedehusene og hann spyr þá hvor ég vilji taka næstu lest, en að langt sé milli lesta... ,,já, endilega þá næstu bara!" segi ég þá.  -,,já hún fer eftir 4 mínútur, 10:34."  Ég segi Eysteini að hlaupa til pabba og segja honum að við séum að fara NÚNA frá spori 8 og ég sé farin.  Ég tók vagninn -með stelpunni innanborðs, í næstu lyftu niður að spori 8 og beið... og beið.. og klukkan varð 10:33... 10:34... engir komu feðgarnir og ég að fríka út af stressi, búin að reyna að hringja og hringja í bæði Halldór og Eystein en alltaf sambandslaust og Halldór með klippikortin á sér svo ég gat ekki einu sinni flýtt fyrir og klippt.  Ég var farin að finna hjartsláttinn auka vel hraðann og kveikti mér í sígarettu.  Passlega í fyrsta smóknum tók ég eftir skiltinu ,,Røgfri zone" ..auðvitað!!!  Svo ég drap í.  Klukkan var 10:36 og þeir ekki enn komnir en lestin enn ekki farin.  Þá hringir síminn og ég heyri bara ,,Fyrirgefðu, en megum við koma með?!!!"  Halldór ekki kátur.  Þá hafði Eysteinn ekki náð því þegar ég sagði honum frá lestarsporinu og þeir vissu EKKERT hvar ég var og náðu ekki í mig frekar en ég í þá.  Þeir náðu að koma áður en lestin rann frá spori, sem betur fer.  

Ég hrindi þá í Lóu og þá hafði ferðin með lestinni sem þau ætluðu að taka verið felld niður svo þau voru einnig nýstigin uppí lestina hjá Valby.  Við stigum svo úr lestinni um 15 mín eftir brottför, stödd úti í Rassgati... afsakið: Hedehusene.  Við litum í kringum okkur í leit að fuglaparinu en fundum engan svo ég hringdi í Lóu.  ,,VIÐ ERUM Í ROSKILDE!!!"  Mín ekki kát.  Þá hafði lestin þeirra ákveðið að stoppa ekki hjá Hedehusene (þó það stæði á leiðarlýsingu) og þau urðu því að fara úr hjá Roskilde og taka lestina til baka.  Greinilega föstudagurinn þrettándi.  Þó það væri laugardagur.  Við höfðum rölt um höfuðgötu Hedehusene og fundið hið ágætasta kaffihús sem þau hittu okkur á og þá var Jódís Guðrún sofnuð, alveg búin á því.  

Eftir langþráðan kaffisopann lögðum við aftur í hann og komum að aðalbyggingunni á lestastöðinni þar sem við ætluðum að fá leiðbeiningar um hvert við ættum að fara.  Karlmenn hópsins fóru saman inn í húsið meðan við kvenpeningurinn héldum okkur utandyra á meðan.  Þeir komu út aftur eftir smá stund hálfflissandi því þar hafði enginn verið að vinna en nokkrir menn sem inni sátu að drykkju sem voru afskaplega hjálplegir og allir að vilja gerðir.  Þeir hins vegar bentu allir í sitthvora áttina og rifust um það hver þeirra hefði búið lengur þarna.  Við fórum einhverja af þessum leiðum (eltum bara Þröst) og merkilegt nokk, komumst bara á leiðarenda Joyful.  Þar var stór skemma og einhver nokkur hús í kring, einn sölukofi og litlir lestateinar... og lest sem var að renna úr hlaði.  Það var orðið helv... kalt svo við fengum okkur kaffi og settumst niður meðan við biðum eftir næstu ferð.  Næsta lest (svona lítil gufulest, ægilega krúttleg) kom svo hálftímanum seinna en stelpan var enn ekki vöknuð svo Halldór ákvað að sitja hjá vagninum í fremsta klefa sem var lokað hús.  Lestin brunaði á skokkhraða inn í sveitina og eftir um 20 mín komum við á leiðarenda og stukkum af.  Við eltum bara strolluna og urðum meira en lítið hissa þegar við sáum jólatré liggjandi þarna í einni hrúgu og fólk að velja sér úr haugnum.  Ekki alveg það sem við höfðum ímyndað okkur með veljið ykkar eigið jólatré, sáum fyrir okkur að við myndum til skiptis vera að munda öxina á eitthvað fallegt jólatré útí skógi Crying.

Við keyptum okkur bara jólaglögg og eplaskífur hjá skátunum og brunuðum svo tilbaka.  Stelpan var ENN ekki vöknuð svo Halldór sat í sama vagni (reyndar annarri lest sko) á leiðinni tilbaka.  Hann var heppinn.  Við vorum að frjósa úr kulda.  Við tókum svo bara lestina tilbaka og Lóa og Þröstur buðu okkur í kaffi til sín sem við og þáðum.  Það var gott að ná í sig smá yl áður en haldið var heim á leið eftir viðburðaríkan og ævintýrasaman dag. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband