25. apríl - Kosningadagurinn sögulegi!

Hér gerast sko hlutirnir skal ég segja ykkur!

Ég var ekki búin að skrifa það held ég, en þvottavélin ,,okkar" er búin að gefa frá sér skrýtin hljóð í svolítinn tíma.  Það var búið að athuga hvort teinn væri í vélinni eða annað en ekkert fannst svo við ákváðum að kalla til viðgerðarmann sem kom meðan við vorum á Fróni.  Þegar við komum tilbaka hitti Hanne nágrannakona á mig (ég hafði beðið hana að taka á móti manninum) og lét mig fá vottorð frá honum um andlát vélarinnar.  MÅ IKKE BRUGES!!! stóð stórum stöfum.  Eitthvert gat einhvers staðar sem ég skildi ekki hvar.   Þar sem eigendurnir höfðu verið svo forsjálir að kaupa sér fimm ára ábyrgð þá rétt sluppum við í gegn með það að fá nýja vél í staðin, þeim að kosnaðarlausu.  Þess má geta að ábyrgðin rennur út í haust.  Nú!... ég á að hringja í eitthvert númer til að tala við einhvern hjá fyrirtækinu, sem ég og geri, og mér er sagt að ég fái nýja vél innan tveggja vikna, þá verði hringt í mig og ég megi sækja hana.  Ég spurði þá hvort þeir sendu hana ekki til mín, hvort ég þyrfti að borga sendingarkosnaðinn og fékk þá ,,Já, en við borgum vélina!"  Ég hugsaði með mér ,,Döhh já!  Það er búið að kaupa ábyrgð á hana!" en hló bara í símann og lét gott heita.

Allavega!  Við sáum svo þetta dúndur tilboð á örbylgjuofni og ég er búin að vera suða um örbylgjuofn síðan við fluttum út en aldrei fengið grænt ljós hjá skárri helmingnum (ekki endilega betri.. kannski ögn skárri bara Tounge).  Allt í einu langaði Halldór svo gífurlega mikið í samloku hitaða í örbylgjuofni að hann stökk á fætur og sagði, ,,hey... tékkum á þessu!"  Ég var alveg hissa og stökk af stað áður en hann myndi skipta um skoðun.  Við fórum niður á Nørrebro í Føtex og þá var svona ægilega mikið af góðum tilboðum þar svo við fundum enn betri örbylgjuofn á sama verði og auglýst í bæklingnum, og svo fann Halldór sér langþráð samlokugrill á spottprís LoL.  Þegar heim var komið fékk hann sér því ekki samloku í örbylgjuofni heldur ,,samloku í rist".  Nú trónir örbylgjuofninn á eldhúsborðinu, tekur náttúrulega ægilega mikið pláss, en ég fer alltaf í sæluvímu þegar ég sé hann inní eldhúsinu Grin Loksins, loksins!

Nema hvað!  Við fáum svo hringingu daginn eftir frá fyrirtækinu með þvottavélina og okkur sagt að ekki hafi verið til sama vélin svo hún hafi fundið eina sambærilega Electrolux vél með öllu A eins og hin var (þvottahæfni, þurrkun og rafmagnsnotkun) en hún sé reyndar 6 kílóa.  Ég samþykkti þetta fyrir hönd eigendanna á staðnum, alsæl með aukakílóið.  Þegar svo vélin kemur í gær þá er hún skal ég sko bara segja ykkur 1600 snúninga, 7 kílóa vél!!!  Þið getið rétt ímyndað ykkur fagnaðarlætin sem brustu út og ætluðu aldrei að hætta LoL.  Hún er SVOOO flott að ég gat með engu móti sett hana af stað í morgun.  Þurfti alveg að fara í gegnum leiðbeiningarnar og á endanum kom Halldór mér til bjargar.  Algjört æði!!! LoL

En þar með er ekki öll sagan sögð!  Við semsagt náðum á sínum tíma (*hóst*Halldór*hóst*) að bræða úr ryksugunni sem er á heimilinu og eigendur eiga. (Já en ekki hvað LoL).  Svo við verðum að kaupa nýja ryksugu.  Haldið að það hafi ekki komið þessi fína auglýsing um þessa líka flottu Nilfisk ryksugu, ægilega flott og fín, á voða miklum afslætti, sem við erum að hugsa um að fjárfesta bara í.  Voða rauð og falleg... allavega á auglýsingunni Tounge.  Þannig að nú erum við að verða búin að græja upp heimilið af þvílíkum 2007 mætti að annað eins hefur nú bara ekki sést í, jah.. 1 1/2 til 2 ár.  Og allt á svona líka spottprís og frítt!  Já og þess má geta að flutningsgæinn sem kom með vélina til okkar tók ekki í mál að við borguðum honum þar sem það væri búið að borga fyrir flutning og vélin væri tryggð og þ.a.l. ættum við ekki að borga krónu!  Hann sagðist senda reikninginn á fyrirtækið og við ættum ekki að koma nálægt því!  

Nema hvað!  Í dag er dagurinn sem Eysteinn er búinn að bíða eftir með óþreyju í marga mánuði.  Afmælisveisla klúbbsins Skrænten.  Hann á nefnilega að spila með hljómsveitinni sinni og byrjar giggið, sem kallast Cirkus, klukkan þrjú í dag (eitt að íslenskum) og stendur til klukkan fimm.  Svo er pása og svo er afmælisveislan sjálf klukkan sjö og stendur til miðnættis.  Það eru búnar að vera þrotlausar æfingar alla vikuna og hann hefur komið heim gjörsamlega búinn á því eftir það.  Á fimmtudag var svo generalprufa þar sem annar klúbbur kom og horfði á og svo í gær var önnur generalprufa þar sem fólk gat komið og séð.  Það þurfti að sjálfsögðu að kaupa sér aðgang að herlegheitunum, enda um ekta skemmtun að ræða.  Ég hlakka nú bara ekkert lítið til að sjá þá krakkana spila.  Ég hef aldrei séð Eystein spila á trommurnar og, eins og fyrr segir, bara get varla beðið.  Annars er kúltúrinn svolítið annar hér en heima og Eysteinn var að segja okkur að í gær var verið að bera inn 30 kassa af bjór til að selja í veislunni (að sjálfsögðu til okkar foreldranna LoL) en ég sæi þetta nú í anda gerast á Íslandi. 

Ég er semsagt stödd í miðju 33 tíma prófi (er því að stelast til að gera eitthvað annað), á eina spurningu eftir og ætla að klára þetta bara fyrir veisluna.  Ég sat því við langt fram á nótt að vinna og svaf því ögn lengur en hinir fjölskyldumeðlimirnir.  Ég var reyndar vöknuð þegar ég heyri Halldór segja við Jódísi Guðrúnu að fara inn í herbergi og vekja mömmu.  Ég heyri hana svo trítla til mín en í stað þess að reyna að vekja mig kveikir hún á tækinu sínu sem er með svona svefn-tónlist (sem við setjum oft í gang þegar hún á að fara að sofa), stingur upp í mig snuði sem hún heldur á og treður Gutta bangsa í fangið á mér.  Svo labbar hún sér út aftur LoL.  Er hún ekki BARA æði?!!!  Ægilega góð við mömmu.

Nú eru þau öll úti á labbi í góða veðrinu og ég les, og ég les í sól og sumaryl því að ég verð að ná í næsta sinn!!! Frown  Það á að vera 20 stiga hiti og glampandi sólskin á morgun.  Þá ætlum við SKOOO í piknik í einhverjum garði.  Og helst með Sigrúnu og Andy Smile.

Jæja... þýðir ekki lengur, nú er það bara harkan 7... nei 6 LoL.

Megið þið eiga góðan kosningadag.. ég er voða fegin að vera búin að þessu.  Ég væri ennþá óákveðin og myndi örugglega bara ákveða þetta í kjörklefanum eins og ég gerði þá Joyful

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband