Fimmtugs afmæli Sigrúnar

Það var fyrir óralöngu síðan að ég fékk boðskort í fimmtugsafmæli Sigrúnar.  Skyndilega og allt í einu er dagurinn runninn upp og við Eysteinn og Jódís héldum niður í Jónshús um þrjúleytið þar sem ég ætlaði að hjálpa Sigrúnu og Andy við undirbúninginn.  Eysteinn passaði stelpuna á meðan við dekkuðum upp borð og gerðum tilbúið fyrir gesti.  Þetta var hið skemmtilegasta afmæli þar sem nokkrir Íslendingar voru meðal gesta en þó mest af dönsku vinafólki þeirra.. ásamt allra þjóða kvikindum LoL.  Stelpan var orðin svolítið pirruð áður en gestirnir komu á því að mamma hefði bara engan tíma til að sinna henni en það fór fljótt þegar snuðið var komið upp í hana og hún var búin að fá að vera í fanginu á mér dágóða stund.  Þá var mín orðin svo brött að ég varla mátti heilsa fólki öðru vísi en hún teygði sig í áttina að því og vildi fá að dvelja í fangi þeirra dálitla stund.  Að sjálfsögðu bræddi hún með því talsvert mörg hjörtu.  Maturinn var bara eins og á flottasta veitingastað með trönuberjamaríneruðum laxi og öðru sjávarfangi í forrétt og nautasteik og alls kyns gúmmulaði í aðalrétt ásamt kökum og ís í eftirrétt.. að ótöldum öllum líkjörunum og víninu sem með fylgdi.  

Halldór kom eftir sýningu en staldraði þó stutt við þar sem við vorum á þönum eftir djarfri dóttur okkar mest allan tímann og Eysteinn hafði farið fyrr heim, smitaður af magapest systur sinnar.  Ég spjallaði við þó nokkra af vinum Sigrúnar og Andý og skemmti mér konunglega.  Þetta var bara hið skemmtilegasta afmæli.  Ég hjálpaði þeim svo að ganga frá á eftir og tók leigubíl heim sem var bara hin skemmtilegasta ferð með góðu spjalli við Kúrda sem endaði á því að þakka mér fyrir ánægilega bílferð LoL.

Sigrún var ansi heppin með veður, enda sól og um 20 stiga hiti í dag þó það blési nokkuð vel.  Ég allavega sór mig í ætt föður míns og svitnaði bara og svitnaði Tounge við undirbúninginn allan.  Það var komin hin fínasta stilla þegar ég fór heim og ég hugsaði með mér að það væri eiginlega með ólíkindum að veðrið hefði verið eins ömurlegt og það var fyrir réttum sólahring síðan.  Skjótt skipast greinilega veður í lofti Joyful.

Gott að sinni

Bless í bili! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband