Færsluflokkur: Dægurmál

SEX...

...dagar í heimferð!

Við erum farin að hlakka til!!! Wizard 


Jájá...

Ég var farin að skilja af hverju sumar konur hérna ganga með slæðu yfir hárið og var því að því komin að biðja Pétur um að skella í eina handa mér á saumavélinni (hér vitna ég í brandara sem gengur út á það að Pétur er í saumaklúbb hérna þar sem nokkrir vinir hittast vikulega á stað og fá sér kaffi en þar eru nokkrar saumavélar og Halldór, sem alltaf er í andstöðu við femíníska hugsun betri helmingsins, bað hann um að sauma slíka handa mér um daginn).  Þannig að ég fékk Lóu til að koma og redda þessu, skella hárlit í mig í gær þar sem rótin var nærri komin niður fyrir eyru... hryllingur!  Allt annað að sjá upplitið á frúnni núna.

Eysteinn ræfillinn kom heim með hausverk og var því farinn uppí fyrir klukkan sjö og við stelpurnar vorum því einar að dúlla okkur hérna þar sem Halldór var í dönskutíma.  Sú stutta er skynsöm.  Alltaf þegar við sækjum hana á vöggustofuna fær hún að fá snuddu þar sem hún fær ekki að hafa slíka á vöggustofunni nema þegar hún sefur.  Við höfum því komið þeirri reglu á að fyrir kvöldmatarleytið segjum við henni að fara með snuðið inní rúm svo hún hlakki til að fá það þegar hún fer að sofa.  Í gær var hún með snuðið, eins og venjulega Joyful þegar ég sagði við hana ,,Jódís, farðu með snudduna inní rúm".  Fyrst sagði hún "Nei!" og ég endurtók þetta bara og hún tók þá aðra snuddu sem var á borðinu og ég rétti henni Gutta og sagði henni að fara með snuðin og Gutta inn í rúm.  Hún virtist ekki ætla að hlýða mér og var að reyna að komast upp í sófann.  Hún komst uppí sófann með bangsann í annarri, snuddu í hinni og aðra uppí sér.  Þá sá ég að hún hafði tekið eftir snuði upp í sófanum og var að sækja það.  Hún tók því snuðið og fór strax niður á gólf og rölti sér inní herbergi þar sem hún byrjaði á því að henda snuðunum í rúmið, svo Gutta og að lokum tók hún út úr sér snuðið og henti því sömu leið.  Kom svo ægileg góð með sig tilbaka Grin.

Eysteinn var svo kominn á fætur hálfsjö í morgun eftir 13 tíma svefn.. útsofinn! LoL  Skólinn hans er þátttakandi í tilraunaverkefni um heitan mat í hádeginu og því fær hann öðru hvoru núna heitan mat (aðeins um 5 í bekknum í einu sem fá heitan mat) og þau eiga að skrá niður hvort þeim líki maturinn á eftir og þ.h. ...finnst eins og ég hafi skrifað þetta áður FootinMouth... allavega, þá er heitur matur í dag hjá honum svo hann var alsæll að þurfa ekki að fá með sér nesti í dag... ég líka LoL.  En það passar samt, það er föstudagur og því nestisdagur hjá Jódísi.  Svei mér þá, höfum bara ekki gleymt nesti frá því í október eða eitthvað.. vá hvað við erum dugleg Wink!

Jæja... gott í bili! 


Vorlykt í lofti

Það er orðið svo yndislegt og auðvelt að fara á fætur á morgnana núna.  Sól og stilla, brum á trjám og blómaknúppar farnir að opna sig.  Við gengum um mosann (Utterslev mose) í gær-eftirmiðdag og það var svo yndislegt.  Kalli og mamma hans, Svava, auk Ellu og mannsins hennar, eru að koma hingað út í dag og verða í viku í íbúð í Fredriksberg.  Það verður voða gaman að sjá þau Joyful.

 Annars er dóttir mín svo mikið matargat að hún fékk fyrst kornflex í morgunmat, búin að fá svolítið brauð og svo skar ég peru niður fyrir hana og setti á disk á stofuborðið.  Hún stóð nú við eilitla stund en kom svo til mín með perusneið og vildi setjast hjá mér.  Þá var hún búin með alla peruna á disknum og hún er nú vel á veg með að klára aðra peruna LoL... litla matargatið mitt!  Já, við Eysteinn horfum bara öfundaraugum á þau feðgin.  Sumum er þetta gefið Errm.

Jæja já... í dag eru semsagt 9 dagar þangað til við komum heim.  Við eigum bestu bestu bestu foreldra í heimi sem bjóða okkur heim.  Við hlökkum SVOOOO til að sjá ykkur Grin


Góð helgi að baki

 

Þeir Pétur og Einar kíktu á okkur fjölskylduna í pizzu á föstudagskvöldið, svona líka ljómandi gaman.  En á laugardeginum höfðu Sigrún og Terry boðið okkur heim til sín.  Þau eru reyndar löngu búin að bjóða okkur að koma en hver helgin á fætur annarri hefur þotið hjá með lærdómi og öðru svo nú ákváðum við bara að fastsetja þessa helgi, þetta var náttúrulega bara ekki hægt!

Við tókum lest til þeirra á laugardagseftirmiðdegi og Terrý kom og sótti okkur til Slagelse.  Hann var búinn að fá lánaðan þennan fína barnabílstól og við vorum nú frekar hrædd um að stelpan myndi hreinlega urlast þegar hún yrði fest niður í hann þar sem hún hefur ekki setið í barnabílstól síðan heima á Íslandi.  Hún var ekkert sérlega hress fyrst, enda nývöknuð þar sem hún svaf nánast alla leiðina í lestinni, en þó var hún bara hin besta mestan part af leiðinni.  

Að leggja í ferðina til Sigrúnar og Terry

 

Á NørreportÍ lestinni

Ægilega sem þau búa í sætu þorpi þarna upp í sveitinni.  Sigrún tók á móti okkur með vöfflur og nýuppáhellt kaffi og svo var allt í einu bankað uppá.  Þá var það íslenskur nágranni þeirra ásamt danskri konu sinni, en þau voru nýbúin að uppgötva að þarna byggju semsagt tvær "íslenskar" fjölskyldur í sama þorpi, og búin að gera síðan Sigrún og Terry fluttu.  Hún hafði verið á Íslandi fyrir nokkrum árum síðan í tengslum við hesta og náð sér í manninn og flutti með hann með sér tilbaka Joyful.  Hún skildi vel íslensku svo það var til skiptis töluð íslenska og danska og bara ljómandi gaman.

Terrý tók svo til við að elda handa okkur dýrindis andasteik í karrý-kókossósu með tígrisrækjum í forrétt.  Að sjálfsögðu og auðvitað var þetta skelfilega gott!!! Tounge  Stelpan var hin hressasta þarna, var fljót að gleyma feimninni og átti í litlum vandræðum með að láta bæði Sigrúnu og Terrý halda á sér og dekra við sig.  Eysteinn var alveg búinn á því upp úr klukkan 10 svo við sátum þá bara að góðu spjalli frameftir.  Þetta var náttúrulega BARA gaman Grin.

Ég var vakin upp með egg og beikoni daginn eftir, þessi líka æðislegi bröns borinn á borð og svo voru krakkarnir úti í garði að leika sér, Jódís var reyndar skíthrædd við litla sæta nágrannakisu sem var á vappi þarna í kringum okkur en á endanum var hún alveg að fíla sig við að elta hana og reyna að klappa henni (eða rífa í hana LoL).  Veðrið var alveg yndislegt og knúppar að koma á mörg trén. 

Sigrún að sýna okkur garðinnAlsæl á hjóliSigrún að ganga frá eftir brönsinn...og þurrka af borðinuKrakkarnir að leik

Terrý skutlaði okkur svo aftur á lestina um eitt leytið og við komum við í búð á heimleiðinni og keyptum okkur í ægilega góðar mexíkanskar pönnukökur.

Í Spar að kaupa kvöldmat

 Stelpan svaf og svaf og við lágum bara í notó-leti það sem eftir lifði.  Ég horfði svo á Önnu Pihl um kvöldið, ný sería að byrja Wink.  Við vorum sko mjög sátt eftir skemmtilega helgi.

Takk fyrir okkur elsku Sigrún og Terrý! 

 

 

 


Þvílíkur dagur!

Um hádegisbilið ákváðum við Lóa að hittast í kaffi niðri við Nørreport og þegar ég var að ganga inn í 6A kemur allt í einu rosa dynkur á bílinn.  Þá hafði strætisvagninn verið var að leggja fyrir aftan okkar keyrt á okkar vagn.  Gluggi aftari vagnsins var mölbrotinn og rúðuþurrkan ónýt.. að öðru leyti sýndist mér ekki neitt skemmt.  

Þar sem við sátum inni á kaffihúsinu sáum við Lóa að það var byrjað að snjóa.  Það var hundleiðinlegt veður þegar við komum út, blaut snjókoma og vindur.  Nema hvað, ég stekk upp í 43 heim á leið og stekk úr honum, í hundleiðinlegri snjókomunni ennþá, og sé að það er grænt á gönguljósinu og hleyp yfir götuna.  Þá þurfti ég að bíða ögn eftir að hin ljósin yrðu græn til að geta komist áfram heim.  Þegar það er að koma grænt heyri ég hátt BAMMMMM!! fyrir aftan mig.  Ég leit snökt við og sá konu á hjóli hendast af glugga bíls og á götuna.  Ég hljóp strax til hennar og maðurinn á bílnum þaut strax að.  Einhver ætlaði að rífa hana af miðri götunni og færa hana á gangstéttina en áður en ég náði að opna munninn öskraði hún alveg ,,NEEEI... ekki hreyfa mig!"  Þar sem hún kenndi til í bakinu og fótunum vissi hún, vinnandi á sjúkrahúsi, að það mætti ekki hreyfa hana frá staðnum.  Við vorum nokkur sem stóðum hjá henni og hlúðum að henni þar til sjúkrabíllinn kom... og slökkviliðsbíllinn skömmu síðar... skildi það ekki alveg FootinMouth.  Það var eldri maður sem keyrði á hana og stóð hann yfir henni alveg í sjokki karlanginn og ég spurði hvort það væri allt í lagi með hann, enda virtist enginn taka eftir honum eða virða hann viðlits.  Jú, hann sagðist vera ok, en auðvitað sá maður að hann var í taugaáfalli yfir þessu. Þar sem ég varð í raun ekki vitni að slysinu sjálfu og vissi ekki hvernig það bar að þá dreif ég mig bara heim enda alveg að frjósa úr kulda eftir alla snjókomuna.  

Halldór var að klára heimalærdóminn þegar ég kom heim og stelpan óvenju pirruð eitthvað, svo ég reyndi bara að leika svolítið við hana og náði að koma henni úr versta skapinu.  Halldór dreif sig í tíma og um kvöldið vorum við Eysteinn svo að undirbúa hann fyrir dönskukönnun sem er núna orðin vikuleg.  Hann hefur núna tvisvar tekið hana, upplestur o.þ.h. og gengið bara mjög vel, enda er Lykke, kennarinn hans, mjög ánægð með hann og segir það koma sér skemmtilega á óvart hvað hann er góður í dönskunni.  Nú stefnum við bara á enga villu í könnuninni á morgun og ef hann vandar sig veit ég að hann nær því Smile.

Annars er ferlega kalt í dag, eins og fyrr segir búið að snjóa og bara ferlega napurt.  Við sem héldum að vorið væri komið!... Og ekki bara við Íslendingarnir, heldur eru Danirnir alveg rasandi yfir þessu hreti líka Pinch


Jódís Guðrún og tennurnar

Nú ryðjast hreinlega tennurnar niður og upp hjá Jódísi Guðrúnu.  Hún var sem sagt komin með tvær tennur í neðri góm, aðra framtönnina í efri og þar við hliðina á, auk tannarinnar við hlið hinnar framtannarinnar (sem ekki er komin).  Núna er farinn að koma upp jaxl í neðri gómi, það vantar enn tönn á milli hans og þeirra tveggja sem komnar eru og svo tók Eysteinn eftir að það er að koma niður jaxl í efri góm líka.  Svo nú er hún komin með sjö tennur á víð og dreif um góminn.  Hún lítur út eins og Gilitrutt stelpugreyið LoL.  Ég læt fylgja með mynd af tanngarðinum á henni sem tekin var um daginn.  Nýju tennurnar eru orðnar aðeins stærri og eins og fyrr segir komnir tveir jaxlar einhvers staðar þarna líka en í meginatriðum lítur gómurinn á henni svona út

Jóga og tennurnar

 


Saltkjöt og baunir...To kroner!

Við vorum, eins og færslan á undan sagði, boðin í mat til Sigrúnar og Andy.  Hún hafði nefnilega keypt saltkjöt og rófu í síðustu ferð sinni á Frón svo nú skyldi haldin veisla.  Við komum við í búðinni því maður á jú að leggja til drykkjarföng þegar manni er boðið í mat ekki satt?  Við stóðum fyrir framan rekkann og reyndum að átta okkur á hvað passaði. ,,Saltkjöt og baunir og rauðvín?... Neeei... Saltkjöt og baunir og hvítvín?... neeei..." svo bjórinn varð ofaná í þetta skiptið.  Okkur þótti það passa svona best með, án þess þó að gera okkur beint í hugarlund hvernig það væri.  Þegar við mættum á svæðið voru náttúrulega höfðinglegar móttökur, eins og við mátti búast, og við skemmtum okkur vel að skoða gamlar myndir af ömmu og afa og mömmu og pabba, myndir frá áttræðisafmæli afa, jiiiii hvað allir voru unglegir LoL.  Þar sáum við einmitt myndir af Önnu Lóu þegar hún var lítil skotta og þá skyndilega áttaði ég mig á hvaða svipur þetta var á Jódísi sem ég þekkti en hafði ekki komið fyrir mig hvaðan.  Þaðan!  Það er einhver skemmtilegur svipur sem gerir þær að mörgu leyti alveg ótrúlega líkar.  

En allavega, svo kom að maturinn var á borð borinn og... Ó MÆ GÚOT hvað þetta var gott!!!  Við sátum þarna og slöfruðum í okkur.  Ég hef ALDREI séð Jógu borða svona mikið, hún át hverja gullrótina og kartöfluna og rófuna á fætur annarri og við gáfum henni pínu kjötbita, þorðum ekki að gefa henni mikið, en henni fannst það ægilega gott.  Hún var bara hreinlega botnlaus.  Eftir var auðvitað ís og Ben and Jerry's og mikið spáð og spekúlerað hvaða ís væri bestur af þeim þremur sem á borðið var sett.  Það var eiginlega alveg jafn gaman eins og það var gott að borða þá.

Þegar við komum var sú stutta ægilega lítil eitthvað og feimin en það rjátlaðist nú auðvitað ótrúlega fljótt af henni og áður en kvöldið var úti var hún farin að sitja í kjöltu Sigrúnar og benda ,,Dííí" í bókina sem þær voru að skoða.  

Þetta var ótrúlega næs og við gengum mjööööög södd og sæl í burtu frá þeim, Eysteinn reyndar aðeins of saddur og eiginlega með verk í maganum af ofáti greyið Blush.

Takk fyrir okkur! 


Hér er annað hvort of eða van...

...eða: Harðlífi eða drulla, eins og maðurinn minn myndi orða það Wink

Ég mátti bara til með að henda inn annarri færslu þar sem ég kem svo uppveðruð úr Jónshúsi þar sem haldin var samkoma í tilefni dagsins.  Kolbrún Halldórsdóttir kom og hélt tölu um hennar baráttu í þágu kvenna og kvenfrelsis og hvernig gengið hefur að reyna að koma málum í gegn um Alþingi vort.  Það er hreint ótrúlegt hvers lags Stofnun (-með Stóru ESS-I) það er.  Mál eins og bann við umskurði kvenna og stúlkubarna... maður skyldi ætla að það myndi renna ljúflega í gegn, en nei, hún þurfti að leggja það nokkrum sinnum fram áður en það komst til afgreiðslu og atkvæðagreiðslu Alþingis.  Og hún týndi til fleiri og fleiri mál sem varðar ofbeldi kvenna og barna, sem annað hvort eru kæfð í Allsherjarnefnd, í endalausum skýrslu- og rannsóknarferli eða fólk treystir sér ekki til að taka á.  Mitt femíníska hjarta tók heljarstökk við að heyra að þetta skuli vera svona í okkar frjálsa og siðspillta-lausa landi (LoLLoLLoL).  Hún sagði að vinnan að þessum málum kvenna og barna, mál sem við teljum sjálfsögð mannréttindi, væri eins og að ganga í hafragraut með tyggjó undir skónum (Joyful frábær samlíking sem segir meira en mörg orð) en að dropinn holaði steininn og hún hefði það að leiðarljósi.  Hafi þetta verið framboðsræða, þá virkaði hún!  Ef ekki, þá virkaði hún samt Joyful.

Kvennakórinn söng nokkur lög og Sigrún bauð mér upp á hlaðborð sem var þarna á vegum kórsins, ægilega gott og svo fylgdi með því vínglas Grin.  Svo voru fyrirspurnir til Kolbrúnar og við hefðum getað verið þarna í allan dag, auðvitað, því þessi mál varða okkur öll.  Það var bara vel mætt, eiginlega fullur salur (reyndar með kvennakórnum meðtöldum) og ég er voða ánægð að hafa drifið mig.

Nú erum við að fara að hafa okkur til því Sigrún og Andy eru búin að bjóða okkur í saltkjöt og baunir á eftir, svo Sigrún býður mér þá bæði í hádegis- og kvöldmat í dag LoL.   


8. mars - Alþjóðlegur baráttudagur kvenna!

Fyrirgefið þögn mína!  Ég var í prófi á föstudaginn og laugardaginn.  Já, þetta var 30 tíma próf svo öll vikan fór í próflestur og svo hófst maraþonið klukkan 10 á föstudagsmorgun.  Gekk bara ágætlega held ég Smile.

Þegar ég var búin að senda prófið inn um 5 leytið í gær þá fór ég út og hitti feðga sem voru með skæruliðasnúllurassinn í göngutúr, og við fylgdum Eysteini yfir til Magnusar, sem var með vídeókvöld fyrir nokkra vini sína og bauð Eysteini líka Smile ægilega gaman.  Hann átti að koma með sængina með sér þar sem strákarnir áttu að gista.  Ég hlakka til að hitta hann eftir þetta og heyra allt um kvöldið.  Við Halldór röltum okkur svo í búðina og heim, Pétur kíkti yfir í lasagne og svo höfðum við það bara ægilega næs um kvöldið.

Annars er lítið að frétta af okkur sko...

nema kannski að... VIÐ ERUM AÐ KOMA HEIM um páskana.  Jiiiiii við hlökkum svooooo til Grin Fljúgum heim 28. mars.  

---

 Þegar ég fer á fætur smeygi ég mér í prjónapeysuna hans Halldórs sem hann hafði verið í deginum áður.  Ég kem inn í eldhús og Halldór tekur utan um mig ,,Mmmmmm hvað er góð lykt af þér" segir hann ,,-hvað er þetta?"  Ég lít niður á mig og segi ekkert... hann segir: ,,Já, þú ert í peysunni minni!" LoL   

  


Hún var nú allavega mjög tillitssöm í þetta skiptið.

Já, ég fékk að taka prófið á mánudaginn var áður en stelpan kom svo heim frá vöggustofunni... með hita Crying.  Hann jókst svo bara um kvöldið og í gær var hún orðin alveg hundlasin. 

En svo við byrjum nú á byrjuninni þá fórum við fjölskyldan saman í bakaríið á sunnudaginn og keyptum þessar líka flottu fastelavns-bollur.

Eysi Rock!

 

Namminammi bollur

 

Brosir svo blítt til bróður síns

 Það var nefnilega fastelavn á mánudeginum.  Þá fór bekkurinn hans Eysteins í dýragarðinn í tilefni dagsins, víst orðin eitthvað of fullorðin fyrir búninga og þess háttar.  Fyrir þá sem ekki þekkja (sem ég held að séu ansi fáir) þá er fastelavn svona sambland af öskudeginum og bolludeginum.  Búningar, kötturinn sleginn úr tunnunni og allt það og svo bollurnar með rjómanum og súkkulaðinu.  Þá rifjast nú upp fyrir mér fastelavn fyrir 23 árum síðan þegar tvær stöllur gengu í búningunum sínum íbúð úr íbúð í Farum-midpunkt, syngjandi:

Bolle op, bolle ned,

bolle vil jeg have.

Hvis jeg ingen bolle får,

så laver jeg ballade. 

Svo lærðum við enn sniðugri söng sem gæfi meira í aðra höndina og sungum þá:

Penge op, penge ned,

penge vil jeg have.

Hvis jeg ingen penge får

så laver jeg ballade.

Ef ég man rétt þá fengum við nú eitthvert klink þarna eftir daginn, en ég man samt mest eftir því að einhver sagðist ekki eiga pening og gaf okkur sitthvort eplið.  Vá hvað við vorum skúffaðar.  Epli!!! FootinMouth

En á vöggustofunni átti að vera einhver skemmtun um daginn og krakkarnir máttu koma í búningum.  Ég steingleymdi þessu náttúrulega, enda sá ég heldur ekki hvernig sú stutta myndi höndla það að vera í einhverjum búning, held hún hefði nú rifið sig úr honum fljótlega.  Svo ég setti hana bara í sæt föt og setti svo smá svona framan í hana.  Það var ekki auðvelt, en mikið sem okkur fannst hún krúttleg á eftir.

Fastelavns-kisa

 

Snúllurass
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
En, eins og fyrr sagði, svo kom hún heim lasin. Hún var komin með góðan hita um kvöldið og daginn eftir var hún alveg orðin hundlasin með háan hita.  Hún skiptist bara á að vera í fanginu á mér og pabba sínum.  Í gær var hún svo voða slöpp fyrri part dags en hresstist um allan helming seinni partinn.  Þá tókum við þessar myndir af henni:
Lítill lasarus ILasarus að lesa bókLasarus að pota í nebbaLítill lasarus II
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
Þarna má sjá hana nokkuð káta, svo erum við búin að vera að læra hvar nebbinn er og bumban og munnurinn og svona og henni finnst voða gaman að pota í nebbann sinn og mömmu og svona.  Þarna má líka sjá hana lesa í uppáhaldsbókinni sinni þessa dagana, hún kemur með þessa í tíma og ótíma, klifrar uppí sófa til manns og vill að við lesum bókina saman.  Svo geltir hún yfirleitt þegar hún sér bangsann á síðustu myndinni LoL.  Ekki alveg búin að ná muninum milli dýra.. eða allavega ekki hvað dýrin segja Tounge.  Hún er farin að skilja svo mikið að maður er eiginlega ekki farinn að átta sig á því.  Halldór bað hana t.d. um að sækja skóna sína og hún sótti annan skóinn sinn fram og þá bað hann hana um að sækja hinn skóinn, sem hún og gerði.  Auk þess sem maður getur orðið spurt hana að hinu og þessu sem hún svarar þá með því að hrista hausinn eða kinka kolli... og svarar þá yfirleitt rétt Grin.  
 
 
 
 
 
 
 
Svo er hún komin með ægilega dellu fyrir einu.  Þá tekur hún púða sem Eysteinn saumaði, sem er með svona handfangi og setur hann á handlegginn, eins og hún beri veski, og segir svo ,,Hæ hæ" (bless bless í þessu tilviki, þar sem hæ þýðir bæði hæ og bæ hérna) og vinkar, röltir svo með gönguvagninn sinn í burtu á ganginum.  Hér má sjá æðislegar myndir af því, þarna var ég búin að klæða hana í skó því við vorum að fara út og hún setti húfuna á sig sjálf og fann til vagninn og ,,veskið" og vinkaði bless!
Og lögð af stað :)Hún er svo dugleg Joyful
Tilbúin í kaupstaðarferð

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband