Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Þriðja helgin - viku þrjú að ljúka

Eysteinn kom mjög ánægður heim eftir fyrsta skóladaginn.  Bekkurinn tók mjög vel á móti honum og strax var hann kominn með tvo stráka sem hjálpuðu honum um skólann og tóku hann með sér í fótbolta í frímínútum.  Og það besta: Síðasti tíminn á föstudögum er tónlistartími, "og það eru sko ekki einhverjir gaultímar eins og heima, það eru trommur og gítar og bassi og fleiri hljóðfæri og fullt af hljóðnemum, bara risa-hljómsveit".  Alveg æðislegt bara.

 Jódís Guðrún var bara orðin hress í gær fyrir utan.. jah, við skulum orða það þannig að ég held að það hafi farið u.þ.b. 20 beiur yfir daginn.  Við drösluðum henni nú samt á loppumarkað í Søborg, sem er rétt fyrir norðan okkur, og á annan við Trianglen.  Kalli kom með strætó um morguninn frá Pétri Steinsen en hann hafði gist hjá honum um nóttina og við drösluðum honum líka með okkur Joyful.  Við fundum nú ekki skrifborð eins og við vorum að vonast eftir að finna en ég fann ægilega sætt bollastell fyrir 20 kall og gamaldags sporöskjulega ramma sem náttúrulega eru ómissandi á hverju heimili og því ekki hægt að láta það  happ úr hendi sleppa Tounge . 

Við elduðum svo ægilega fínt lasagna í kvöldmatinn og Pétur kom eftir vinnu hjá sér og borðaði með okkur.  Við Kalli sátum svo bara að blaðri frameftir kvöldi og hann fór svo fyrir 9 í morgun þar sem hann þurfti að ná flugi um hádegisbilið aftur heim til Færeyja.

Í eftirmiðdaginn fáum við svo heimsókn frá Dóra nokkrum en hann er líka í fjarnámi í einum kynjafræðikúrsinum og ætlum við að grúppa okkur saman í Kaupmannahafnarhóp fyrir hópverkefni í þeim áfanga.  Skemmtilegt að við skulum vera tvö hérna í áfanganum Smile.

Meira síðar,

ciao! 

 


Fyrsti skóladagurinn

Gærdagurinn var undirlagður Lasarusi hér á bæ.  Jódís Guðrún svaf einhverja 20 tíma og mókti hálf snökktandi hina fjóra.  Hún er heldur hressari í dag en vill samt sofa helling.  Eysteinn Aron var bara slappur og las bara og spilaði Playstation, svona eins og undanfarna daga bara Cool  

En í dag röltu þeir feðgar saman í skólann og Eysteinn hafði þá farið í sturtu, greitt sér og klætt sig í "kúl" föt svona til að vera alveg pottþéttur.  Litli drengurinn minn Undecided.  Halldór hringdi síðan í mig eftir að hann hafði afhent kennaranum hann og sagði að Eysteinn hefði verið hinn svalasti yfir þessu öllu saman en röddin í honum sjálfum hefði verið við það að bresta þegar hann kvaddi hann.  Ég hlakka mikið til að heyra frá Eysteini á eftir og vita hvernig honum leist á þetta allt saman.  

Á meðan reyni ég bara að nota þessar mínútur sem stelpan sefur til að læra og reyna að halda í við námsefnið svona eins og kostur gefst þar til ég get hellt mér að fullu í lærdóminn þegar stelpan byrjar á vöggustofunni.  Verstur fjandi að hún skyldi veikjast núna því þá dregst aðlögunin enn frekar, en a) við vorum mjög heppin að hún skyldi komast strax að og b)  ég vissi náttúrulega að hún myndi byrja á því að leggjast í pest um leið og hún kæmist í snertingu við önnur börn og tala nú ekki um útlenskar bakteríur.  Hún verður orðin fín á mánudaginn til að halda áfram :)


Lasarusar á heimilinu

Jæja í gær var fyrsti dagurinn í aðlöguninni sem stelpan átti að vera ein. Það var búið að taka til tvo vagna þegar við komum á svæðið og það átti að fara í göngutúr með nokkra krakka, þessa nýjustu og nokkra í viðbót svona til að krílin finndu minna fyrir því að vera ekki hjá mömmu eða pabba. Fóstran spurði mig hvort ekki væri best að hún tæki bara stelpuna og setti hana í vagninn, jújú sagði ég og rétti henni Jódísi Guðrúnu sem leit á mig með skelfingarsvip og fór að háskæla. Þær fóru saman inn að sækja snuð handa henni í töskuna hennar og Jóga orgaði allan tímann. Ég rétt náði að fela mig bak við runna þarna áður en tárin fóru að trítla. Svo beið ég þar í smástund og sá að það var auðvitað allt í lagi bara um leið og hún fékk snuðið sitt.

Ég rölti mér svo eitthvað þarna um svæðið til að finna eitthvað að gera því ég átti ekki að sækja hana aftur fyrr en eftir klukkutíma þá sé ég hópinn í svolítilli fjarlægð að ganga í stórum garði rétt við.  Tveir vagnar með Jódísi minni í öðrum og stelpu sem sat á móti henni og í hinum voru líka tvö börn og svo þrjú kríli að labba með.  Þetta var hrikalega krúttleg sjón Joyful

Ég sótti hana svo eftir klukkutímann og við fórum okkur heim og Halldór kom svo úr vinnunni um 5 leytið með stílabækur og skriffæri sem hann hafði keypt handa Eysteini fyrir fyrsta skóladaginn.  Ég eldaði handa okkur þetta fína hakk og spaghetti og þá sá ég Søren nágranna okkar og hjólaviðgerðarmann eitthvað að dedúa við hjól þarna úti með barnastóli á svo ég sendi Halldór út til hans að tala við hann um hjól.  Þarna sá ég hann prufa nokkur hjól og festi sér svo eitt helv... gott svona með hrútastýri, sem verður reyndar skipt út fyrir venjulegt stýri, þetta var víst full mikið Tour de France að Halldórs mati.  B.t.w. hjólið sem hann hafði verið að vinna í var mitt hjól Grin sem ég fæ vonandi bara um eða eftir helgi.

Stelpan var orðin ansi erfið fyrir og um matarleytið svo eftir að við vorum búin að ná að gefa henni smá spaghetti þá settum við hana í bað, hún var svo gjörsamlega búin á því að hún var eiginlega stjörf.  Við lögðum hana svo og Eysteinn kom allt í einu bara milli 9 og 9:30 og kyssti okkur góða nótt.  Hafði fengið svo ægilega skemmtilegar bækur frá Kirkjuveginum fyrr um daginn að hann gat ekki beðið eftir að leggjast upp í rúm og halda áfram að lesa.  Upp úr 10 er hann sofnaður og Jódís kallar og þá situr hún í rúminu sínu útældu.  Allt rifið upp og skipt á og sett nýtt, hún lögð, 10 mín. síðar er allt orðið útælt aftur.  Þegar ég svo skolaði úr lökunum í baðinu þá skildi ég ekkert í því að ég stóð alltaf í polli, þá frussaðist upp úr niðurfallinu á gólfinu.  Greinilega eitthvað stíflað.  

Ég lagði mig nú ekkert löngu síðar enda mjög slöpp og græn í framan eftir að hafa verið að skola úr rúmfötunum og svo vakna ég upp við það um 2 leytið að Eysteinn Aron er að kasta upp.  Greyið mitt sat fyrir framan klósettið en hafði ekki náð alla leið svo það var slatti á ganginum og á gólfinu í herberginu og svolítið á rúminu.  Úff hvað ég þurfti að taka á honum stóra mínum, enda var ég næstum búin að kasta upp þegar ég skolaði rúmfötin hans með vatnið upp að ökklum.

Þannig að ég þurfti að hringja í skólann þennan fyrsta skóladag og tilkynna hann veikann.  Ömurlegt!  Svo vaknaði stýrið litla og ég tók hana og þegar ég var að skipta á henni og klæða hana þá bara sofnaði mín, aaalveg búin á því.  Svo ég fór bara með hana inn í rúm og hún bara sefur þar.  Drekkur vatn öðru hvoru og heldur um vatnsbrúsann sinn eins og bangsa en er svo slöpp að hún heldur ekki augunum opnum.  Angakellingin.

Á morgun ætlar svo Kalli að koma, það verður voða næs.  Hann er kominn til Køben í einhverja vinnuferð og ætlar svo að koma til okkar eftir að það er búið og vera hjá okkur yfir helgina.  Ég hlakka voða mikið til Grin

Jæja, ætla að fara að hella mér uppá kaffi og reyna að koma einhverju oní mig.

Over and out.. í bili Wink 


Aðlögun og skólamál

Rétt um 9 leytið í gærmorgun rölti 3/4 hluti fjölskyldunnar upp á Emdrup Torv í mildu morgunveðrinu.  Þar skildust leiðir, Halldór stökk upp í 6A til að fara í vinnuna og við stelpurnar máttum bíða ögn eftir okkar strætó á leið í aðlögun á vöggustofunni.  Sú stutta er orðin ansi sjóuð í strætórúntunum og nú veit ég ekki hvort það er ökukennslunni hérlendis eða strætisvögnunum sjálfum um að kenna en ég hef nú upplifað notalegri ökuferðir en með strætóleiðum Kaupmannahafnar.  Það er tekið af stað með slíku offorsi að maður á fullt í fangi með að halda vagninum á sínum parkeraða stað þó hann sé læstur og ótrúlegt að ég hef enn ekki séð neinn fljúga út um framrúðuna þegar stoppað er á rauðu ljósi.

 Þegar við komum að garðinum þar sem við áttum að mæta hékk uppi miði á hliðinu þar sem á stóð ,,Velkommen til Vuggestuen Jodis og Oliver" Mér fannst það sætt Smile  

Við hittum þar fyrir stelpuna sem hafði tekið á móti okkur síðastliðinn fimmtudag þegar við fórum að skoða vöggustofuna og hún sótti svampmottur fyrir okkur tvær að sitja á við sandkassann og þar sat svo Jódís hjá okkur og lék sér í sandinum og reif skófluna alltaf öðru hvoru af jafnöldru sinni sem var að leika sér "við" hana.  Á meðan röbbuðum við fóstran um hvernig allt gengi fyrir sig á vöggustofunni.  Áður en langt um leið var sú stutta búin að klifra uppúr sandkassanum og farin að skríða út um allan garð og finna sér spennandi hluti til að klifra uppá, bíla til að ýta og hjörtu til að ræna, því allar fóstrurnar og jafnvel foreldrar sem voru með börnin sín í aðlögun þarna voru öll farin að halla undir flatt og hlæja svolítið að þessari rófu sem bossasentist um allt hvergi ósmeyk og brosti sínu blíðasta.  Hún tók ekki einu sinni eftir mér það var svo gaman hjá henni.  Hún tók strax fóstruna í sátt og hún mátti halda á henni og reima skóna hennar og allt þarna bara einhverjum hálftíma eftir að við komum.  Það var ekki fyrr en óprúttinn strákur kom og barði hana í hausinn með skóflu.. (jæja ok, hann rak hana óvart í hausinn á henni) að hún fór að líta í kringum sig og þegar hún sá mig þá fór hún að skæla og vildi komast til mín.  En svo þegar við fórum fór hún aftur að skæla.  Hún vildi aaalls ekki fara.

 En við fórum nú samt og þegar við komum heim þá sá ég að skólinn þar sem þessi modtagelsesklasse var, sem Holberg skole vildi endilega senda Eystein í fyrst, hafði enn ekki haft samband við mig og þá var mér nóg boðið.  Ég settist því niður og sendi skólastjóra Holberg skole langt og ýtarlegt bréf þar sem fram kom að nú hefðum við sýnt og sannað að við værum öll að vilja gerð til að vinna með skólanum og hefðum verið mjög svo þolinmóð að bíða eftir að hann kæmist inn í skóla, þrátt fyrir að við hefðum mótmælt því að hann færi í e-n sér modtagelsesklasse í allt öðrum skóla en nú væri nóg komið og við vildum að færi inn í bekk núna.  Ég bað auk þess um fund með honum á morgun (í dag) til að ræða þessi mál öll.  Þetta langa góða bréf skrifaði ég á minni góðu dönsku (og smá hjálp frá google transilate, segi það ekki Halo ) og hann virðist hafa skilið mig svona að mestu leyti allavega því þegar við komum svo heim seinna um daginn eftir að hafa verið í verslunarleiðangri niðri í bæ þá beið mín langt bréf frá þessarri konu sem ég hef verið í mestum samskiptum við (skólastjórinn hefur því greinilega áframsent bréfið á hana) þar sem fram kom að hann ætti að byrja í Holberg skole (skólanum sínum) á fimmtudaginn næsta og að hún baðst innilegrar afsökunar á að okkar fyrstu kynni af skólakerfinu í Danmörku hefðu verið á þennan veg.

Takmarkinu náð!! 

Núna er svo Halldór í aðlögun með stelpunni á meðan ég er að læra Whistling  þar sem hann á ekki að mæta til vinnu í dag fyrr en klukkan hálf fimm... lúxus!!!

Er þetta ekki bara orðið fínt í bili?

Hilsnur! 


Fyrsta færsla!

Jæja...

Á morgun eru komnar tvær vikur frá því við fluttum hingað til Kaupmannhafnar.  Það er svo ótrúlega margt búið að gerast á þessum tveimur vikum að manni finnst þær vera orðnar fjórar ef ekki fleiri.

Við Jódís Guðrún erum að byrja aðlögun á vöggustofunni í fyrramálið (og þá meina ég náttúrulega VIРBlush ) Oh, þetta er alveg yyyndisleg vöggustofa í rólegu íbúðarhverfi og garður í næstu götu við hana sem tilheyrir alveg vöggustofunni og starfsemin fer algjörlega fram þar á sumrin og svo langt fram á haustið sem veður leyfir.  Og starfsfólkið var allt svo yndislegt.  OOOg.. í landi nestisins er barasta heitur matur í hádeginu alla daga nema föstudaga, så skal man ta' med en madpakke.  Maður hefði náttúrulega bara fengið menningasjokk ef það hefði ekki verið nesti einhvern daginn!  

Annars hefur ekkert gengið að fá drenginn inn í skólann og er mér fyrir löngu hætt að finnast þetta sniðugt.  Eftir mikil bréfaskrif fram og tilbaka við skólann síðustu tvær vikur ákváðum við Halldór að láta sko ekki bjóða okkur þetta lengur og fara bara og berja í borðið hjá skólastjóranum.  "Her til og ikke videre!"  Konan á kontórnum sem á móti okkur tók var hin almennilegasta "Nej, desværre er alle på kontoret og alle lærere i skolen på kursus."  Svo við máttum snúa heim með skottið milli lappanna og plana SKO að láta þá heyra það á mánudaginn.  En þetta er náttúrulega ekki hægt að hann sé ekki byrjaður í skólanum ennþá og önnur vika í september vel á veg komin.

 Svo við snúum okkur að skemmtilegra stöffi þá komu Pétur Steinsen, Doris og litla krúttið þeirra Tanía Ósk í gær og höfðu meðferðis dýrindis íslenskar lambalærisneiðar sem Pétur var búinn að láta liggja í marineringu í rúman sólahring og við skelltum þessu á grillið og borðuðum hér úti í garði með tilbehør í yndislegu veðri.  Eftir kaffi og eftirrétt hjóluðu þau sér svo heim og þá var klukkan orðin rúmlega níu og veðrið enn alveg frábært.  Dagurinn í dag var svo tileinkaður lestasamgöngunum þegar við fórum til Valby að hitta fuglaparið og góðvini okkar Lóu og Þröst Smile.  Við röltum svo í miðbæ Valby með Lóu og fengum okkur æðislegan bröns á kaffihúsi og sátum að sjálfsögðu úti enda, enn einn daginn, alveg frábært veður og við vorum sko ekkert að drífa okkur heim.  S-tog og Metro kerfið var nýtt til fullnustu í þessari ferð, soldið þægilegra en strætóinn, verð að segja það  Joyful þó síðustu metrana hafi verið ósköp gott að geta hoppað upp í strætó og stytt gönguna um nokkur hundruð metra.

 Við vorum nú svolítið búin á því þegar við komum heim, það verður nú bara alveg að viðurkennast, svo feðgarnir röltu sér til Ítalanna á horninu og sóttu pizzu og franskar -að sjálfsögðu með remúlaði Tounge og svo ákvað ég að það væri ekki hægt fyrir dömuna að byrja á vöggustofunni með þennan lubba sem vaxinn er á hana svo ég fann til klippisettið góða og snyrti hana svolítið til.  Henti henni svo í bað og uppí rúm.  Ég sit núna ein vakandi og síðasti maður LÖNGU farinn að sofa.  Hér er bara yfirleitt komin kyrrð upp úr 10 enda annasamir dagar þá að kveldi komnir.  Svona á þetta náttúrulega að vera Smile.

 

Jæja, hendi hérna inn myndum af nýklipptri dömunni

 Fyrir klippingu

 Fyrir klippingu I

Fyrir klippingu II 

Fyrir klippingu II

Eftir klippingu I 

Eftir klippingu I

Jóga '62 

Eftir klippingu II

 

Svo ákvað ég að poppa aðeins upp hárgreiðsluna á syninum líka og læt mynd af honum flakka með:

msmmsss 

Allt annað að sjá börnin!

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband