Ástandið

Nú er ástandið á heimilinu svipað og fyrir 100 dögum síðan.  Maður situr bara límdur við alla fréttatíma og með útvarpið í botni að fylgjast með enn einu ástandinu heima.  Hitinn í mótmælunum er orðinn ansi mikill.  Væri ég á Íslandi hefði ég mætt, bæði í gær og fyrradag og héldi áfram að mæta og haft hátt og vera með læti.  

Kröftug mótmæli

Ég styð þessi mótmæli 100% en þykir jafnframt miður að skemmdarvargar og ofbeldisseggir geti nýtt sér þessar aðstæður til að ganga of langt svo að fólk slasast.  Hvernig í ósköpunum dettur mönnum í hug að fleygja gangstéttarhellum að lögreglunni?  Og hvernig dettur mönnum í hug að reyna að kveikja í dyrum Alþingishússins.  Það er náttúrulega bara með ólíkindum hvað fólki dettur í hug.  En þetta gerir þau kröftugu mótmæli ekki minni sem staðið hafa yfir þessa tvo daga.  Það má ekki gleyma því að þetta eru aðeins örfáir og það má því heldur ekki gleyma þeim þúsundum sem ekki eru með ofbeldi og ,,skrílslæti".  Lögreglan er heldur ekki saklaus og mér finnst álíka mikill múgæsingur hafa skapast innan raða lögreglunnar og hjá mótmælendum.  Gáttuð horfum við uppá lögregluna ráðast gegn mótmælendum af hörku og piparúðanum beitt eins og vatnsbrúsa GAS GAS GAS!!! -þegar augljóst er að þess þarf ekki. 

Lögreglan virðist beina piparúðanum að myndatökufólki vísvitandi (visir.is)

 

Og í morgun trúði ég vart mínum eigin augum þegar ég sá að táragasi hafði verið beitt.  Skiljanlega hefur lögreglan verið orðin logandi hrædd eftir að þrír liðsmenn þeirra voru sendir slasaðir á bráðamóttökuna.  En þetta er sá raunveruleiki sem við búum við í dag.  Maður trúir því hreinlega ekki að myndirnar sem sýndar eru séu frá miðborg Reykjavíkur en ekki Kabúl. 

 Undanfarna 15 laugardaga eða svo hafa verið skipulögð mótmæli á Austurvelli þar sem þúsundir fólks hafa safnast saman í friðsamlegum mótmælum en samt er valdníðsla fólksins sem í okkar umboði á að vera að stjórna landinu svo mikil að það glottir að þeim.  Fólk hefur troðfyllt sali þar sem borgarafundir hafa verið haldnir og Ingibjörg Sólrún vogar sér að segja að fólkið sem mótmælir sé ekki endilega talsmenn þjóðarinnar.  Fyrir þessi ummæli situr hún ekki lengur í mínu umboði, svo mikið er víst!  Ég ætla rétt að vona að þarna hafi hið skelfilega heilamein verið að tala en ekki hún.  Og svo heimta þau vinnufrið.  Já, vinnufrið til hvers?  Hvað er búið að gera?  Hver hefur verið leiddur til ábyrgðar?  Hverjum er búið að gefa reisupassann? -öðrum en almenningnum í landinu sem í hverri viku er verið að segja upp vegna niðurskurðar, verkefnaskorts, peningaleysis o.s.frv.  Á 100 dögum hefur lítið annað verið gert en að halda blaðamannafundi þar sem tilkynnt er að verið sé að ,,vinna í málinu".  

Já, ég er bara hundreið!  Vörur hafa hækkað um tugi ef ekki hundruð prósenta á meðan fólk þarf að taka á sig launalækkanir eða atvinnumissi og sér fram á að missa þakið yfir höfðunum á sér með tilheyrandi gjaldþrotum og það eina sem við höfum fengið að sjá eru plástrar sem hefur verið útbýtt til okkar, svo sem og frysting lána og þess háttar.  Um leið og plásturinn rofnar erum við stödd á sama stað eða jafnvel enn verri.  Og þessu er ,,skríllinn" að mótmæla með ,,skrílslátum" svo ráðamenn þjóðarinnar fá bara ekki vinnufrið til að... álykta.  Nóg af ályktunum við þurfum aðgerðir!  

Hér er lítið sem ekkert skrifað um þetta og ég hef enn ekkert séð í fréttatímunum.  Það kom reyndar frétt bæði í Berlinske tiderne og Jyllandsposten eftir fyrsta kvöldið um mótmælin þar sem fram kom að lögreglan hefði beitt piparúða á mannfjöldann en ekkert hefur verið skrifað eftir það.  Kannski finnst þeim þetta lítilfjörlegt miðað við fréttir af mótmælum hér í nótt og af manni sem drap móður sína og þess háttar.  Maður veit ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heyr, heyr og halelúja...

Dananum finnst þetta kannski vera of lítilfjörleg mótmæli, þeir miða kannski við mótmælin sem voru í kringum Ungdomshused í hitt í fyrra þegar Nörrebro og götur við Christjaníu voru lagðar í rúst og kveikt var í bílum, reiðhjólum og ruslatunnum.

Valgerður (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 14:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband