23. apríl

Það er ýmislegt sem kemur upp í hugann í tengslum við 23. apríl.  T.d. sumardagurinn fyrsti Smile.  Halldór Laxness átti þennan afmælisdag og þegar ég gúgglaði dagsetningunni sá ég að lög um gjaldmiðilinn okkar umdeilda, krónuna, eru skjalfest þennan dag árið 1968.  Það sem stendur mér þó nær er að í dag eru nákvæmlega fjögur ár síðan við fjölskyldan komum saman á dánarbeði mömmu á gjörgæsludeildinni.  Ætli það hafi ekki verið bara um þetta leyti sem við vorum beðin um að koma til hennar þar sem hún ætti ekki langt eftir.  Já, ég er að hugsa um að vera bara pínu á þessum nótunum núna þegar sólin skín svo fallega og það er 15 stiga hiti úti og yndislegt veður.  Það er skrýtið hvað tíminn er fljótur að líða en samt finnst mér líka eins og heil eilífð sé síðan þetta var.  

Stundum eru ótrúlega skrýtnar hugsanir sem sækja að manni og í síðustu viku, þar sem við vorum að keyra framhjá ríkinu á Selfossi varð mér litið að efri hæð hússins og ég hugsaði með mér að mikið óskaplega væri ég fegin því að hún hefði ákveðið að halda upp á 50 ára afmælið sitt þar sem hún fékk ekki tækifæri til að undirbúa sextugs afmælið sem er nú á næsta leiti.  

Ég sakna hennar alveg óskaplega mikið og ég sakna þess nú, þegar sólin fer hækkandi með degi hverjum og sömuleiðis hitinn, að hafa hana ekki hjá mér til að njóta þess með mér að vera hérna í Kaupmannahöfn því hún elskaði Kaupmannahöfn og varð alltaf hálf dreymin á svip þegar hún talaði um hana.  Og ég sakna þess að hún fái ekki að kynnast nöfnu sinni og ég sakna þess að hún fái ekki að fylgjast með Eysteini vaxa úr grasi og sjá hversu yndislegur og klár augasteinninn hennar er Smile.  Ég sakna samtalanna okkar og vináttu sem var svo sterk Smile.  Þó hún sé stöðugt í huga mér leyfi ég mér ekki að hugsa svona alla daga, en ég leyfi mér það í dag.  Ég er að hugsa um að leyfa mér bara að sakna hennar svolítið í dag og kveiki á kerti til minningar um elsku bestu mömmu mína í öllum heiminum Smile.

Blessuð sé minning hennar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Arnrún mín, ég skil söknuð þinn, sjálf upplifði ég það um þrítugt að missa mína mömmu og þekki þessar tilfinningar.  Það er samt svo gott að eiga fallegar minningar, geta talað við börnin um ömmu og verið þakklátur fyrir það sem var.  Það skiptir líka máli að rækta það sem ennþá er. Börnin ykkar Arnrún mín, eiga afa sem elskar þau og ykkur, ræktum það samband á meðan við höfum tækifæri, við vitum aldrei hvað það stendur lengi.

Knúsaðu Eystein og Jódísi frá okkur afa á Kjalarnesinu

Minna (IP-tala skráð) 23.4.2009 kl. 20:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband