Aðventan

Börnin voru lengi að ná veikindunum úr sér og Jódís Guðrún nældi sér í sýkingu í tannholdið sem varð til þess að lakið var allt út atað í blóði eftir hverja nótt.  Með pensillíni (sem ég held að sé fyrsti skammturinn hennar.. ef minnið svíkur mig ekki) náði hún þó þessu úr sér en það var ekki auðvelt að koma því í hana.  Halldór greyið mátti standa í því að ganga með hana milli lækna meðan ég var í húsmæðraorlofi á Íslandi.  Ég þurfti að hafa mig alla við til að vera ekki að farast úr samviskubiti yfir að skilja hann einan eftir í þessum aðstæðum.  Það gekk að mestu leyti, þó ekki öllu.  En hann var hinn rólegasti yfir þessu öllu saman þegar ég kom aftur heim.  

Ferðin til Íslands var hreint dásamleg.  Pabbi var svo yndislegur að sækja mig á völlinn og skutlaði mér beint í mat á Núðluskálina þar sem ég fékk bæði að knúsa Sigga og Kristján auk þess sem ég náði að metta hungraðan munn eftir flugið.  Jiii hvað þetta er flott og gott hjá þeim!!!  Um kvöldið fór ég svo með Gullu út í Viðey þar sem hún var að leiðsögumannast í friðarsúluferð og var það rosalega næs þar sem hópurinn var fámennur og því túrinn miklu persónulegri.  Það var alveg frábært og algjör stilla á eynni.  Flott að sjá súluna, mánann og smá norðurljós samankomin þarna fyrir ofan eyna.  Daginn eftir fór ég með rútunni strætó á Selfoss og beint á jólatónleika í Selfosskirkju þar sem öll fjölskyldan svo til báðum megin var samankomin í söng og hljóðfæraleik.  Rosa gaman að hitta þau svoleiðis Joyful og kvöldinu eyddi ég í Baugstjörninni með tengdafjölskyldunni.  Ofsalega notalegt, eins og alltaf Smile.  Ég hitti svo Betu og Heiðu daginn eftir og fékk svo far með Önnu Árna í bæinn aftur.  Ég var svo bara í Reykjavík alla vikuna þar til ég fór og gisti hjá Sigga og Kristjáni og borðaði í Núðluskálinni.  Náði svo til að prufa alla réttina Grin sem hverjir voru öðrum betri.  Alveg hreint yyyndislegt að vera hjá þeim strákunum og henni Úmu litlu.  En sex dagar eru afskaplega fljótir að líða, sérstaklega þegar maður hefur það gott og gaman, og ég var í flugvélinni á leiðinni til Kaupmannahafnar aftur áður en ég vissi af.

Jódís Guðrún fór loksins á vöggustofuna aftur á mánudaginn og er búin að vera hin hressasta.  Hún var búin að bæta heilum helling við orðaforðann á þessum stutta tíma og þá aðallega í boðhætti: Farðu! Komdu! Sestu! Fram! og fleiri orð sem hún notaði til að skipa föður sínum fyrir verkum.  Henni fannst með hreinum ólíkindum hvað ég gat verið ósvífin að hlýða henni ekki á stundinni þegar hún ætlaði að reyna þetta á mig.  En þetta er allt á réttri leið núna þegar hún er að hressast.  Sumt má bara þegar maður er lasinn, það verður að lærast Joyful.

Já stelpan bara hætt með bleiu og hefur gengið alveg rosalega vel.  Á sunnudaginn í strætó þurfti hún að pissa og ég sagði henni að hún væri með bleiu og hún mætti alveg pissa bara í hana.  Neibb.. bleian var þurr þegar við komum heim og hún pissaði í klósettið.  Hélt bara í sér.  Hins vegar gleymdi hún sér eitthvað á mánudeginum á vöggustofunni og ,,lavede stort" eins og þær segja þar, beint í nærbuxurnar og sokkabuxurnar.  Ég fór í gær til að fjárfesta í fleiri nærbuxum þar sem það gengur ekki fyrir hana að vera í samfellum þegar  engin er bleian.  Gallinn er bara sá að það er ekki gert ráð fyrir að svona litlar og nettar stelpur hætti á bleiu.  Minnstu nærbuxurnar eru að lágmarki númeri, ef ekki tveimur númerum of stórar á hana svo þær hanga alveg utan á henni.  Hún vex í þær Wink.  

Loftslagsráðstefnan er enn í gangi hér, eins og flestir vita, og varð ég vitni að ægilega miklum mótmælum á Nørreport í gær þar sem allar götur voru lokaðar og álíka margir lögregluþjónar og mótmælendur á svæðinu.  Hér eru sko engir sénsar teknir og er daglegt brauð að sjá litla rútu-kálfa þjóta framhjá manni fulla af löggum með sírenur í botni og blikkandi ljós.  Ég hef líka séð talsvert af lögreglurútum og mikið um að heimavarnaliðið sé á rölti með lögreglunni.  Allt fullt af löggum alls staðar niðri í bæ.

Svo byrjaði bara að snjóa í gær en fyrir alvöru um það leyti sem ég var að hjóla með stelpuna á vöggustofuna í morgun.  Mig sárvantar skíðagleraugun mín þar sem öll snjókornin hreinlega soguðust að augunum á mér þannig að ég átti í mestu vandræðum með að halda augunum opnum.. sem er viss galli þegar maður er að hjóla.  Og það er bara allt að verða hvítt hérna og mér sýnist á veðurspánni framundan að við gætum bara fengið hvít jól hérna, allavega á að vera frost alveg fram að Þorláksmessu en þá gæti reyndar snjónum rignt burtu.. kemur í ljós Woundering.

Jæja, gott að sinni

Bless í bili! 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já ég var búinn að vinna heimavinnuna áður en ég fór af stað með Jódísi til læknanna, svo mikið að einn spurði mig hvor ég væri læknir og spurði svo aftur hvort ég væri þá ekki í læknanámi. Eftir þetta vorum við svo til orðnir kollegar. Svo nú eru ég dr Halldór S Bjarnason eins og dr Gunni er í tónlist!

Og mikið var gott að fá þig heim með tvo brúsa af E Finnson.

Kv dr Dóri

dr Halldór S (IP-tala skráð) 16.12.2009 kl. 23:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband