Gleðileg jól!

Við gerðum þjófstart á jólin í gær þegar við fengum til okkar Einar og Mörtu í hangikjöt.  Sendingin hafði klikkað til þeirra svo við gátum ekki látið þau fara hangikjötslaus í gegnum jólin.  Og til að fullkomna það höfðum við laufabrauð með.  Við höfðum nefnilega verið hjá Sigrúnu og Andy kvöldinu áður og skorið út laufabrauð með þeim og Erlu og krökkunum sem flogið höfðu frá Frakklandi kvöldinu þar áður.  Sigrún og Erla steiktu svo herlegheitin og Sigrún gaf mér helminginn með okkur heim.  Þetta var alveg rosalega gaman, með eplaskífum og jólaglöggi Joyful.

Allavega.. Við borðuðum dýrindis hangikjöt og svo á eftir fórum við í pakkaleik sem þau kenndu okkur.  Þá hafði hver lagt einn pakka í pottinn og svo var teningaspil og mikil læti þegar verið var að stela pökkum hægri vinstri (já í allar áttir) undir mikilli tímapressu skeiðklukkunnar.  Þetta var alveg rosalega gaman.

Svo var kominn aðfangadagur jóla sem hófst með því að feðgarnir fóru í fótbolta en í dag var sem sagt leikur, feður á móti sonum.  Synirnir unnu leikinn en mér skilst þó að þetta hafi verið harður og jafn leikur.  Eysteinn stóð sig eins og hetja, líkt og alltaf, í markinu.  Á meðan á þessu stóð dúlluðum við stelpurnar okkur hérna heima við að skreyta jólatréð og taka til ásamt því að ég byrjaði að undirbúa matinn.  En þar sem jólamaturinn í ár var hamborgarhryggur þurfti svo sem ekki mikinn undirbúningstíma.  Já, jólagrauturinn í forrétt þetta árið og enn og aftur átum við of mikið af honum, öll nema Eysteinn sem hafði vitið fyrir sér og borðaði bara pent af honum og fékk þó möndluna.  Nei, hann var nefnilega hættur að borða þegar við lögðum spilin á borðið og enginn var með möndluna.  Hann tók þá eina skeið til viðbótar af disknum sínum og viti menn.. þar var hún LoL.

Við gerðum það að ásettu ráði að fresta jólunum um klukkutíma.  Það er bara jólalegra að geta hringt þau inn með RUV og setjast að borðum og það var einmitt það sem við gerðum.  Kosturinn var náttúrulega líka sá að við græddum klukkutíma á því Wink.

Eftir nartið í kjötið (því við vorum svoooo södd) nema Eysteinn.. hann borðaði, enda ekki að springa eftir grautinn, já þá var farið í pakkana.  Eysteinn mikið spenntur en þó farinn að ná að hemja sig og gerði sitt allra besta til að njóta hverrar mínútu.  Þetta var alveg dásamlegt.  Jódís fann sig alveg í pakkahlutverkinu, var orðin ótrúlega seig að rífa utan af gjöfunum og stundum mátti hún ekkert vera að því þar sem hver spennandi hluturinn á fætur öðrum var töfraður fram undan pappírnum sem hún bara varð að fá að handfjatla og skoða.  Hreint dásamlegt að fylgjast með henni.  Eysteinn var svo ánægður með sínar gjafir að hann var að springa og við bara öll.  Þvílíkt flottar gjafir sem við fengum frá öllum.  Og, þetta voru góð bókajól.  Ég fékk frá þeim nýju Dan Brown bókina, Det forsvundne tegn, eða Týnda táknið eins og ég held hún heiti upp á íslenskuna.  Ég hafði svo keypt nýju Carlos Ruiz Zafón bókina, Leikur engilsins, handa honum og pabbi gaf okkur nýja Arnald.  Börnin fengu fullt af bókum líka, svo öll munum við liggja í bókum öll jólin Grin.  Ég get hreinlega ekki beðið eftir að leggjast uppí og byrja að lesa Arnald, því ég veit að ég fæ ekki Carlos Ruiz fyrr en Halldór er búinn, enda við búin að bíða eftir þessari bók í nokkur ár Joyful.  

Jódís mátti ekkert vera að því að fara að sofa og náðum við að setja hana upp í klukkan hálf tólf þegar hún var orðin gjörsamlega stjörf í framan (þó ekkert pirruð samt), með því að setja nánast allar gjafirnar hennar í rúmið með henni, hún bara VARÐ að fá að skoða þær allar svolítið lengur Grin.

Á morgun er svo jólaboð hjá Sigrúnu og Andy og ég hlakka mikið til að eyða deginum með þeim.  Heimalagaður ís er okkar framlag í boðið Wink.

Læt fylgja nokkrar myndir frá deginum

Jódís að skreyta tréðJódís að skreyta tréð í lit :)Himnaríkisgrjónagrauturinn borðaður með bestu lystHimneskjan í nærmyndJódísi fannst grauturinn æðislega góðurRáðist á pakkana!Allir alsælir með gjafirnar sínar

 

Elsku fjölskylda og vinir.  Okkar bestustu bestu óskir um gleðileg jól og áframhaldandi gleði eftir þau.  Tölvuknús verður að duga í bili þar til við hittumst næst.

Góða jóla-nótt! 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband